Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Guðmundur G. Þórarinsson:
    Herra forseti. Ég vil lýsa stuðningi við þessa tillögu sem hér er fram komin. Ég hefði reyndar kosið að hún gilti fyrir innlendan iðnað almennt. Það er alveg ljóst að nokkur mismunun er á innflutningi og innlendum iðnaði gagnvart byrjunarpunkti þessa vörugjalds. Innflutningur fyrir gildistöku frv. er vörugjaldslaus en hins vegar leggst vörugjald á birgðir innlends iðnaðar samkvæmt ákveðinni tímasetningu sem við vorum reyndar með 1. jan.
    Ég vil mótmæla því, sem fram kom hjá hv. þm. Geir Haarde, að hér sé verið að ræða um eitthvert undanhald stjórnarsinna. Hv. þm. er vel kunnugt um að í fjh.- og viðskn. varð þetta atriði um samtíma gildistöku vörugjalds fyrir innlendan iðnað og innflutning mjög að umræðuefni. Sjálfur vísaði ég því hvað eftir annað til okkar ráðgjafa og starfsmanna fjmrn. hvernig unnt væri að koma þessu máli fyrir á annan hátt þannig að ekki íþyngdi innlendum iðnaði en stöðugt var borið við tæknilegum erfiðleikum í framkvæmd. Hér er auðvitað um það að ræða að birgðatalning verður að fara fram aftur ef ekki á að koma vörugjald á birgðir fyrir ákveðinn tíma.
    Ég hefði kosið að þetta yrði fremur á allan innlendan iðnað en samþykki þessa tillögu enda ber ég mjög fyrir brjósti innlendan húsgagna- og innréttingaiðnað.