Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það að ég sé ekkert undanhald sem slíkt í þessari ráðstöfun eða í auknum álögum. Ég sé stórsókn ríkisstjórnarflokkanna á fólkið í landinu, sérstaklega á þá sem eiga erfiðast með að standa í skilum við hið opinbera og daglegar þarfir þannig að hér er um stórsókn að ræða. Ég tek undir það með hv. 10. þm. Reykv. að hér er ekki um undanhald að ræða.
    Hitt er annað mál að fróðlegt væri að fá að heyra í hæstv. utanrrh. og ég tala ekki um hæstv. viðskrh. sem, ef ég man rétt, er að taka sæti í einni af þessum erlendu stórstofnunum sem eiga bæði að gæta réttar stofnana og réttlætis í meðferð þings hverrar þjóðar sem er í einhverjum tengslum við þessar stofnanir í meðferð mála. Ég fullyrði að hér er ekki rétt að staðið og ég bið hæstv. ráðherra, annan hvorn eða báða, um að koma hér upp og segja að ég fari með rétt mál eða að sjá til þess að undir þeirra forustu verði ekki rangt staðið að málum hér.
    Ég vil spyrja hæstv. fjmrh. og bið hann um að svara. --- Þessi þögn á að vera svona eins og til að strika undir svo menn taki vel eftir. --- Hvað kostar þetta í minnkandi tekjum fyrir ríkissjóð? Er það á fleiri sviðum sem hægt er að lækka álögur á íslenskan iðnað eða á fólkið í landinu á seinni stigum eða á síðustu mínútum fyrir jólafrí? Eitthvað hlýtur þetta að þýða í tekjumissi og það væri gaman að vita hvort fleiri svona póstar væru til að létta á launþegunum, að létta á litla fólkinu, létta á þeim sem við viljum gera svo mikið fyrir. Við viljum sjá til þess að litla fólkið, fólkið með lágu launin geti átt sæmilega gleðileg jól án þess að við hér aukum á áhyggjur þess. Ég hélt einmitt að við værum ekki til þess að vera vondir við fólkið heldur til þess að vera góðir við það, ekki til að vera eins konar lögreglulið á landslýð. Að sjálfsögðu þýðir hækkun á sköttum, hækkun á vörugjaldinu að það fer beint út í verðlagið og kemur þá náttúrlega hvergi annars staðar frá en úr launapökkum fólksins hvort sem það hefur mikið eða lítið í laun.
    Ég vil leggja áherslu á að á þessu seinna stigi rétt fyrir jólahlé svari ráðherrarnir því hvort þetta er brot á því samkomulagi sem gert hefur verið við erlend samtök um samskipti þjóða á milli og hins vegar hvað þetta þýðir í tekjutapi. Ef við þolum að tapa, kannski verulegum upphæðum af þessu, eru þá fleiri póstar sem við gætum tekið upp ef við vinnum á milli jóla og nýárs, förum ekki í jólafrí og vinnum nákvæmlega jafnmikið og fólkið í landinu gerir yfirleitt um þetta leyti árs.