Tekjuskattur og eignarskattur
Fimmtudaginn 22. desember 1988

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Það voru athyglisverðar upplýsingar sem komu fram hjá hæstv. utanrrh., sem sagði að samkvæmt þeirri könnun sem farið hefði fram í utanrrn. væri heimilt að ákveða með þeim hætti, sem hæstv. ríkisstjórn og stjórnarmeirihlutinn á þingi hefðu samþykkt, þennan þátt vörugjaldsins. Hæstv. ráðherra bætti því við að það væri vegna sanngirnissjónarmiða. Nú spyr ég: Af hverju eiga sanngirnissjónarmiðin ekki við um aðra vöruflokka þar sem um er að ræða innlenda framleiðslu? Ég tel eðlilegt fyrst þetta er rökstuðningur í málinu að annaðhvort hæstv. fjmrh., sem ekki fæst til þess að standa á fætur í þessari umræðu, eða hæstv. utanrrh. svari þeirri spurningu því að sá fjöldi fólks sem vinnur við slíka framleiðslu hér á landi hlýtur að eiga kröfu á því að vita hvers vegna sanngirnissjónarmið eiga ekki við þegar talað er um vinnu alls fólks. Óska ég eftir, virðulegur forseti, að því sé svarað.