Erfðalög
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég fagna því að frv. er hér komið fram. Það ber með sér breytingar sem eru flestar til bóta en eins og kom fram í framsögu hæstv. ráðherra er það einkum hvað varðar réttindi eftirlifandi maka gagnvart sameiginlegum niðjum hans og skammlífari maka og stjúpbörnum.
    Þetta mál var borið fram a.m.k. tvisvar á sl. kjörtímabili og var ég meðflm. auk annarra þingmanna, en 1. flm. var hv. þm. Guðrún Helgadóttir og hefur hún einkum beitt sér fyrir þessu máli. Í umfjöllun allshn. Nd. um frv. 1984--1985 hlaut það samþykki nefndarinnar með nokkurri breytingu, en þó var ekki tekið tillit til brtt. sem fram kom af hálfu 1. flm. og annarra, en hún fjallaði aðallega um að ekki yrði gerður svo mikill greinarmunur á börnum og stjúpbörnum. Þessi aðgreining helst áfram í þessu frv., en þó hefur greinilega verið stigið þarna skref til að auka réttindi eftirlifandi maka þar sem skammlífari maki getur kveðið svo á um í erfðaskrá sinni að eftirlifandi maki geti setið áfram í óskiptu búi án tillits til vilja stjúpbarna.
    Ég vil taka undir allar þær breytingar sem hér hafa verið lagðar til og tel þær allar til bóta. Ég er sammála því að það þurfi kannski að fjalla betur um í nefndinni hvaða aðgreiningu á að gera á réttindum barna og stjúpbarna og vildi þess vegna biðja um áheyrnaraðild að umfjöllun málsins í nefndinni þegar hún fer fram. En að öðru leyti lýsi ég mig samþykka þessum breytingum og tel að þær séu allar skref í rétta átt og til bóta.