Friðun hreindýra
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um hreindýr og verndun þeirra. Frv. er ætlað að tryggja áframhaldandi friðun hreindýra, þó þannig að veiðar á þeim séu heimilar að vissu marki samkvæmt ákveðnu skipulagi.
    Meginatriði frv. er að tryggja tilvist hóflegs fjölda hreindýra í landinu, friðun þeirra og að kveða á um nytjar á stofninum eftir því sem stærð hans leyfir. Að þessu leyti er frv. efnislega samhljóða núgildandi lögum um friðun hreindýra og eftirlit með þeim, nr. 28/1940, þ.e. þau eru byggð á þeirri meginreglu að hreindýr séu friðuð með þeim undantekningum sem í frv. greinir.
    Það frv. sem nú liggur fyrir er mun ítarlegra en núgildandi lög hvað varðar stjórnun og skipulag hreindýramála og eftirlit með hreindýrastofninum. Til þess að ná framangreindu meginmarkmiði er í frv. einkum gert ráð fyrir breytingum á eftirfarandi þáttum:
    1. Að því er varðar stjórn og skipulag. Settar verði skýrari reglur um stjórn og skipulag á hreindýramálum. Yfirstjórn hreindýramála verður eftir sem áður í höndum menntmrn., en ráðuneytinu til aðstoðar við framkvæmd laganna verði sérstakur umsjónarmaður hreindýra og ráðgjafarnefnd, hreindýranefnd. Þá er gert ráð fyrir ráðningu hreindýraeftirlitsmanna í sveitarfélögunum þar sem hreindýr ganga. Menntmrn. ákveður þann heildarfjölda dýra sem fella má hverju sinni að fengnum tillögum umsjónarmans, en hreindýranefnd ákveður síðan skiptinguna innbyrðis á milli sveitarfélaga og er það nýmæli.
    Lagt er til að stofnuð verði sérstök staða umsjónarmanns með hreindýrunum sem hafi það hlutverk m.a. að vera tengiliður milli menntmrn. og þeirra ýmsu aðila sem telja sig málefni hreindýra varða. Hann á að hafa eftirlit með friðun og veiði hreindýra. Þá er það jafnframt hlutverk umsjónarmannsins að stjórna rannsóknum á hreindýrastofninum og gera tillögur til ráðuneytisins um fjölda þeirra dýra sem heimilt er að fella á hverju ári.
    Vegna þess hlutverks sem umsjónarmaður hreindýra á að gegna við friðun hreindýra og rannsókna á þeim er lagt til í frv. að umsjónarmaðurinn þurfi að uppfylla ákveðin menntunarskilyrði, þ.e. að vera menntaður í líffræði eða hafa aðra sambærilega menntun.
    Hreindýranefnd hefur það hlutverk með höndum að vera ráðgefandi um framkvæmd laganna. Skipun slíkrar nefndar er nýmæli. Í nefndinni eiga sæti eins og frv. er fimm fulltrúar þeirra aðila sem þessi mál varða mest. Þar sem hér er um að ræða friðunarlöggjöf þykir eðlilegt að Náttúruverndarráð tilnefni tvo þeirra.
    Í öðru lagi fjallar frv. um eftirlit og þar er gert ráð fyrir mun virkara eftirlitskerfi með hreindýrum en verið hefur. Starf umsjónarmanns á að tryggja virkara eftirlit en verið hefur til þessa. Jafnframt er lagt til að það fyrirkomulag um skipun hreindýraeftirlitsmanna

sem hingað til hefur gilt samkvæmt reglum menntmrn. um hreindýraveiðar verði lögfest. Hlutverk hreindýraeftirlitsmannanna er að sinna eftirlitsstörfum undir stjórn eftirlitsmanns og í einstökum veiðiferðum. Með tilliti til þeirra friðunarsjónarmiða sem frv. er reist á er lagt til að veiðar fari fram undir eftirliti hreindýraeftirlitsmanns eða leiðsögumanns á hans vegum og er það einnig nýmæli.
    Þriðji þátturinn lýtur að gjaldtöku, en stefnt er að því að gjaldtaka fyrir veiðarnar verði gerð einfaldari. Lagt er til að veiðileyfi séu veitt sveitarfélögum gegn greiðslu gjalds í ríkissjóð sem verja á til greiðslu kostnaðar við framkvæmd laganna. Sveitarstjórnum er síðan heimilt að endurselja veiðileyfi samkvæmt nánari fyrirmælum sem sett yrðu í reglugerð. Þykir þessi háttur á gjaldtöku einfaldari en það sem tíðkast hefur. Gert er ráð fyrir að menntmrn. setji reglur um gjaldtöku fyrir veiðileyfi og felld hreindýr. Andvirði felldra hreindýra og tekjur af endursölu veiðileyfa renna í sveitarsjóð og skal þeim fjármunum varið m.a. til þess að bæta þeim sem að einhverju leyti verða fyrir ágangi hreindýra tjón þeirra.
    Fjórði meginþátturinn í breytingu lagafrv. þessa lýtur að því að hér er gert ráð fyrir því að veiði hreindýra fylgi ekki eignarrétti á landi. Þar er tekið af skarið um það að eignarréttur að landi skapi ekki eigendum landa rétt til veiða. Er hér um almenna takmörkun á eignarrétti að ræða sem leiðir af þeim friðunarsjónarmiðum sem lög þessi eru reist á.
    Enda þótt meginregla íslensks réttar sé sú að veiði fylgi eignarrétti að landi er þó í frv. þessu gert ráð fyrir að löggjafinn hafi heimild til að kveða á um þá tilhögun sem hér er lögð til, þ.e. að rétturinn til veiða á hreindýrum og arðurinn af þeim tilheyri þeim sveitarfélögum þar sem hreindýr ganga en fylgi ekki eignarrétti á landi. Er þetta gert til að auðvelda friðun hreindýra og skipulagningu hinna takmörkuðu veiða. Er m.a. byggt á því að hreindýr hafa verið friðuð um langa hríð og veiði þeirra hefur ekki verið tengd veiðirétti landeigenda eða rétthafa beitarréttinda og því veiðirétturinn ekki verið fémætur í höndum landeigenda. Þótt sveitarfélag geti skipulagt veiðar innan síns umdæmis er sérstaklega tekið fram í frv. að þau geti ekki skipulagt veiðar í eignarlöndum og afréttum, sem háðir eru einstaklingseignarrétti, án samþykkis eiganda.
    Fimmti þátturinn að því er varðar frv. þetta og nýmæli þess fjallar um skyldur þeirra er hafa veiðiheimildir. Í frv. eru nokkuð ítarleg ákvæði um skyldur þeirra aðila sem hafa heimildir til að veiða hreindýr. Eru gerðar hæfniskröfur til þeirra um skotfimi og kunnáttu í meðferð skotvopna, en einungis er heimilt að nota til veiðanna tilteknar gerðir skotvopna, sbr. 11. gr. frv. Þá er óheimilt að skjóta hreindýr úr vélknúnu farartæki eða nota það til að smala hreindýrunum á veiðistað, en nauðsynlegt þótti að taka það sérstaklega fram í frv.
    Þá er sérstaklega tekið fram að þeim sem fá heimild til að skjóta hreindýr sé skylt að virða lög og reglur um náttúruvernd og umferð, m.a. að aka ekki

utan vega eða vegarslóða. Veiðar skulu fara fram undir eftirliti hreindýraeftirlitsmanns eða leiðsögumanns á hans vegum svo sem áður er vikið að.
    Hér hef ég, herra forseti, gert grein fyrir helstu breytingunum sem í frv. þessu felast. Þetta frv. hefur verið í undirbúningi í mörg ár. Margar nefndir hafa komið að þessum málum og nú síðast störfuðu að endurskoðun frumvarpsdraga sem fyrir lágu lögfræðingarnir Friðgeir Björnsson og Þorgeir Örlygsson að fyrirlagi Birgis Ísl. Gunnarssonar þáv. menntmrh. Frv. er flutt hér eins og það var lagt fram og undirbúið af þessum lögfræðingum með lítils háttar breytingum sem gerðar voru í þingflokkunum þegar málið var til meðferðar áður en það var lagt hér fram sem stjfrv.
    Ég tel við hæfi að geta þess, herra forseti, í tengslum við framlagningu þessa frv. að þau mál sem hér um ræðir og lúta að verndun hreindýra og hreindýraveiðum hér á landi hafa í menntmrn. verið um árabil í höndum Runólfs Þórarinssonar deildarstjóra sem hefur starfað í ráðuneytinu í áratugi en hefur frá síðustu áramótum látið þar af störfum. Ég tel ástæðu til að geta hans sérstaklega vegna þess að ég veit að hv. þm. þekkja hans hlut að þessum málum.
    Einnig vil ég láta það koma hér fram að lokum, sem ég tel að sé rétt að hafa í huga, að að sjálfsögðu á mál eins og þetta heima í umhverfismálaráðuneyti þegar það verður til og auðvitað á umhverfismálaráðuneyti að verða til og að því hefur verið unnið og það hefur m.a. verið rætt á milli stjórnarflokkanna undanfarna mánuði.
    Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.