Aðgerðir í efnahagsmálum
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Þegar þingmenn hurfu frá þessari umræðu fyrir jólaleyfi Alþingis hygg ég að flestir hafi reiknað með því að hæstv. ríkisstjórn mundi nota tímann frá því að jólaleyfi hófst og þar til Alþingi kæmi saman á nýju ári til þess að taka ákvarðanir um viðbótaraðgerðir í efnahagsmálum í þeim tilgangi að treysta rekstur útflutningsframleiðslunnar. Ég hygg að fáir hafi haft aðra trú en að hæstv. ríkisstjórn hefði þá þegar undirbúið þau mál svo vandlega að nú þegar Alþingi kemur saman á nýju ári væru þær tillögur tilbúnar og e.t.v. komnar í framkvæmd. Þau frv. sem hér eru til umræðu hafa verið grundvöllur að efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
    Nú kemur það hins vegar á daginn, þvert ofan í það sem vonir manna stóðu til, þvert ofan í það sem menn trúðu og gefið hafði verið til kynna, að hæstv. ríkisstjórn hefur ekkert aðhafst í þessum efnum utan það að safna viðbótarupplýsingum sem auðvitað er góðra gjalda vert. Og þeir sem lesa forustugreinar dagblaðsins Tímans tóku enda eftir því að í nýársleiðara blaðsins var lögð á það höfuðáhersla að stjórnarstefnan hefði breyst í þá veru að nú væri lagt miklu meira kapp á öflun upplýsinga en áður. Er það nú tilefni til umfjöllunar um breytta stjórnarstefnu að meira kapp sé lagt á söfnun upplýsinga en áður, ekki síst þegar haft er í huga að slíkar yfirlýsingar eru gefnar í tilefni áramóta, að hin breytta stjórnarstefna sé í raun ekki annað en breytt upplýsingastefna.
    Það vakti þó einna mesta athygli, þegar hæstv. ríkisstjórn tilkynnti að hún hefði tekið ákvörðun um að breyta gengi krónunnar, að hæstv. utanrrh. notaði það tilefni til þess að senda íslensku þjóðinni þau skilaboð á öldum ljósvakans að hann vænti þess að forustumenn í íslenskum sjávarútvegi og stjórnmálamenn létu nú af ,,því óþjóðholla tali``, eins og sagt var, að ræða um ranga gengisskráningu krónunnar. Hann sendi þessi skilaboð út til fólksins í landinu á öldum ljósvakans að nú skyldi fólkið í landinu, forustumenn fiskvinnslunnar, láta af hinu óþjóðholla tali. Hvað stendur á bak við þessi orð hæstv. utanrrh.? Það er að dómi þessarar hæstv. ríkisstjórnar óþjóðhollusta að ræða um almenn rekstrarskilyrði fyrir höfuðatvinnuveg landsmanna. Það er óþjóðhollusta að setja fram þá kröfu að vel rekin atvinnufyrirtæki í sjávarútvegi búi við sómasamleg rekstrarskilyrði, búi við þau rekstrarskilyrði að það geti verið nokkur afgangur af rekstrinum til áframhaldandi uppbyggingar, tækninýjunga og til þess að búa svo um hnútana að unnt sé að auka verðmætasköpunina í landinu. Þessi krafa er núna kölluð óþjóðhollustukrafa. Það er hinn nýi boðskapur. Það var áramótaboðskapur hæstv. ríkisstjórnar. Hygg ég að ýmsir hafi vænst annars af hæstv. ríkisstjórn en þessa. Ég hygg að fólkið sem starfar í sjávarútveginum geti seint litið svo á að það sé óþjóðhollusta að setja fram slíka kröfu. En athugasemdalaust af hálfu annarra ráðherra í ríkisstjórn Íslands var þessi sending send á öldum ljósvakans út um landið.

    Síðan kom hæstv. fjmrh., sem hefur haft á hendi forustu um mótun stefnunnar í efnahags-, atvinnu- og fjármálum, og sagði: ,,Þessi ráðstöfun sýnir stefnufestu ríkisstjórnarinnar.`` Stefnufestan er í því fólgin að segja sem svo við fólkið í landinu: ,,Sjávarútvegurinn er rekinn með halla og hann skal áfram rekinn með halla þangað til allt rekur endanlega í strand.`` Í því er stefnufestan fólgin. Þetta er það sem forustumenn alþýðubandalagsflokksins nýja boða þjóðinni. Þeir ætla að vísu ekki að varpa þessum spurningum fram á sameiginlegum fundum sínum ef mark má taka af viðtölum við þá í blöðunum í morgun. Þar á að varpa fram þeim spurningum til grasrótarinnar hvort hæstv. fjmrh. sé NATO-sinni eða NATO-andstæðingur og hefði nú sumum fundist sem svo að það væri hægt að leita svara við þeirri spurningu hér á hinu háa Alþingi en þyrfti ekki að fara út um víðan völl til að spyrja grasrótina að því. Kannski veit hæstv. utanrrh. líka hvort hann er NATO-sinni eða NATO-andstæðingur. En það á ekki að spyrja fólkið í landinu að hinu, hvort það telur eðlilegt og rétt að hér sé rekstrargrundvöllur fyrir höfuðatvinnuveg þjóðarinnar. Nei, það á bara að gefa eina yfirlýsingu þar um, að það sé óþjóðhollusta að tala á þeim nótum. Það liggur við að í orðum hæstv. ráðherra hafi falist að það nálgist landráð að tala um rekstrarskilyrði fyrir höfuðatvinnuveg landsmanna. Ég ætla ekki að leggja honum þau orð í munn en það stappaði nærri að á þann veg einan væri hægt að skilja þessi ummæli.
    Hæstv. ríkisstjórn tók ákvörðun um að breyta gengi krónunnar um 4%. Því var bætt við að Seðlabankinn hefði síðan heimild til viðbótarbreytingar upp á 1--2%. Það hefur ekki komið skýrt fram enn sem komið er hvort hér er um að ræða heimild sem takmarkar viðbótarbreytingar við 1--2% eða hvort Seðlabankinn hefur heimild til þess á hverjum degi eða í hvert skipti sem hann hefur og sér ástæðu til að fella gengið um 1--2%, þannig að unnt verði, hugsanlega á örfáum vikum, að ná fram þeirri raungengisbreytingu sem flestir eru sammála um að þörf er á og hæstv. forsrh. hefur þó nokkrum sinnum bent á með því að sýna fram á hversu mikil skekkja er í skráningu á raungenginu. Æskilegt væri að fá svör við þessu frá hæstv. ríkisstjórn: Er hér um takmarkaða heimild að ræða
sem í heild er bundin við 1--2% eða hefur Seðlabankinn þessa heimild í hvert sinn þannig að þess megi vænta að annað og meir felist í ákvörðuninni en í fyrstu hefur komið fram?
    Þessi breyting gerir ekki annað en að koma dollaranum í sama horf og hann var við lok septembermánaðar samkvæmt ákvörðunum um gengisbreytingar sem teknar voru í maímánuði á sl. ári. Það var mín skoðun í haust og ég hygg margra annarra að þá þegar hafi staða útflutningsatvinnuveganna verið með þeim hætti að rekstrarskilyrðin voru óviðunandi, að þá hafi verið nauðsyn að gera ráðstafanir sem tryggðu útflutningsgreinunum auknar tekjur. En nú er sá boðskapur fluttur, og einna helst af þeim sem stærstu

orðin hafa haft um það að viðskilnaður fráfarandi ríkisstjórnar hafi verið svo slæmur vegna þess hversu illa var komið fyrir atvinnuvegunum, þá voru þau orð höfð núna að þetta séu þau einu og sönnu rekstrarskilyrði, þ.e. þau skilyrði sem atvinnuvegirnir bjuggu við í september sl., og annað og meira megi ekki gera, þá séu menn ekki lengur þjóðhollir. Og er nú skörin farin að færast upp í bekkinn þegar litið er til allra stóru orðanna sem sögð hafa verið á undanförnum vikum.
    Ríkisstjórnin sjálf hefur svo með aðgerðum af sinni hálfu verið að hækka raungengið að undanförnu með skattahækkunum af ýmsu tagi sem fara út í verðlagið og leiða til þess að raungengi krónunnar hækkar af þeim sökum. Það eru ekki ákvarðanir einhverra annarra. Það eru beinar ákvarðanir hæstv. ríkisstjórnar. Þessi gengisbreyting gerir lítið meira en að vega upp þá hækkun á raungenginu sem er afleiðing af skatta- og verðlagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar.
    Ég ætla ekki hér við þessa umræðu, þó að ærið tilefni væri til, að fara í einstökum atriðum yfir þær ákvarðanir sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið í skattamálum. En hitt er ljóst, og því hefur íslenska þjóðin núna gert sér grein fyrir, að það er einn aðili í þjóðfélaginu sem algjörlega hefur virt verðstöðvun að vettugi og það er hæstv. ríkisstjórn. Í ágústmánuði sl. var tekin ákvörðun um verðstöðvun. Slíkar ákvarðanir geta verið eðlilegar og oft nauðsynlegar um stundarsakir. Mitt mat var það að á þeim tíma hafi slík ákvörðun verið eðlileg og nauðsynleg og sannarlega skilaði hún talsverðum árangri. Það hefur komið fram eftir að þessi verðstöðvun var svo framlengd að atvinnureksturinn í landinu hefur tekið á sig umtalsverðar kauphækkanir. Atvinnureksturinn í landinu hefur til að mynda tekið á sig að mestöllu leyti þá gengisbreytingu sem ákveðin var í haust eða látin koma til framkvæmda í haust samkvæmt ákvörðun sem tekin var í maí. Á stundum hefur það verið tilefni heitra deilna að atvinnurekendur, og þá kannski einkanlega kaupmenn, væru ekki tilbúnir til þess að taka á þegar þjóðin stendur frammi fyrir erfiðum ákvörðunum og nokkrum þrengingum. Núna er hitt staðreynd, svo ánægjuleg staðreynd að hæstv. fjmrh. hefur varla opnað munninn öðruvísi en að vekja á því athygli að kaupmennirnir í landinu hafi tekið gengisbreytinguna á sig, borið þann kostnaðarauka sem hún hefur haft í för með sér. Og fólkið í landinu hefur tekið á sig sinn hlut. En þá komum við að eina aðilanum sem segir: Ekki ég. Verðstöðvunin sem ég setti á ekki við mig. Við virðum hana ekki, segir hæstv. ríkisstjórn. Við ætlum að virða hana algjörlega að vettugi. Þetta er boðskapur hæstv. ríkisstjórnar. Þegar atvinnulífið og fólkið í landinu segir ekki einasta: Við erum reiðubúin til þess að taka okkar skerf á okkur, heldur sýnum við það í verki og með svo áþreifanlegum hætti að jafnvel formaður Alþb. syngur kaupmönnum lof og prís af því tilefni, þá kemur ríkisstjórnin og segir: Við hækkum skattana. Við ætlum ekki að taka þátt í verðstöðvuninni. Við ætlum að hækka verðlagið af því

að við þurfum okkar skerf. Við þurfum að auka umsvifin þó að aðrir þurfi að draga saman.
    Og hver er nú árangurinn af þessu? Undanfarnar vikur og kannski um það bil tvo mánuði höfum við búið við nánast verðbólgulaust tímabil sem afleiðingu af verðstöðvun. Nánast verðbólgulaust tímabil. En hver er nú afleiðingin af þeim ákvörðunum sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið?
    Það stefnir í það að vísitala framfærslukostnaðar muni hækka í þessum mánuði um 1,5% eða þar um bil og er það sennilega vægt reiknað. Hvað þýðir það í ársverðbólgu? Það þýðir 20% verðbólgu. Nú segja menn eðlilega: Það er ekki sanngjarnt og rétt að taka hækkun í einum mánuði og færa hana yfir í ársverðbólgu. Það er eðlilegt að líta yfir lengra tímabil. Og ég tek auðvitað undir það. Einn mánuður er ekki nein afgerandi vísbending um verðbólguþróunina í landinu. Þó að tölur eins mánaðar geti sagt mikið, þá ráða þær auðvitað ekki úrslitum. En tölur þessa mánaðar benda til þess að verðbólgan sé komin upp í 20%.
    En hverjar eru þá horfurnar á næstu þremur mánuðum? Allir þeir sérfræðingar, sem um þau mál hafa fjallað, eru þeirrar skoðunar að vægilega reiknað megi búast við því að í febrúar og mars verði hækkunin af svipuðum toga að meðaltali. Þetta þýðir að á næstu þremur mánuðum búum við við 20% verðbólgu, einvörðungu sem afleiðingu af ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar, ekki vegna þess að kaupmenn hafi verið að velta kostnaði út í verðlagið, heldur þvert á móti hafi þeir tekið á sig kostnað eins og hæstv. fjmrh. hefur rækilega bent á.
Verðbólgan er ekki að fara í 20% næstu þrjá mánuði af því að launafólkið í landinu hafi verið að gera verðbólgukjarasamninga. Verðbólgan er að fara í 20% næstu þrjá mánuði einvörðungu vegna ákvarðana sem hæstv. ríkisstjórn hefur tekið og af engum öðrum ástæðum. Þetta eru býsna alvarlegar staðreyndir sem við blasa.
    Lánskjaravísitalan kemur svo væntanlega til með að hækka nokkuð meira vegna áhrifa frá ákvörðunum hæstv. ríkisstjórnar, en eins og menn rekur minni til var það einmitt sérstakt framlag Alþfl. til húsnæðismála, fyrsta alvöruframlag Alþfl. til húsnæðismála, að leggja skatta á byggingarefni, húsgögn og innréttingar til þess að gera ungu fólki erfiðara um vik að eignast eigið húsnæði. Afleiðingin af þessari húsnæðisstefnu Alþfl. er að koma fram í hækkuðum byggingarkostnaði sem leiðir auðvitað til hækkunar á byggingarvísitölu og þar af leiðandi til þess að lánskjaravísitalan hækkar meira en framfærsluvísitalan. Ætli árshækkun lánskjaravísitölunnar verði ekki einhvers staðar á bilinu 22--25%, einvörðungu vegna ákvarðana ríkisstjórnarinnar?
    Þetta eru athyglisverðar staðreyndir. Athyglisverðar fyrir það að með sínum ákvörðunum á hæstv. ríkisstjórn sök á þessum umskiptum, breytingu úr nánast núlli í verðbólgu undanfarna tvo mánuði upp í 20%. Og að öllum líkindum, ef fram heldur sem

horfir, fer þessi verðbólguþróun svo vaxandi á mánuðunum sem þar koma á eftir. Þetta eru staðreyndir sem menn þó hafa fyrir augum og ekki verða umflúnar hvað sem menn annars aðhafast og er ástæðulaust á þessu stigi að vera að hafa uppi stóra spádóma um það sem síðar kann að gerast í þessum efnum.
    Forseti Alþýðusambandsins hefur sagt að þessar ráðstafanir hæstv. ríkisstjórnar leiði til um það bil 7% kjaraskerðingar.
    Nú get ég um margt tekið undir það sem hæstv. sjútvrh. sagði hér á Alþingi fyrir jól, að engar þær ráðstafanir yrðu gerðar í alvöru til þess að rétta við hag útflutningsframleiðslunnar sem ekki hefðu þann fylgikvilla að kjör fólksins í landinu mundu skerðast eitthvað. Þetta var karlmannlega mælt af hálfu hæstv. ráðherra. Því miður er það svo að ég hef ekki trú á því að neinar alvöruaðgerðir verði gerðar í þessu efni nema þær sem hafa þessa afleiðingu. Dagblaðið Þjóðviljinn, og sá ritstjóri þess sem talinn er sérstakur málsvari hæstv. fjmrh., hefur svo notað þessa yfirlýsingu hæstv. utanrrh. sem sérstakt árásarefni og í forustugrein Þjóðviljans í dag fær hæstv. sjútvrh. sérstaka kveðju frá hæstv. fjmrh. fyrir þessa yfirlýsingu. Látið er í það skína að skattheimturáðherrann, kjaraskerðingarráðherrann sé einhverrar annarrar skoðunar, ráðherrann sem ber ábyrgð á kjaraskerðingunni. Nei, Þjóðviljinn gerir hæstv. sjútvrh. að hinum mikla sökudólgi kjaraskerðingarinnar og er þó á allra manna vitorði að hæstv. fjmrh. hafi um þetta forustu og frumkvæði og hann hefur jafnvel með nokkrum blekkingum fengið suma stjórnarflokkana til liðs vig sig í þeim efnum. En þannig eru kveðjurnar sendar á milli.
    Það er hins vegar áhyggjuefni að nú stefnir í þessa kjaraskerðingu, um 7% að mati forseta Alþýðusambandsins, án þess að nokkuð hafi verið gert til þess að rétta við rekstur útflutningsframleiðslunnar. Auðvitað getur þjóðin þurft að horfa framan í kjaraskerðingu og taka hana á sig ef í raun og veru er verið að gera ráðstafanir sem tryggja rekstur útflutningsframleiðslunnar sem skapar verðmæti sem við lifum á. Ég tek undir þau sjónarmið sem hæstv. sjútvrh. hefur sett fram í þessum efnum. En það hlýtur að vera mikið áhyggjuefni þegar slík kjaraskerðing blasir við án þess að nokkrar ráðstafanir hafi verið gerðar af þessu tagi og án þess að það bóli á þeim.
    Hæstv. ríkisstjórn boðaði í sömu mund og bráðabirgðalögin voru gefin út sl. haust að gera ætti sérstakar ráðstafanir sem hv. 10. þm. Reykv. hefur nú kallað biðleik svona til þess að spotta svolítið forustumenn eigin flokks. Biðleikurinn var í því fólginn að lækka raforkuverð til fiskvinnslufyrirtækja. Þetta hefur ekki verið gert enn. Og nú eru gefnar út yfirlýsingar um það að í þeim nýju ráðstöfunum sem ríkisstjórnin hefur verið að tala um síðustu vikur eigi það einmitt að vera fólgið að framkvæma það sem lofað var í byrjun október. Fyrsta efnahagsráðstöfunin var fólgin í því að lofa og á fjórða mánuði er farið að

tala um að næstu ráðstafanir verði í því fólgnar að framkvæma það sem lofað var fyrir fjórum mánuðum. Með hvaða hætti á að gera þetta? Það er ástæða til að inna hæstv. ríkisstjórn eftir því. Á að framkvæma þetta með þeim hætti að hækka raforkuverð á almenningi eða á að leggja þetta á ríkissjóð? Hvor niðurstaðan sem verður í þessu efni, þá hlýtur að vera komið að því að hæstv. ríkisstjórn segi þjóðinni frá því hvora leiðina á að fara. Á að hækka raforkuverðið til almennings á móti? Eða á að leggja þetta á ríkissjóð sem hlýtur þá að kalla á aukna skattheimtu? Það hlýtur að þurfa að taka tillit til þess við afgreiðslu fjárlaga á morgun ef þá leið á að fara. Þessu þarf hæstv. ríkisstjórn að svara.
    Í annan stað var gefið fyrirheit um mikla skuldbreytingu í nýjum sjóði sem stofnaður var og var það auðvitað mál út af fyrir sig að ekki væri hægt að koma fram skuldbreytingu nema stofna nýjan sjóð með sérstakri
kommissarastjórn. Fram til þessa hefur verið unnt að koma fram skuldbreytingum í sjóðum atvinnuveganna og í þeim bönkum sem starfandi eru. En nú þurfti stefna Alþb. að ná fram að ganga eins og henni var skilmerkilega lýst í forustugrein Þjóðviljans. Þau fyrirtæki eiga að lifa sem þeir hafa velþóknun á sem ferðinni ráða, eins og það var orðað. Þá þurfti að stofna nýjan sjóð með kommissarastjórn.
    Nú vill svo til að sjóður þessi hefur starfað með allmiklum bægslagangi án þess að þess sjáist nokkurs staðar stað í atvinnulífinu. Enn sem komið er eru pappírar þessa sjóðs ekki gjaldgengir. Samband almennra lífeyrissjóða gefur út yfirlýsingu þar um, telur bæði að tryggingar séu ónógar og bendir á að vextir séu lægri en almennt gerist og hvort tveggja, að því er manni skilst, út af fyrir sig ræður því að pappírarnir eru ekki gjaldgengir. Viðskiptabankarnir hafa enn sem komið er ekki hafið að kaupa eða taka við þessum pappírum. Þessi stóra aðgerð hefur því ekki komið til framkvæmda enn. Var þó skuldbreyting við þær aðstæður alveg nauðsynleg og býsna mikilvægt að ekki yrði dráttur á að hún kæmi til framkvæmda. Það mátti öllum vera ljóst að aðgerð af þessu tagi, að skuldbreyta fyrir útflutningsframleiðsluna, var nauðsynleg. En það var hægt að gera með hefðbundnum hætti eftir þeim farvegi sem slíkar aðgerðir hafa verið framkvæmdar áður og þá er hugsanlegt að hún hefði gengið skjótar og öruggar fyrir sig. En með þessum hætti hefur málið allt verið dregið á langinn með augljósum afleiðingum fyrir atvinnulífið.
    Þriðja stóra loforðið var að lækka vextina. Þeir lækkuðu í tíð fyrri ríkisstjórnar, á síðustu mánuðum hennar úr 40% niður í 25% og nafnvextirnir lækkuðu áfram í takt við lækkun skráðrar verðbólgu eftir að þessi stjórn tók við. En að því er raunvextina varðar hefur enginn eiginlegur árangur orðið.
    Það eru spurnir af því að bankabréf gangi nú með 9,5 og 9,8% ávöxtunarkröfum. Ekki eru það dæmi um raunvaxtalækkun. Spariskírteini ríkissjóðs voru seld á sérstöku gengi fram til áramóta á 8% vöxtum hvað

sem sagði um hina skráðu vexti á þeim bréfum. Og ég heyrði ekki betur en að Samvinnubankinn hafi verið að auglýsa 8% ávöxtun á spariskírteinum ríkissjóðs í morgun. Þeir létu ekki þar við sitja að auglýsa slík kjör fram til áramóta heldur byrjuðu nýtt ár á því í Samvinnubankanum að auglýsa birgðirnar sem þeir sitja uppi með af spariskírteinum ríkissjóðs á 8% vöxtum. Þetta eru nú staðreyndirnar í þeim efnum.
    Hæstv. fjmrh. samdi við lífeyrissjóðina til þriggja mánaða um skuldabréfakaup, um 0,2% lækkun á vöxtum, en gegn því skilyrði að vextirnir á bréfunum frá 1987 yrðu hækkaðir og hélt að með þeim hætti væri hægt að slá ryki í augun á fólkinu í landinu og telja því trú um að vextirnir væru að lækka. Það er auðvelt að lækka vexti að nafninu til um 0,2% næstu þrjá mánuði, ef þú um leið ert að semja um það að hækka vextina sem búið var að semja um á bréfunum frá 1987, en ég býst við að niðurstaðan af því sé a.m.k. óbreyttir vextir ef ekki hærri vextir. Þetta er það sem hæstv. ríkisstjórn er að gera sjálf og getur ekki kennt neinum öðrum um. Þetta er það sem hún aðhefst sjálf í þessum efnum. Og svo kemur hæstv. fjmrh. með hótanir núna og segir: Ef þið seljið ekki spariskírteinin, þá höfum við ýmislegt uppi í erminni. Nú vil ég spyrja hæstv. ríkisstjórn: Hvað er þetta sem verið er að hóta með? Bankarnir hafa setið uppi með birgðir af óseljanlegum spariskírteinum upp á tæpa 2 milljarða kr. Og nú hótar hæstv. fjmrh. Er verið að hóta því að hækka bindiskylduna? Þegar bankarnir vegna efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar sitja uppi með nálega 2 milljarða kr. í óseljanlegum spariskírteinum, á þá að hóta í ofanálag að hækka bindiskylduna? Það er nauðsynlegt að fá skýr svör við þessu.
    Telur hæstv. ríkisstjórn að með því sé verið að greiða götu atvinnulífsins í landinu? Telur hæstv. ríkisstjórn að með því sé verið að auðvelda viðskiptabönkunum að þjóna atvinnuvegunum sem ekki fá rekstrarskilyrði, sem hæstv. ríkisstjórn stærir sig af að vilja ekki búa eðlileg rekstrarskilyrði? Staðfesta hennar sé svo mikil að hún bara taki það ekki í mál, eins og hæstv. fjmrh. gaf til kynna á fundi ráðherranna þegar 4% gengisbreytingin var tilkynnt. Er þessi hótun enn ein nýárssendingin til atvinnuveganna í landinu?
    Hæstv. forsrh. lýsti því yfir fyrir jólaleyfi að hann mundi á nýju ári hefja viðræður við aðila vinnumarkaðarins og kynna stjórnarandstöðuflokkunum hugmyndir ríkisstjórnarinnar um viðbótaraðgerðir í efnahagsmálum. Á þeim tíma fengust engin svör um það á hvaða grundvelli viðræður við aðila vinnumarkaðarins ættu að fara fram, hvaða stefnumörkun lægi fyrir af hálfu ríkisstjórnarinnar. En það er svo satt og rétt að hæstv. forsrh. hefur kynnt stjórnarandstöðuflokkunum að ég hygg öllum, a.m.k. átti ég fund með hæstv. forsrh. þar sem hann gerði grein fyrir útreikningum sem hæstv. ríkisstjórn hefur látið fara fram og nokkrum hugmyndum sem ríkisstjórnin er með á prjónunum. Þetta er auðvitað þakkarvert og lofsvert og er ástæða til að taka fram

af þessu tilefni og í þessari umræðu. En þetta eitt dugir út af fyrir sig ekki. Það gagnar ekki, þó að Tíminn telji það vera umtalsverða stefnubreytingu í efnahagsmálum að nú sé safnað upplýsingum, þá dugar það ekki eitt út af fyrir sig. Það dugar ekki eitt út af fyrir sig að greina stjórnarandstöðu og
atvinnulífinu frá því sem ríkisstjórnin er að hugsa. Þar skipta aðgerðirnar auðvitað höfuðmáli. Nú er auðvitað ekki unnt að ræða þau efni meðan hæstv. ríkisstjórn hefur ekki greint frá þeim opinberlega, en Alþýðublaðið hefur þó sagt frá því í morgun að þar séu á döfinni hugmyndir um að fjölga nokkuð sjóðunum, auka nokkuð við sjóðabáknið, og ég ætla aðeins að segja þetta af fyllstu einlægni og til viðvörunar.
    Ég hygg að þeir séu fáir í þessu þjóðfélagi og síst af öllu finnist þeir í sjávarútveginum sem telji að það sé einhver leið til þess að treysta rekstrarstöðu vel rekinna fyrirtækja að fara að bæta við sjóðabáknið. Menn vara fastlega við að halda áfram með hugmyndir af því tagi. Og ástæða er til þess að vara menn enn við að halda áfram hugmyndum um að auka skattheimtuna, að vara menn við að hugsa um frekari skatta á atvinnulífið í landinu og allra síst á sjávarútveginn. Engar slíkar hugmyndir geta leitt til lausnar á þessum vanda.
    Vafalaust er það rétt sem fram hefur komið hjá hæstv. ríkisstjórn að sum fyrirtæki eru þannig stödd að þeim verður ekki bjargað með almennum aðgerðum. Það sem skiptir máli í dag er að vel rekin fyrirtæki í sjávarútvegi og iðnaði fái rekstrarskilyrði. Stefnan virðist hins vegar vera sú að bíða, eins og hv. 10. þm. Reykv. orðaði það, og freista þess svo að taka eitt og eitt fyrirtæki, eins og það er stundum orðað, úr þeim hópi þar sem þörfin er mest, en láta meginþorrann, sem eru vel rekin fyrirtæki, sitja á hakanum og bíða eftir því að þau fyrirtæki komist líka endanlega á vonarvöl. Þetta virðist vera hugmyndafræðin á bak við stjórnarstefnuna sem hæstv. fjmrh. hefur mótað og lagt. Krafa dagsins hlýtur að vera sú að tryggja vel reknum fyrirtækjum rekstrarskilyrði. Það eru þau sem skapa verðmætin í landinu og það eru þau sem tryggja lífsafkomu fólksins.
    Hæstv. utanrrh. gaf út allmikla yfirlýsingu um nauðsyn þess að taka í hnakkadrambið á Seðlabankanum og endurskoða lög um hann. Þessi yfirlýsing hefur vakið allmikla athygli. Nú veit ég ekki hvort þessi yfirlýsing er þáttur í heildarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar eða hvort hún er gefin einungis í þeim tilgangi að draga fjöður yfir það að ríkisstjórnin er ekkert að gera því að með yfirlýsingunni fylgdu engar skýringar á því hvað væri að í Seðlabankanum, engar skýringar um það í hverju hæstv. ráðherra væri að fella áfellisdóma yfir Seðlabankanum og því síður fólust í þeirri yfirlýsingu nokkrar vísbendingar um það í hverju lagabreytingin ætti að vera fólgin sem er nauðsynleg. Vel má vera að yfirlýsing sem þessi sé einungis gefin í þeim tilgangi að reyna að draga athygli manna frá því sem

raunverulega er að gerast, svona einhver uppákomuaðferð eins og fundaherferðin á rauðu ljósi. Það er kannski ástæða til að inna eftir því hvort þetta er yfirlýsing af því tagi eða hvort þetta er einhver þáttur í stefnu hæstv. ríkisstjórnar. Kann vel að vera að einhver atriði þarfnist endurskoðunar í seðlabankalöggjöfinni, eða er það svo að í þessari yfirlýsingu felist áfellisdómur yfir þeim ráðherra sem hefur haft með þessi mál að gera að undanförnu? Er það svo að þriðji maður á lista Alþfl. í Reykjavík sé þeirrar skoðunar að fyrsti maður á lista Alþfl. í Reykjavík, sem hefur haft með málefni Seðlabankans að gera, hafi leyft bankastjórum Seðlabankans að fara út fyrir þau lög sem um bankann gilda og þess vegna þurfi að gera athugasemdir? Eða felst í þessu athugasemd af hálfu þriðja manns á lista Alþfl. um það að fyrsti maður á lista Alþfl. hafi ekki sinnt því eðlilega hlutverki að endurskoða lög um Seðlabankann? Það væri kannski fróðlegt að fá einhverja umfjöllun um þetta þó að ég ætli ekki að fara að draga hugsanleg innanbúðarvandamál í Alþfl. inn í umræður á hinu háa Alþingi. En með því að þetta hefur verið gert að opinberu máli er kannski ástæða til að fá um það nokkra umfjöllun af hálfu hæstvirtra ráðherra. Eða er þetta í einhverjum tengslum við þann alvarlega atburð sem gerst hefur og gerður hefur verið opinber, að nýráðinn bankastjóri Landsbankans neitar að hætta störfum sem kaupfélagsstjóri og stjórnarformaður SÍS um leið og hann tekur við starfi bankastjóra svo sem honum er þó skylt lögum samkvæmt? Er með þessu verið að gagnrýna hæstv. viðskrh. fyrir að koma ekki í veg fyrir þetta?
    Þá er enn á ný ástæða í þessari umræðu til þess að inna hæstv. ríkisstjórn eftir áformum hennar í lánsfjármálum á þessu ári. Lagt hefur verið fram frv. til lánsfjárlaga. Mér vitanlega hefur nánast engin vinna farið fram í þingnefnd um þetta efni. Venja er að samþykkja lánsfjárlög í tengslum við fjárlög þegar þess er nokkur kostur og reynslan hefur jafnan sýnt að dragist afgreiðsla lánsfjárlaga á langinn eru líkur á að lánsfjármál ríkisins fari úr böndunum. Það er heldur gagnslítið að afgreiða fjárlög sem þátt í heildarstefnu ríkisstjórnar í efnahagsmálum ef ekki liggja á sama tíma fyrir ákvarðanir ríkisstjórnarinnar um stefnu í lánsfjármálum og ákvarðanir um það hvernig lánsfjárlög eiga að vera. Ég vil inna eftir því hvort það sé í raun og veru ætlun ríkisstjórnarinnar að standa að afgreiðslu fjárlaga án þess að afgreiða lánsfjárlögin. Hefur afgreiðsla fjárlaga þó dregist fram í janúarmánuð. Á samt sem áður að draga afgreiðslu lánsfjárlaganna enn á langinn? Hefur ríkisstjórnin ekki komið sér saman um lánsfjárlög? Er óvissan
svo mikil að hæstv. ríkisstjórn getur ekki staðið að afgreiðslu lánsfjárlaga? Hvað veldur því að þau eru ekki til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi þessa daga? Því þarf auðvitað að svara. Og æskilegt er að um leið sé gefin greinargerð um það hvernig staðið hefur verið að framkvæmd lánsfjárlaga á síðasta ári. Nú stefnir í óbreyttan eða jafnvel vaxandi

viðskiptahalla. Það er mat flestra hagfræðinga að stefna núv. ríkisstjórnar geti ekki þýtt annað en að viðskiptahalli fari vaxandi. Það væri einkar athyglisvert í þessari umræðu að fá sjónarmið hv. 10. þm. Reykv. sem fyrir um það bil ári gaf þá yfirlýsingu að hann gæti aldrei stutt ríkisstjórn sem ekki næði viðskiptahallanum niður í jöfnuð í einu vetfangi. Nú er hann ábyrgur fyrir ríkisstjórn sem virðist ekki einu sinni hafa það að markmiði að ná niður viðskiptahalla.
    Í heild, herra forseti, sýnist það vera augljóst að það var réttnefni hjá hv. 10. þm. Reykv. að aðgerðir ríkisstjórnarinnar væru biðleikur og gagnslausar. Gengisbreytingin sem ákveðin var í byrjun þessa árs hefur engin raunveruleg áhrif á afkomu atvinnuveganna. Ríkisstjórnin sjálf hefur virt verðstöðvun að vettugi og staðið að því að hækka raungengi krónunnar af þeim sökum og draga úr áhrifum gengisbreytingarinnar sem verða hverfandi vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Þetta eru í hnotskurn þær staðreyndir sem við blasa.
    Loks sýnist það blasa við að það verður býsna erfitt að koma fram nauðsynlegri breytingu á raungengi krónunnar á næstu vikum eftir að þessi klaufalega ákvörðun var tekin í ársbyrjun sem er allsendis ónóg, skilar engu til útflutningsframleiðslunnar, einkanlega vegna áhrifa af skattastefnu ríkisstjórnarinnar, en þetta kann auðvitað að leiða til þess að erfitt verði að taka hið raunverulega skref núna alveg á næstunni. Það er kannski það alvarlegasta og sýnir best hvers konar klaufaskapur var þarna á ferðinni ef þessi ákvörðun verður til þess að hin raunverulega ákvörðun um að leiðrétta raungengi krónunnar verður ekki tekin á næstu vikum því að auðvitað er það skiljanlegt að það sé erfitt fyrir hæstv. ríkisstjórn að breyta gengi krónunnar tvisvar sinnum á einum mánuði. Af þessu hljóta þeir sem eru í forustu fyrir íslenskum sjávarútvegi að hafa nokkrar áhyggjur þó að ekki sé dýpra í árinni tekið.