Aðgerðir í efnahagsmálum
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Síðan í gær hef ég verið að lesa svona með öðru auganu þau plögg sem voru afhent sem trúnaðarplögg en hafa nú komið hér á dagskrá bæði frá þeim sem þeim dreifðu sem trúnaðargögnum, hæstv. forsrh., og öðrum. Ég sé enga ástæðu til annars en að gera það að svolitlu umræðuefni í mínu tali líka. Ég verð að segja alveg eins og er að þessi blessuð ríkisstjórn er einhver sá ruglaðasti hópur manna sem ég hef nokkurn tíma séð saman kominn. Hugsið ykkur Atvinnutryggingarsjóðinn. Ef við lítum á hann öðruvísi en við tölum um hann. Ef við áttum okkur á því að verið er að taka lán til þess að kaupa lán í fyrirtækjunum. Það er verið að færa geymslustað lánanna frá fyrirtækjunum yfir í Atvinnutryggingarsjóð og með nýjum bréfum frá Atvinnutryggingarsjóði inn í bankakerfið. Hver er munurinn? Ekki annar en að þetta skapar frið í ákveðinn tíma fyrir fyrirtækin til að safna nýjum skuldum.
    Þessi leynigögn sem hæstv. forsrh. gerði að umræðuefni hér áðan rekast hvert á annars horn. Þar eru tillögur um lausn á sjávarútvegsmálum í tveimur eða þremur af þeim fimm plöggum sem afhent voru og í hverju plaggi er ný leið. Ef þetta eru væntanlegar efnahagsráðstafanir er þetta eins og þegar 10 bílar keyra hver á annan á Miklubrautinni. Það er ekki lausn í neinu sem þar kemur fram. Ég ætla að minna hæstv. forsrh. á það af því að hann er efnahagsráðherra að ég hef margoft gert það að umræðuefni hér að forsenda sem notuð er við gerð fjárlaga er 20--30% verðbólga og þá er fjármagnskostnaður í því hámarki sem hann hefur verið. Þegar síðan er komið að samþykktum fjárlaga prédikar ríkisstjórnin að verðbólgan sé komin niður í núll og að fjármagnskostnaður hafi lækkað. Ekkert tillit er tekið til þess við niðurstöðu gjaldaliða í endanlega samþykktum fjárlögum eins og þau liggja fyrir núna.
    Svo segir hæstv. forsrh. í sínum lokaorðum hér áðan, sem undirstrikar þetta sem ég er að segja, að verðbólgan sé komin niður í núll og fjármagnskostnaður hafi lækkað svo að hefði Kaupfélag Skagfirðinga búið við þann fjármagnskostnað sem er nú um áramótin hefði það munað 100 millj. kr. fyrir þetta litla félag borið saman við veltuna hjá ríkissjóði. Ekkert tillit er tekið til þess við gerð fjárlaga að svo miklu munar í lækkun fjármagnskostnaðar. Hvað væri hægt að spara þjóðinni í nýjum sköttum ef ríkisstjórnin hefði tekið tillit til þessa í niðurstöðu gjaldahliðar fjárlaga? Hefði ríkisstjórnin trúað því að hún væru raunverulega að segja satt þegar hún talar um árangur í baráttunni við verðbólguna eða niðurfellingu á fjármagnskostnaði að hluta. Það er alveg furðulegt hvernig talað er út og suður og þannig er þetta leyniplagg. Þar rekst hvað á annars horn, ein ráðstöfunin til hægri og önnur til vinstri og allt í kaós.
    Hæstv. forsrh. minntist á gengið og að það væri óbeinn liður í efnahagsráðstöfunum. Ég hef aldrei nokkurn tíma heyrt að gengislækkun, eða

gengishækkun þess vegna, væri óbeinn liður í efnahagsráðstöfunum. Það er beinn liður í efnahagsráðstöfunum allan tímann og sá alversti vegna þess að hún hefur áhrif um leið og ráðstöfunin er gerð, bankarnir opna með nýtt gengi og það hefur áhrif á efnahagsástand þjóðarinnar og hvaða þjóðar sem er. Ætla svo að segja að tillagan sem nú er samþykkt, en sem hæstv. forsrh. hefur áður fellt í ríkisstjórn þegar ég lagði hana fram, þ.e. að leyfa erlendar lántökur milli einstaklinga þó að hafið aðskilji þá, að hún eigi að vega upp gengislækkunarráðstafanir ríkisstjórnarinnar, það eru hlægileg rök, hreinlega hlægileg rök. Ég skil ekkert í jafnreyndum manni í stjórnmálum og hæstv. forsrh. að tala svona. Það gæti verið að þeir sem enn þá eru eins konar lærlingar í starfi, eins og t.d. fjmrh., gætu sagt þetta, en svona getur reyndur maður ekki talað.
    Að lengja lán á að létta undir með fyrirtækjunum. Þetta er alveg rétt. Ég tek alveg undir þetta. Ég er mjög inni á því ef hægt er að lengja lán án þess að skapa nýja geymslustaði fyrir lánin eða skapa þeim nýja byrði með nýjum milliliðum, með nýjum skuldabréfum gegn skuldabréfum, sem fara frá fyrirtæki til Atvinnutryggingarsjóðs, til bankanna ef bankarnir vilja taka þau. Þetta er hringlandi sem ruglar það kerfi sem íslenskt þjóðfélag er byggt á og þessi ruglandi hefur átt sér stað í svo ríkum mæli að hvorki þjóðfélagið sjálft né einstaklingarnir vita hvernig þeir eiga að haga sér frá degi til dags vegna þess hve kerfið er orðið flókið og vitlaust. Ef það er hins vegar rétt hjá hæstv. forsrh. að það að lengja lán létti undir með fyrirtækjunum léttir það þá ekki undir með fólkinu í landinu að fá að greiða niður halla ríkissjóðs á þremur árum t.d., eins og þegar ég var fjmrh. undir forsæti hæstv. núv. forsrh.? Á þremur árum náðum við ríkisfjármálunum og ríkissjóði í jákvæða stöðu. Þá var tekjuafgangur. En að ætla sér að segja það hér að það létti undir með fyrirtækjum að fá lengingu lána, en að það sé sjálfsagður hlutur að það sé ekkert sem heitir lenging lána hjá fólkinu í landinu. Það skal yfirfæra ríkissjóðsvandann á fólkið á 12 mánuðum. Það fær ekki þennan lánsfrest, þessa lengingu lána. Það skal knésetja það. En af hverju? Vegna þess að það er kominn nýr húsbóndi. Forsrh. ræður ekki ferðinni lengur.
    Við skulum bara taka sem dæmi hvað skeður undir hans forsæti í tveimur
ríkisstjórnum. Tímabilið 1983--1986 er eina tímabilið sem ég þekki persónulega. Þá eru vörugöldin lækkuð, þá eru tollar lækkaðir. Tekjuskattur var lækkaður um 600 millj., endurgreiðsla á söluskatti til sjávarútvegsins var 650 millj. og við höfðum niðurfellingu á tölvum og öllum kostnaði á tölvubúnaði meðan við vorum að tölvuvæða þjóðina og landið. Skattar voru aflagðir af þeim sem voru að ljúka starfsævi. Sjómannafrádrátturinn var látinn ná til farmanna líka. Og svona er lengi hægt að tala. Þá var hallalaus ríkissjóður. En hvernig er hann núna? Vörugjaldið er hækkað. Þetta er sami ráðherrann í efnahagsmálum. Tollarnir eru hækkaðir, skattarnir eru hækkaðir,

matarskatturinn er látinn halda sér þó að vörugjaldið komi til baka. Það var þó fellt niður á þeim forsendum að matarskatturinn var settur á. Verðlag er fryst. Fyrir hvern? Alla nema ríkið. Eignarskattar eru hækkaðir, þannig að líklega kosta þeir mig á mínu heimili tveggja mánaða þingfararkaup til viðbótar við það sem ég greiddi áður. Það býr fátæk --- ja, ég segi ekki fátæk því að ég veit ekkert um efnahag hennar --- það býr ekkja við hliðina á mér og hún er komin á tíræðisaldur. Hún er orðin 90 ára gömul. Hún verður að borga sama skatt og ég, tvöföld þingfararkaupslaun til viðbótar við það sem áður var gert. Og gengið er lækkað og í því sambandi, hæstv. forsrh., langar mig að spyrja og ég trúi ekki öðru en að ég geti fengið svar hér og nú: Hvað skuldum við? Hvað skuldar þjóðarbúið? Síðast þegar ég vissi var það komið yfir 130 milljarða, og eftir 4% gengislækkun getur hver þingmaður fyrir sig reiknað út hækkun í krónutölu á erlendum lánum. Og hvað er þjóðarframleiðslan í útflutningsverðmætum og hvað gefa þessi 4% í krónutölu? Ég leyfi mér að efast um að þjóðin hafi nokkuð að þakka fyrir við þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar.
    Þetta er alveg furðulegur hringlandi á öllum sviðum sem sýnir ekkert annað en það að ríkisstjórnin er gjörsamlega ráðvillt. Ummæli hæstv. forsrh. áðan í ræðu hans gefa mér tilefni til að spyrja: Er samkomulag innan ríkisstjórnarinnar? Þau gefa mér tilefni til þess að efast um að samkomulag sé innan ríkisstjórnarinnar í þessum ráðstöfunum vegna þess að hæstv. forsrh. hefur hvað eftir annað viljað einmitt það sem hann var að lýsa áðan. Hann hefur viljað yfir 20% gengislækkun þegar Alþb. hefur, sem betur fer má segja, haldið henni niðri. Þá er bara spursmálið: Eru virkilega komin upp svona mikil ágreiningsefni innan ríkisstjórnarinnar?
    Svo er annað. Í þessum leyniplöggum sem hæstv. forsrh. hefur gert hér að umræðuefni er eitthvað það hræðilegasta sem ég hef nokkurn tíma lesið um hugsanlegar ráðstafanir. Þar ætlar ríkisstjórnin að láta embættismenn eða útvalda segja til um það hvaða fyrirtæki eiga að fá að starfa og hvaða fyrirtæki eiga að fá að deyja. Þar er beinlínis sagt, byggðarlögin verða bara að þola atvinnuleysið eða skapa sér eitthvað annað að gera. Það er bara að taka þær vélar og þau vinnutæki sem eru í frystihúsum og verkunarstöðvum á þeim stöðum sem eiga að deyja, að breyta þeim húsum í eitthvað annað og það er ekkert talað um hvað annað, bara í einhverja aðra starfsemi. Sem sagt, ríkisstjórnin ætlar að ráða. Þeir segja: Þú mátt lifa, þú verður að deyja, þetta byggðarlag verður að vera án atvinnutækifæranna, nema fólkið skapi sér þau sjálft og breyti húsunum undir einhverja aðra starfsemi. Fólkið verður bara sjálft að vera atvinnulaust, flytja í burtu eða þá bara finna sér eitthvað nýtt til að gera. Ég hef aldrei séð aðra eins hugmynd. Það er vítavert að koma fram með svona plögg, hreinlega vítavert.
    Ég vil taka það fram, því miður, að gefnu tilefni vegna þess að minn flokkur hefur staðið að því að

tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar hafa náð fram að ganga að ég tala ekki fyrir hönd Borgfl. Ég tala á sama hátt fyrir mína eigin hönd núna eins og ég talaði áður en það óhapp skeði. Ég segi óhapp vegna þess að ég held að afstaðan sem tekin var hafi verið tekin á fölskum forsendum af þeim sem hana tóku. Þetta segi ég að gefnu tilefni vegna ummæla hv. 10. þm. Reykn. hér fyrr.
    Rök þeirra borgaraflokksmanna sem samþykktu tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar voru þau að engin betri tekjuöflunartillaga hafi komið frá stjórnarandstöðunni. Það kom hvað eftir annað fram á flokksfundum þingflokks Borgfl., frá mér, að það stæði ekki til að koma með ný tekjuöflunarfrv. Það sem ég lagði til og var samþykkt, þó að því hafi ekki verið haldið til streitu í báðum deildum, var einfaldlega það að dreifa ríkissjóðsvandamálinu eða ríkissjóðsvandanum yfir á fleiri ár á sama hátt og var gert þegar ég var í fjmrn. með góðum árangri og í öðru lagi að taka tillit til þess sem ríkisstjórnin var sjálf að boða miðað við að verðbólguforsendurnar voru 20--30% þegar fjárlagagerðin fór af stað en voru komnar niður í núll um áramótin. Þá var hægt að taka tillit til þess í útgjaldahlið fjárlaganna og það var líka hægt að viðurkenna það að fjármagnskostnaður hefði lækkað við lækkandi vexti og þá átti að lækka útgjaldahlið fjárlaganna sem því nam og þar með var hægt að stórlækka tekjuöflun fyrir ríkissjóð ef ekki að fella hækkanir niður með öllu. ( Forseti: Má ég spyrja hv. 5. þm. Reykv. hvort hann eigi skammt eftir af ræðu sinni þannig að henni verði lokið innan fáeinna mínútna
eða hvort hann óski eftir því að halda áfram máli sínu kl. 6 ef meira er eftir en 3--4 mínútur af ræðunni.) Virðulegi forseti. Á þessu augnabliki hef ég ekki hugmynd um hvað ég á mikið eftir, en ég ætla að fá að eiga þess kost að halda áfram þegar hæstv. forseta býður svo við að horfa. --- [Fundarhlé.]
    Hæstv. forseti. Þráðurinn dettur svolítið niður þegar maður er stoppaður í miðri ræðu og oft er erfitt að ná honum aftur, en það er ekki alltaf útilokað. Tilefnið er svo furðulegt að það gleymist ekki í fundahléi eins og því sem gert var til að halda þingflokksfundi. Þau leynigögn, sem hæstv. forsrh. vitnaði í nokkrum sinnum í sinni ræðu og ég hef gert að nokkru að umræðuefni, eru nýjar og næstu efnahagsráðstafanir sem ríkisstjórnin er með í bígerð ef ríkisstjórnin telur það þá sér í hag að kynna nokkurn tíma opinberlega þessi gögn sem ég efa.
    Hæstv. forsrh. svaraði hv. 1. þm. Suðurl., forvera sínum í embætti, um áhrif þeirra ráðstafana sem þegar hafa verið gerðar. Kom hv. þm. að nokkru inn á þær nýju ráðstafanir sem eru í bígerð, óbeint, og hafði áhyggjur út af láglaunafólkinu og spurði um áhrif ráðstafananna, sem hafa verið gerðar, á láglaunafólk og hvernig því yrði þá bættur skaðinn. Hæstv. forsrh. svaraði því að því yrði bættur skaðinn með, eins og ég skrifaði niður, aukagreiðslum á matvæli og með aukabarnabótum. Er þetta rangt, hæstv. forsrh.? ( Forsrh.: Kannski mætti gera það m.a. með því að

auka niðurgreiðslur á matvæli, ekki aukagreiðslur á matvæli.) Það kemur alveg í sama stað niður hvort það eru viðbótargreiðslur á einhvern hátt. Orðalagið skiptir engu máli. Hæstv. forsrh. skýtur hér inn í að það mætti auka niðurgreiðslur á matvæli og auka barnabætur. Og þá langar mig að spyrja: Eftir allt þetta skattaflóð, sem ég hef minnst á bæði í þessari ræðu minni fyrir hlé og í öllum öðrum sem ég hef haldið í sambandi við þessar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, má þá búast við nýjum sköttum á fólk, á eignir eða fyrirtæki til að standa undir þessum væntanlegu aukaframlögum, sem ég kalla svo, til láglaunafólks á matvæli og barnabætur? Er þessari skatta- og álagahrinu sem hefur dunið á íslensku þjóðinni undanfarið virkilega ekki lokið enn þá? Er það enn þá í hugum manna að íþyngja fólki vegna þess að ástandið er orðið svo hörmulegt hjá mörgum að það þarf að auka niðurgreiðslur á matvælum og auka barnabætur til þess að fólk geti búið sæmilega, lifað sæmilega, í þessu landi allsnægtanna þar sem aflabrögð eru betri en nokkru sinni áður? Það er meiri afli en nokkru sinni áður og verð á honum fer hækkandi á erlendum mörkuðum og eftir fréttum sem ég hlustaði á í gærkvöldi var dollarinn frekar á uppleið en niðurleið, þannig að þess vegna var engin ástæða nú á þessari stundu til að gera þær ráðstafanir í gengismálum sem voru gerðar í dag eða í gær hvort sem það nú var.
    En það alvarlega við þetta er að fyrir aðeins þremur árum þegar við hæstv. forsrh. vorum samstarfsmenn um efnahagsmál og peningamál var tekjuafgangur og niðurstaða fjárlaga var 33 milljarðar. Í dag, aðeins þremur árum síðar, er niðurstaða fjárlaga, eyðsluhliðin, 77 milljarðar og það þarf skýringar við hvernig í ósköpunum niðurstöðutala fjárlaga sem var 33 milljarðar fyrir þremur árum hefur næstum þrefaldast á þessum tíma, á 36 mánuðum, og það er ætlast til að fólkið í landinu standi undir þessari eyðsluhít á einu og sama árinu. Það á að ná greiðsluhallalausum fjárlögum á einu ári, fjárlögum sem hafa hækkað um þessa miklu upphæð á ekki lengri tíma. Og enginn getur svarað því betur en hæstv. forsrh. vegna þess að bróðurpartinn af þeim 17 árum sem Framsfl. hefur setið í ríkisstjórn hefur hæstv. ráðherra verið í ríkisstjórninni. Enginn hefur betra yfirlit en hann því að hann hefur setið í það mörgum ráðuneytum.
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en það sem ég hef sagt álít ég að sé þess virði að ég fái svar við því. Ég harma það ef hæstv. forsrh. eftir þó nokkra fjarveru úr þinginu vegna starfa sinna veitir mér ekki þá virðingu sem ég get krafist sem þingmaður að ég fái svar við því sérstaklega hvernig á því geti staðið að undir hans stjórn og forustu og þátttöku í stjórn í hátt á annan áratug geti fjárlögin allt í einu á þremur árum farið úr 33 milljörðum og hallalausum fjárlögum í 80--85 eða jafnvel 90 milljarða sem þau kunna að verða eftir lokaafgreiðslu á þessu ári fyrir árið 1989. Ég býst við að hæstv. forsrh. svari mér.