Aðgerðir í efnahagsmálum
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Hér er til 3. umr. 20. mál þingsins sem er frv. til laga um aðgerðir í efnahagsmálum. Þetta mál hefur verið samferða öðru máli í gegnum þingdeildir, þ.e. 8. málinu sem er frv. til laga um efnahagsaðgerðir. Umræður um þessi tvö mál hafi farið nokkuð saman og ég hygg að það geri lítið til, en í minni ræðu hér mun ég fyrst og fremst ræða um það mál sem er til umræðu þessa stundina en ræða síðan um efnisatriði 8. máls þegar það kemur til umræðu, enda er þar fjöldi efnisatriða sem þarf að skoða mjög rækilega, ekki síst vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á frv. á milli umræðna, en sumar þær breytingar voru gerðar með nokkuð óvæntum og dramatískum hætti við atkvæðagreiðslu þegar 2. umr. lauk um þessi mál skömmu fyrir jólaleyfi þingmanna.
    Það voru auðvitað óvænt tíðindi þegar það gerðist á fundi rétt fyrir jólaleyfi þingmanna að hæstv. ríkisstjórn tókst að koma fram frv. sem er til umræðu án þess að stjórnarandstaðan gæti fellt þau efnisatriði frv. sem hún hafði komið sér saman um. Þetta var gert með atbeina 1--2 stjórnarandstæðinga og rökin sem þessir hv. stjórnarandstæðingar létu fylgja afstöðu sinni voru auðvitað út í hött. Það voru rök þess efnis að ekki mætti undir neinum kringumstæðum setja samninga í gildi eða fella niður ákvæði í 1. gr. frv. og 4. gr. frv. vegna þess að það þýddi að þá yrði samningstími mislangur hjá þeim sem samið höfðu í kjarasamningum á sínum tíma. Því var meira að segja haldið fram með mjög lymskulegum hætti, og ég þori að segja hér úr ræðustól á Alþingi, ekki síst af hæstv. fjmrh., að þetta væri gert að beiðni forustumanna Alþýðusambands Íslands. Ég hef talað við forseta Alþýðusambandsins og hann hefur leyft mér að segja það úr ræðustól að hafi það verið haft eftir honum, forseta Alþýðusambands Íslands, að hann vilji ekki fella þessi ákvæði frv. úr gildi, sé það rangt, því sé skrökvað upp á hann. En það voru einmitt þessi rök sem hv. 16. þm. Reykv. bar m.a. fyrir sig þegar hún studdi ríkisstjórnina til þeirra verka að ná fram frv. eins og ríkisstjórnin hafði ætlast til.
    Það liggur nú fyrir að frv. er óbreytt. Það liggur enn fremur fyrir að ekki er hægt við 3. umr. að flytja brtt. sem eru efnislega eins og þær sem fluttar voru við 2. umr. Þegar frv. er skoðað í heild kemur í ljós að flestöll ákvæði, ef ekki öll ákvæði frv., eru nú þegar úrelt orðin vegna breyttra forsendna. Það sem hefur gerst frá því að bráðabirgðalög hæstv. ríkisstjórnar voru sett á sínum tíma við upphaf stjórnartímabils þessarar hæstv. ríkisstjórnar er svo margt að það getur ekki verið verjandi fyrir hv. Alþingi að samþykkja bráðabirgðalögin. Þar er auðvitað fyrst til að nefna að skattar á almenning hafa verið stórkostlega hækkaðir, það mikið að forustumenn launþegahreyfingarinnar áætla að það hafi 3--4% áhrif á ráðstöfunartekjur. Þá er enn fremur gert ráð fyrir að gengisfelling hæstv. ríkisstjórnar, sem tók gildi í gær, hafi talsverð kjararýrandi áhrif, eins og eðlilegt er, og til viðbótar er síðan gert ráð fyrir því samkvæmt brtt. frá meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. við 7. gr. þessa frv.

að áfengi og tóbak hækki umfram almennar verðlagshækkanir. Og loks það sem gerðist nú um áramótin og kom mörgum í opna skjöldu, að vörugjöld hækkuðu á bifreiðum og bensín hækkaði verulega og þeir nýju bensínskattar, þungaskattar sem lagðir voru á bensín- og dísilbifreiðar, renna í ríkissjóð en ekki til vegagerðar eins og ætíð hefur verið lýst yfir að stefnt skuli að. Það má því gera ráð fyrir miklum verðlagsáhrifum af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og nú í fyrsta skipti um langan tíma getur hæstv. ríkisstjórn ekki kennt neinum öðrum um en sjálfri sér hvernig verðbólgan kemur til með að þróast á næstu vikum og mánuðum. Verðlagshækkanir og vísitöluuppsveiflur eru eingöngu til komnar vegna skattahækkana og gjaldskrárhækkana ríkisstjórnarinnar, auk sjálfrar gengisleiðréttingarinnar eða gengisfellingarinnar sem átti sér stað í gær.
    Þess vegna, virðulegur forseti, og ég vil að það komi skýrt fram í mínu máli, getur Sjálfstfl. ekki stutt þetta frv. og mun greiða atkvæði gegn frv. Svo mikið hefur gerst af völdum hæstv. ríkisstjórnar frá því að flest ákvæði frv. voru sett sl. vor að það er óverjandi með öllu fyrir Sjálfstfl. að greiða atkvæði öðruvísi en gegn frv. Það hljóta allir að sjá að það eru brostnar forsendur fyrir því að lögin, sem frv. byggist á, geti verið lengur í gildi og þess vegna mun Sjálfstfl. greiða atkvæði gegn frv.
    Mig langar til að spyrja hæstv. forsrh., og fá nánari útskýringar en komið hafa fram á því, hvers vegna við hækkun vörugjalds eða innflutningsgjalds á bifreiðum og bensíni þurfi ekki atbeina löggjafarvalds en hins vegar við hækkun á áfengi og tóbaki. Ég þykist auðvitað vita að svarið liggi í því að menn telji að hækkun á útsöluverði áfengis og tóbaks fari gegn 7. gr. frv. þar sem segir að gjaldskrár fyrirtækja og stofnana á vegum ríkis og sveitarfélaga skuli ekki hækka, en mér þykir furðulegt að hæstv. ríkisstjórn geti án þess að spyrja kóng eða prest farið gegn anda laganna og lagt aukagjöld á bifreiðar og hækkað bensín, en í því er auðvitað fólgin stórkostleg verðlagshækkun, án þess að slíkt sé borið undir hv. Alþingi með sama hætti og hæstv. fjmrh. virðist hafa beðið meiri hl. hv. fjh.- og viðskn. að gera varðandi hækkun á brennivíni
og tóbaki. Þetta tel ég að hæstv. forsrh. verði að skýra nákvæmlega út því að ef sumt er hægt og annað ekki í þessum efnum þýðir það að hæstv. ríkisstjórn getur leikið sér að því að hækka ýmiss konar skatta og gjöld án þess að tala jafnvel við sína eigin stuðningsmenn ef hún telur með lögskýringu sinni að það stangist ekki á við lög eins og bráðabirgðalögin. Óska ég eftir því að hæstv. forsrh. geri okkur og þjóðinni, sem þarf að greiða þessa skatta, nánari grein fyrir því hvernig á þessu stendur.
    Virðulegur forseti. Nú kemur að þeim kafla ræðu minnar þar sem mig langaði m.a. til þess að tala við hæstv. utanrrh. sem hefur setið hér í þingsölum í dag. Þess vegna langaði mig til þess að spyrja hvort hann sé til staðar hér í Alþingishúsinu þannig að hann megi heyra mál mitt. ( Forseti: Hæstv. utanrrh. er ekki í

húsinu og mér er kunnugt um það að hann var bundinn á fundi í framkvæmdastjórn flokksins sem dróst eitthvað vegna annarra fundahalda. ( Gripið fram í: Hvaða flokks?) Það mun vera Alþfl., en það verða gerðar ráðstafanir til þess að láta hann vita af því að óskað sé eftir nærveru hans.)
    Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég óskaði eftir nærveru hæstv. utanrrh. er auðvitað sú að hæstv. utanrrh. hefur látið hafa eftir sér ýmislegt um áramótin sem ástæða er til að spyrja hann út úr. Vænti ég þess að gefist þá tækifæri til þess síðar í þessari 3. umr. og að henni ljúki ekki fyrr en hæstv. utanrrh. fái tækifæri til þess að svara fsp. sem til hans verður beint.
    Sú var tíðin að hæstv. utanrrh. taldi sig vera mesta andstæðing Framsfl. sem uppi hefði verið á Íslandi. Fyrir síðustu kosningar fór hann um landið, barði sér á brjóst og barðist við framsókn með slíkum vopnum að eftir var tekið. Mig langar til þess að vitna örlítið í örstutta grein eftir hæstv. utanrrh. ef hv. alþm. skyldu hafa gleymt þessum baráttumanni, þessum baráttujaxli jafnaðarmanna, sem á sínum tíma átti sér ekkert annað mikilvægara að stefna að í lífinu en að drepa Framsfl. og SÍS. Hann sagði, með leyfi forseta, í blaðagrein fyrir síðustu kosningar orðrétt: ,,Frá og með þeirri stundu sem undirritaður tók við forustu Alþfl. lýsti ég því yfir að nóg væri komið af óþurftarverkum Framsfl. í íslenskri pólitík. Framsfl. ætti upp úr næstu kosningum að ástunda einarða sjálfsgagnrýni og fara í andlega endurhæfingu, helst til næstu aldamóta.``
    Síðar í þessari sömu grein sagði formaður Alþfl., núv. hæstv. utanrrh.: ,,Það hefur lengi verið vitað að Framsfl. er pólitískt rekald, hann virðist ekki eiga annað erindi í íslenskri pólitík en að reka trippi landbúnaðarkerfisins og gæta hagsmuna SÍS á kostnað skattgreiðenda.`` Og enn segir formaður Alþfl., hæstv. utanrrh., fyrir síðustu kosningar reyndar:
    ,,Árangur þessa pólitíska farandverkaflokks í stjórnarathöfnum er kunnur, efnahagslíf þjóðarinnar hefur enn ekki beðið þess bætur að Framsókn komst til valda árið 1971.``
    Þetta var, virðulegur forseti, brot úr blaðagrein eftir formann Alþfl. Auðvitað hlýtur maður að velta fyrir sér hvort hann hafi náð þeim árangri á örfáum mánuðum að ná Framsfl. upp úr þessum ógöngum sínum, komið honum í svo snögga og góða endurhæfingu með því að eiga samstarf við hann að nú þurfi ekki að gefa Framsfl. frí til næstu aldamóta til að hann geti farið í andlega endurhæfingu. --- Ég þori nú ekki einu sinni að fara með sumt, virðulegur forseti, sem er í þessari blaðagrein því að þar er auðvitað talað um verrfeðrunga í Framsfl. o.s.frv. --- En allt um það þá veltir maður fyrir sér hvort formaður Alþfl. telji sig hafa náð þessum árangri á örfáum mánuðum sem hann taldi fyrir síðustu kosningar að tæki a.m.k. 10 til 12 ár. Eða hvort það geti verið --- og það er kannski það sem ég hefði viljað heyra sjálfan hæstv. utanrrh. tala um --- að hann sé nú farinn að reka trippi landbúnaðarkerfisins

og gæta hagsmuna SÍS á kostnað skattgreiðenda. Það er nefnilega þannig að aldrei fyrr hefur nokkur önnur ríkisstjórn en einmitt þessi hæstv. ríkisstjórn, sem nú situr og hæstv. utanrrh. á sæti í, lagt eins mikla skatta á eina þjóð á jafnstuttum tíma. Þess vegna, virðulegur forseti, óska ég eftir návist hæstv. ráðherra svo að hann geti skýrt þetta út fyrir okkur hinum.
    Það var ekki aðeins þetta sem ég ætlaði að ræða um því að mig langaði jafnframt til að spyrja hæstv. utanrrh., sem skrifar merkilega grein í Alþýðublaðið nú um áramótin, út úr um nokkur önnur atriði. Það er margt sér til gamans gert um áramót, menn skrifa ýmislegt í blöð og þar á meðal skrifar formaður Alþfl. í Alþýðublaðið og segir þar að sumir hafi til að bera innri styrk sem aðrir hafi ekki, og þar á hann auðvitað við sjálfan sig og einn eða tvo aðra. Í framhaldi af því ræðir hann um stjórnarskiptin sl. haust og segir af sinni alkunnu hógværð orðrétt, með leyfi forseta: ,,Þeir stjórnmálaflokkar sem stóðust þessa prófraun voru Alþfl. og Framsfl.`` Svo bætir hann við: ,,Á tímabili leit út fyrir að Alþb. gæti ekki slitið sig úr viðjum fortíðarinnar. Á seinustu stundu náðu forustumenn flokksins áttum og náðu að grípa sögulegt tækifæri loksins þegar það gafst.`` Síðar í þessari grein fjallar hann að sjálfsögðu um sjálfstæðisforustuna og segir: ,,Á þessum tíma klúðruðu forustumenn Sjálfstfl. samskiptum sínum við Alþfl.`` Bætir síðan við skömmu seinna: ,,Ein afleiðing af gjörðum forustuliðs Sjálfstfl. var sú að leiða Alþb.
aftur til ríkisstjórnarsamstarfs og gefa nýjum formanni flokksins tækifæri til að leiða flokkinn út úr vonarsnauðri eyðimerkurgöngu.`` Hér lýkur tilvitnunum í þessa gamansemi formanns Alþfl. þar sem hann segir að það sé auðvitað sjálfstæðisforustunni að kenna að Alþb. hafi komist til valda. Ef eitthvað er í áttina við að mega kallast áramótaskaup þá held ég að það séu röksemdir hæstv. utanrrh. Ég hefði kosið að hann gæti verið hér og hlýtt á mitt mál og svarað spurningum sem að honum er beint. Það er áreiðanlega íhaldinu að kenna líka þegar þessi hæstv. ráðherra lendir í þeim ósköpum að þurfa nú ,,Á rauðu ljósi`` að ferðast um með formanni Alþb. um sveitir landsins til þess að spyrja þjóðina ýmissa spurninga.
    Í Alþýðublaðinu í dag segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Jón Baldvin segir við Alþýðublaðið að spurningarnar séu margar sem þeir þurfi að svara [í þessari ferð]. Eins og hvort Stalín sé ennþá hér? Er Ólafur Ragnar krati? Er Alþb. bara kratar? Er Alþb. gengið í NATO? Er Gorbatsjov orðinn krati? Var Jón Baldvin marxisti? Er Jón Baldvin hægri krati, er hann friðarsinni eða er hann orðinn þjóðnýtingarsinni? Er verkalýðshreyfingin dauð? Er fortíðin í ösku? Er framtíðin súperkrataflokkur?``
    Ég geri hér aðeins hlé á lestrinum af því að mér finnst full ástæða vera til þess að spyrja hæstv. forsrh., því að hér er verið að ræða um ýmsar spurningar sem eru mjög merkilegar og ég veit nú að hæstv. forsrh. þekkir Gorbatsjov mjög vel: Hefur hæstv. forsrh. verið spurður að því á ríkisstjórnarfundi

eða af þessum meðráðherrum sínum hæstv. hvort Gorbatsjov sé orðinn krati? Ef það er rétt að hæstv. ríkisstjórn þurfi að senda þingið heim í fjórar vikur til þess að þessir tveir hæstv. ráðherrar geti farið um landið og spurt að því hvort Gorbatsjov sé orðinn krati hlýt ég að spyrja vin Gorbatsjovs, þann sem seldi fyrir hann bækur fyrir næstsíðustu jól: Hefur hann ekki verið spurður að þessu? Hvernig stendur á því að þeir, hæstv. fjmrh. og utanrrh., spyrja ekki mesta vin Gorbatsjovs á Íslandi að þessu öllu saman? Maður verður aldeilis hissa á því hvernig á þessu stendur. Ég held að svarið sé reyndar það að hæstv. forsrh. er eiginlega í hálfgerðri fýlu út af þessu öllu saman því að hann fær ekki að fara með hinum. Hvernig stendur á þessu? Hvers konar verkstjórn er þetta eiginlega? Eitthvað hefði hæstv. forsrh. sagt í síðustu ríkisstjórn. Hvers konar verkstjórn er það að biðja um fjögurra vikna frí, ekki til að leita allra leiða og lausna á efnahagsvanda þjóðarinnar, en ekkert hefur gerst í því í þrjá mánuði, nei, heldur til að senda þessa tvo hæstv. ráðherra út á land til að spyrja að því hvort Alþb. sé gengið í NATO, hvort Gorbatsjov sé orðinn krati og hvort Stalín sé enn þá þar.
    Ég skil vel, virðulegur forseti, að hæstv. forsrh. kjósi að líta ekki upp úr sínum lestri þegar hann hlustar á þessi ósköp. En áfram segir í Alþýðublaðinu, og það er nú dálítið merkilegt þó ég efist ekki um að virðulegum forseta leiðist að svo mikið sé lesið upp úr því, a.m.k. eins og það er skrifað í dag, með leyfi forseta:
    ,,Jón Baldvin segir enn fremur að fyrstu viðbrögð þeirra alþýðuflokksmanna sem rætt hafi við sig séu mjög neikvæð: ,,Það virðast allir á móti þessari fundaherferð okkar Ólafs Ragnars.`` Ólafur Ragnar Grímsson sat fund framkvæmdastjórnar Alþb. í gærkvöldi. Samkvæmt heimildum Alþýðublaðsins voru viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar við fyrirhugaðri fundaferð þeirra Jóns Baldvins einnig neikvæð og formaðurinn varaður við að geta með þessu klofið Alþb. sem nú væri að ná sér eftir væringar undanfarinna missira. Ekki náðist í Ólaf Ragnar vegna þessa máls.``
    Er ekki full ástæða til þess að fá hæstv. utanrrh. til þess að ræða þessi mál hér? Eða má álíta sem svo að þetta sé allt íhaldinu að kenna? Því að ef það var íhaldinu að kenna að leiða formann Alþb. til vegs í íslenskum stjórnmálum, auðvitað algjörlega á móti vilja Alþfl., er það áreiðanlega líka íhaldinu að kenna að utanrrh. skuli nú þurfa að fara í fundaferð með formanni Alþb. Og ég rifja upp, virðulegur forseti, að 1978 til 1979 sat hér á landi ríkisstjórn þeirra flokka sem nú sitja í ríkisstjórn. Þegar hæstv. utanrrh. var spurður að því hvað hann segði um þá ríkisstjórn, sem sat í eitt ár, sagði hann af sinni hógværð og lítillæti: ,,Þetta var pólitískt umferðarslys.`` Nú sest hann upp í bílinn hjá formanni Alþb. og ætlar að fara um landið og spyrja hvort Stalín sé ekki þar og spyr ekki einu sinni forsrh. að því hvort Gorbatsjov sé orðinn krati, einkavin hans á Íslandi.

    Svona geta menn gert að gamni sínu um áramót. En öllu gamni fylgir alvara því að auðvitað situr Framsfl. og Tíminn hjá og þeim finnst þetta auðvitað mjög góð frammistaða hæstv. utanrrh. og formanns Alþfl. rétt eins og þeir voru mjög ánægðir að fá hann í heimsókn í framsóknarfjósið á sínum tíma. Því að í Tímanum í dag, virðulegur forseti, segir orðrétt: ,,Nafn Jóns Baldvins mun sennilega lifa hvað lengst fyrir það að hann hafi pólitískan næmleika til að skynja raunverulega afstöðu Sjálfstfl. til Alþfl. sem var sú að álíta hann eins og hvert annað tungl í einhvers konar aflfræðilegum tengslum við sjálfan meginhnöttinn án sjálfstæðrar tilveru. En Jón Baldvin gerði betur en að skynja þetta, hann hafði þrek til að slíta þessi íhaldstengsl Alþfl. og endurmeta
afstöðu flokks síns til annarra stjórnmálaflokka, fyrst og fremst til Framsfl. Þetta uppgjör Alþfl. við Sjálfstfl. kallaði flokksþing Framsfl. sögulegan atburð. Vonandi reynist sú umsögn um þessa eftirminnilegu þróun stjórnmála rétt þegar horft verður til atburða síðasta árs úr fjarlægð áranna seinna meir.`` Síðan er auðvitað fjallað um það að þetta sé ekki stundarfyrirbrigði, hér sé um upphaf samstarfs félagshyggjuflokkanna að ræða sem eigi að duga.
    Að hugsa sér örlög eins manns, eins og hæstv. utanrrh., sem byrjaði kosningabaráttuna og barðist þá gegn Framsfl., sagðist ætla að senda þennan flokk í pólitíska andlega endurhæfingu og nú situr hann uppi með það að fá hólgrein um sig --- sem ég held að sé reyndar dálítið grín --- í Tímanum í dag. Þess vegna, virðulegur forseti, hefði ég viljað hafa hæstv. utanrrh. hér. Mér er að vísu kunnugt um að hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. voru einu sinni saman í stjórnmálaflokki. Það voru Samtök frjálslyndra og vinstri manna sem ætluðu þá að sameina alla vinstri menn í einum flokki. Það er kannski ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort hann hafi verið spurður um hvort hann vilji sameina þessa vinstri flokka, Alþfl., Alþb. og jafnvel Framsfl., í einn flokk?
    Það sem fram kom í grein hæstv. utanrrh. um áramótin og vakti hvað mesta athygli --- því að ég held að menn hafi tekið nokkurt mark á því --- var að hann sagði að það væri tímabært að endurskoða lög um Seðlabanka Íslands. Ef ég man rétt þá hefur hæstv. forsrh. tekið undir þetta. Hins vegar telur hæstv. viðskrh., sem sjálfsagt er líka á einhverjum fundi hjá Alþfl. úti í bæ, að óþarfi sé að vinna að slíkri endurskoðun strax því að enn hafi ekki fengist sú reynsla af lögunum sem þarf.
    Mig langar til þess að spyrja hæstv. forsrh. að því við hvað var átt þegar talað er um að endurskoða lögin um Seðlabanka Íslands. Það kom ekki nægilega skýrt fram, ekki einu sinni í áramótagrein utanrrh.
    Það er óþarfi að rifja upp að ágreiningurinn sem var á sínum tíma á milli þáv. stjórnarflokka, sem sátu í síðustu ríkisstjórn, var um hvort velja ætti almennar eða sértækar aðgerðir. Ágreiningurinn stóð fyrst og fremst um það hvort fella ætti gengið meira og hafa minna um millifærslur eða hvort menn ætluðu að halda áfram að reyna að halda genginu sem mest

föstu og efna til erlendra skulda og skattahækkana og fá þannig fjármuni til þess að færa fé til sumra útflutningsgreinanna. Þetta er staðreynd hvernig sem hæstv. utanrrh. lætur og skrifar. Þetta vita allir og ekki þarf að spyrja frekar út í það. Það veldur hins vegar vissum áhyggjum að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur í raun enga stefnu mótað í atvinnu- og efnahagsmálum. Þingmenn stjórnarinnar tala um biðleiki. Hæstv. ráðherrar hafa sagt að þeir séu að leita allra leiða og enn er beðið eftir því hvað ríkisstjórnin ætlar að gera því að rétt í þessu, í dag, lýsti hæstv. forsrh. því yfir að í raun hefði gengisfellingin einungis verið óbeinn liður í efnahagsaðgerðum en hefði ekkert með efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar beinlínis að gera.
    Maður hlýtur að spyrja sig að því hvort ekki sé von á þessum efnahagsaðgerðum. Og eftir þær umræður sem fram hafa farið í dag kemur í ljós að sumir þingmenn, þar á meðal forustumenn stjórnar og stjórnarandstöðuflokka, hafa fengið að sjá fyrstu drög að slíkum efnahagsaðgerðum.
    Það væri full ástæða til þess að spyrja hv. 10. þm. Reykv. talsvert út úr um fyrri afstöðu hans í ýmsum efnum en þar sem hæstv. utanrrh. er mættur og hefur gert sér það ómak að koma hingað niður eftir vil ég fá tækifæri til að tala við hann. Ég rifjaði það upp í minni ræðu að fyrir síðustu alþingiskosningar hafi hæstv. utanrrh. verið einn allra mesti baráttumaðurinn gegn Framsfl. og SÍS. Ég las hér úr grein sem hann skrifaði á þeim tíma þar sem hann sagði að frá því að hann tók við þeim flokki sem hann er í þessa stundina, Alþfl., hefði hann talið það vera eitt stærsta og mikilvægasta verkefni sitt að senda Framsfl. í andlega endurhæfingu til næstu aldamóta a.m.k. Ástæðan fyrir þessu, segir í þessari grein, að Framsfl. sé pólitískt rekald, hann reki trippi landbúnaðarkerfisins og gæti hagsmuna SÍS á kostnað skattgreiðenda. Síðan fjallar hæstv. núv. utanrrh. og formaður Alþfl. frekar um þetta og segir að Framsfl. hafi unnið svo mikinn skaða að efnahagslíf þjóðarinnar hafi ekki beðið þess bætur síðan Framsfl. komst að völdum 1971.
    Ég rifjaði það upp að sami maðurinn, hæstv. utanrrh., er nú kominn upp í fangið á Framsfl. og fær um sig hólgrein í Tímanum --- sem ég held að sé nú svona hálfgert grín og veit reyndar að hæstv. utanrrh. hefur þegar lesið og sjálfsagt klippt út og geymir fyrir sig þar til hann eða konan hans kjósa að gefa út fleiri bækur um sig. Ég rifjaði síðan upp að í áramótagrein hæstv. ráðherra . . . ( Utanrrh.: Hvað er á dagskrá?) Ég skal svara hæstv. utanrrh. ef hann er svo fjarri góðu gamni að hann fylgist ekki betur með störfum þingsins en svo að hann veit ekki hvað er á dagskrá. Það er verið að ræða um bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar, 20. mál, en það er allt skráð í dagskrá. ( Utanrrh.: Ræða hv. þm. gaf á tímabili til kynna að hann hefði farið út fyrir dagskrárefnið.) Ég skal viðurkenna að ræða hv. ræðumanns gaf til kynna að hann hefði aðeins farið út fyrir umræðuefnið en það var vegna þess að hæstv.

utanrrh kom inn og mér fannst tilhlýðilegt að rifja upp nokkur atriði sem ég hafði verið að tala um til þess að hæstv. utanrrh. áttaði sig á framhaldinu.
    Ég ætla ekki að orðlengja það. Ég hef þegar fjallað nokkuð um fundaferðalag þeirra hæstv. utanrrh. og hæstv. fjmrh. En fyrirspurn mín, og þess vegna óskaði ég eftir nærveru hæstv. utanrrh., var um það hvernig hæstv. ráðherra teldi að breyta ætti seðlabankalögunum og hvort hann vildi segja okkur nákvæmar frá því en kom fram í áramótagrein hans, því að eins og hæstv. ráðherra veit sjálfur þá vakti þetta atriði öðrum fremur athygli.
    Ekki síst spyr ég að þessu vegna þess að hæstv. viðskrh. lét hafa eftir sér að ástæðulaust væri að breyta þessum sömu lögum, enda væru þau ný af nálinni og meiri reynslu þyrfti því af þessum lögum áður en menn byrjuðu að hrófla við þeim. Þessi fyrirspurn mín beindist að því hvort hér væri um ágreining innan Alþfl. að ræða sem hann vildi opinbera með þessum hætti og flengja þannig opinberlega besta samstarfsmann sinn eða hvort að baki þessarar hugsunar hæstv. utanrrh. liggi eitthvað sem mark er á takandi. Og ef svo er, hvernig vill hann þá nákvæmlega breyta þessum lögum, því að þetta hefur auðvitað meginþýðingu fyrir það mál sem við erum að ræða og enn fremur fyrir aðrar stjórnarathafnir eins og t.d. gengisfellingar.
    Þar sem ég, virðulegur forseti, ætlaði ekki að flytja langa ræðu sé ég ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt frekar en vil ítreka ýmsar fyrirspurnir sem hafa komið fram í þessum umræðum. Ég sé ekki hæstv. forsrh. hér en ég tel þá að hæstv. utanrrh. geti svarað eftirfarandi spurningu í leiðinni: Hvað ætlar hæstv. ríkisstjórn að gera varðandi raforkukostnað í frystiiðnaðinum? Því var lofað að lækka þennan kostnað um 25%. Nú liggur fyrir nál. sem segir að þetta kosti um 95 millj. kr. á yfirstandandi ári. Hver á að borga þann brúsa?
    Í öðru lagi langar mig til þess að fá upplýsingar um það frá einhverjum hæstv. ráðherra hvort búast megi við því að raunvextir lækki á næstunni því að komið hefur í ljós að vaxtalækkunin er aðeins lítið brot af því sem hæstv. ríkisstjórn lofaði á sínum tíma. Þegar ég segi að hæstv. ríkisstjórn hafi lofað einhverju á sínum tíma felst það í því að hæstv. ríkisstjórn reiknaði bæði raforkulækkunina og vaxtalækkunina inn í rekstrargrundvöll sjávarútvegsins til þess að ná endum saman og koma sjávarútveginum á svokallaðan núllpunkt þegar hún tók við völdum í haust. Engar efndir hafa orðið í þessum málum og því er kominn tími til að hæstv. ríkisstjórn geri hreint fyrir sínum dyrum.
    Virðulegur forseti. Þar sem hv. 10. þm. Reykv. er kominn í salinn finnst mér ástæða til þess að spyrja hann, þar sem hann sagði á sínum tíma í blaðaviðtali að hann gæti ekki hugsað sér að styðja fyrrv. ríkisstjórn nema hún eyddi viðskiptahallanum og skráði gengið rétt: Telur hann að með aðgerðum ríkisstjórnarinnar fyrir jól og nú sé gengið rétt skráð og að viðskiptahallinn muni eyðast af þeim sökum?

Ég spyr vegna þess að ég er hér með viðtal við hv. þm. frá 13. febr. í fyrra þar sem hann segir að hann muni keppa að því innan síns flokks að gera það að skilyrði að styðja ekki þá ríkisstjórn sem ekki eyðir viðskiptahallanum og skráir gengið rétt. Ég veit að hv. 10. þm. Reykv. er öðrum stjórnarþingmönnum djarfari og kjarkmeiri og þorir stundum að stíga í þennan ræðustól sem hinir mega ekki vegna ofríkis hæstv. fjmrh. En ég held að hæstv. fjmrh. sé ekki við hérna núna þannig að hv. þm. er alveg óhætt að taka til máls í þessum umræðum.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, sé ég ekki ástæðu til þess að hafa þessa ræðu mína lengri að sinni.