Aðgerðir í efnahagsmálum
Miðvikudaginn 04. janúar 1989

     Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ég hef hugsað mér að ræða örlítið um frv. sem liggur hér fyrir til 3. umr. og þær breytingar sem hafa orðið á því frá því að ákvörðun var tekin um þessar aðgerðir.
    Flestir treystu því að halda ætti áfram því starfi, sem fyrrv. ríkisstjórn hafði ákveðið, að vinna bug á verðbólgunni. Hún neyddist til þess, eins og margoft hefur verið tekið fram, að gera ráðstafanir sem ekki var sársaukalaust að gera, eins og að binda launin, en hennar ákveðni vilji var að halda verðstöðvun það tímabil sem hún átti að ná til.
    Ég bjóst við því að það væri einnig áform þeirrar hæstv. ríksstjórnar sem nú situr að halda fast við þennan ásetning. En það sem hefur gerst núna á síðustu vikum og síðustu dögum fyrir jól eru þær stórfelldu skattahækkanir sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir og hækkanir mitt í verðstöðvuninni á mikilvægum vörum eins og bensíni og bílum. Þetta hefur gert það að verkum að almenningur í landinu treystir ekki á þessa ríkisstjórn. Hún fer úr einu í annað. Ekkert liggur enn þá fyrir hvernig á að mæta erfiðleikum atvinnulífsins. Bæði Framsfl. og Alþfl. stukku út úr fyrri ríkisstjórn og slitu stjórnarsamstarfi í sjónvarpi, og er það sennilega einsdæmi í veröldinni að stjórnarsamstarfi hafi verið slitið í sjónvarpi, án þess að þriðji flokkurinn vissi um. Þeir töldu að þeir gætu ekki beðið lengur, það þyrfti að fara í gagngerðar, róttækar aðgerðir til að lækna vanda atvinnulífsins. Heimild Seðlabankans um 3% gengislækkun frá því í maímánuði var þá notuð og nú aftur var 4% gengislækkun. Sumir ráðherranna hafa barið sér á brjóst og sagt að engin gengislækkun komi til greina. En einn ráðherrann, og sá sem virðist ráða langmestu í ríkisstjórninni en er tiltölulega nýr í ráðherrastól, hæstv. fjmrh., lýsti því yfir við þessa gengislækkun að hún væri aðeins leiðrétting á vanda atvinnulífsins, þ.e. þeirri skekkju sem orðið hefði frá því að núv. hæstv. ríkisstjórn tók til starfa, eða frá 28. september til áramóta. Það væri því ekki um neitt annað að ræða en gera þessa mikilvægu breytingu.
    Það er alltaf verið að tala um að verið sé að krefjast þess að lækka gengi krónunnar og hæstv. utanrrh. bregst svo óstinnt við að hann telur slíka menn óþjóðholla. Gamli Stalín taldi alla óþjóðholla sem ekki voru honum sammála og á sama tíma og verið er að taka upp aukið frjálsræði í Sovétríkjunum sé ég ekki annað en hæstv. utanrrh. sé alveg hættur að vera hægri krati og sé hann orðinn langt, langt vinstra megin við Alþb. og kominn svona upp að hliðinni á gamla Stalín og gamla Bréshnév því þeir sem leyfa sér að hafa einhverja skoðun, leyfa sér að benda á það sem miður fer í þjóðfélaginu eru bara taldir óþjóðhollir.
    Ég vil benda mönnum einu sinni enn á það að gengisskráning á Íslandi hefur aldrei verið gerð að óþörfu. Hún hefur aldrei verið gerð fyrr en gengið hefur í raun verið fallið og þá hefur það verið skráð nokkurn veginn rétt. En það er ekki gert núna. Það þýðir ekki alltaf að tala um að sjávarútvegurinn sé að

heimta þetta og annað. Hvað með samkeppnisiðnaðinn í landinu? Hann er að líða út af vegna rangrar gengisskráningar fyrst og fremst. Hvað með ullariðnaðinn? Eru ekki fram undan stór gjaldþrot í ullariðnaði ef gengið verður ekki nokkurn veginn rétt skráð? Hvað með nýjar greinar sem eru að keppa við erlendar greinar? Hvað um hugbúnaðinn? Hann er búinn að vera. Hann þolir ekki samkeppni við erlend fyrirtæki því að hér er notuð röng gengisskráning. Þetta er því nauðsynlegt að gera. Það er heldur ekki hægt að haga sér með þeim hætti að þeir sem flytja vörur til landsins fái þær á undirverði. Og erlent vinnuafl er sterkara í samkeppninni við hið innlenda vinnuafl og það verður að lúta í lægra haldi eins og allir menn sjá.
    Ég taldi það að mörgu leyti rétta stefnu sem tekin var upp á sl. sumri og bjóst ekki við þessum óskaplegu kollsteypum hjá þessari ríkisstjórn, að hverfa frá einu og fara í annað þannig að ekkert stendur í raun og veru eftir. Mér finnst ansi langt gengið þegar tveir gamlir flokksbræður sem nú eru í þessari ríkisstjórn en voru áður í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, hæstv. fjmrh. og hæstv. utanrrh., og eru búnir að koma víða við síðan, séu nú að fara í eitthvert fundaferðalag sem ráðherrar í núv. ríkisstjórn. Formaður Framsfl. er ekki með og hefur hann aldrei verið latur til ferðalaga eins og menn vita. Hann sat í fílabeinsturni á annað ár og nú er svo komið að gamla framsókn er bara að draga sig út úr pólitík. Hún fær ekki að fara með þeim.
    Mér datt ekki í hug að ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti og félagshyggju teldi það lífsspursmál að vinna upp fjárlagahallann á einu ári og skella hallanum yfir á heimilin í landinu og atvinnureksturinn. Það hefði mátt taka tillit til alls þessa, en það hefur ekki verið gert. Þetta er allt gert í nafni jafnréttis og félagshyggju.
    Hér hafa margar spurningar verið bornar fram í dag sem ég ætla ekki að endurtaka eða það sem aðrir hafa sagt, en af því að ég sé þá hér þrjá saman, sem kemur ekki mjög oft fyrir á Alþingi, hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. og hæstv. viðskrh., langar mig að ítreka spurninguna: Hvað hefur skeð þannig að brýn nauðsyn er að endurskoða seðlabankalöggjöfina, tveggja ára gamla? Hæstv.
núv. forsrh. stóð að endurskoðun þessarar löggjafar og var tiltölulega ánægður með hana. Hæstv. viðskrh. hefur látið hafa það eftir sér að hann teldi að ekki hafi reynt á hvort nauðsyn sé á því að breyta þeirri löggjöf eða endurskoða hana. En Jón í þriðja sæti er ekki sammála Jóni í fyrsta sæti og telur alveg bráðnauðsynlegt að gerbreyta löggjöfinni um Seðlabankann. Ég er enginn talsmaður Seðlabankans en það var reynt að vanda þessa löggjöf eins og hægt var og ég átti þar hlut að máli og margir aðrir menn og þáv. ríkisstjórn svo að ég sé ekki að svona upphlaup hafi í raun og veru mikið að segja.
    Ég tel útilokað fyrir okkur sjálfstæðismenn að greiða atkvæði með þessum frv. Ég hefði fellt mig við launastöðvunina ef ekki hefði verið bætt á launþegana

í landinu öllum þeim sköttum og þeim hækkunum sem nú rignir yfir og við sjáum fram á stórfellda hækkun vísitölunnar á næstunni. Ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju hefur því brugðist fólkinu í landinu. Hún hefur brugðist launþegum þessa lands og hún hefur gengið það langt að öllum er farið að ofbjóða. Hún virðist vera alveg rótlaus og stefnulaus og nú er höfuðatriðið að losna við okkur þingmennina, gefa okkur helst langt frí þannig að þið fyrrverandi flokksmenn úr Samtökum frjálslyndra og vinstri manna getið ferðast um og reynt að sannfæra þjóðina um að nú séu þið komnir til þess að mynda nýjan, sterkan vinstri flokk og leggja gömlu framsókn bara fyrir ankeri um alla framtíð, þið ætlið ykkur að éta hana upp til agna. Það er gaman fyrir blessaðan hæstv. forsrh. að hafa slíka sendimenn á för um landið. ( Forsrh.: Það er betra að halda ríkisstjórninni gangandi.)