Atvinna kvenna á landsbyggðinni
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur veitt um undirbúning að þessu máli á vegum ríkisstjórnar. Ég ætla ekki að gagnrýna þá málsmeðferð sem þar hefur verið upp tekin, en ég tek undir það, sem fram kom hjá hæstv. ráðherra, að það er mjög brýnt að vinnu við athugun þessara mála verði hraðað og fram komi tillögur og ákvarðanir sem breyti þeirri þróun sem hefur verið í gangi í þessum efnum. Ég held að það dugi í rauninni ekkert lítið og síst af öllu hægagangur. Það þarf áreiðanlega mjög margt til að koma til að breyta stöðu þessara mála og því er þörf á því að ríkisstjórnin í heild og öll ráðuneyti séu þátttakendur í athugun þessara mála, þau ráðuneyti a.m.k. sem atvinnumálin varða og félagsmálin, en félmrh. er ætluð forusta í athugun málsins.
    Ég vek athygli á að það eru í gangi og yfirvofandi meiri breytingar líklega í sambandi við tækni í frumvinnslugreinum en fyrir hefur legið um lengri tíma. Ég vísa þar til stöðu frystiiðnaðarins í sjávarútvegi þar sem þörf er á miklu tækniátaki til að bæta stöðu þeirrar greinar og það er hætt við því að það leiði til fækkunar starfa í þessari grein þar sem konur eru burðarásinn í störfum. Sama er í gangi í sveitum landsins. Þar er möguleiki á störfum fyrir konur mjög takmarkaður og því nauðsynlegt að horfa til þess einnig sem og í almennum iðnaði.
    Launamálin koma inn í þetta líka og þó að það sé sannarlega góðra gjalda vert að konur reyni að koma fótum undir nýja starfsemi til að bæta úr þessari brýnu þörf á störfum er þar oft um að ræða verkefni sem ekki er líklegt að skili miklum afrakstri. Það er ekki líklegt til að bæta stöðu þessara mála til lengdar að byggja upp láglaunastörf ef það er ekki þokkalegur efnahagslegur grundvöllur fyrir því og þarf að hafa það í huga við meðferð þessara mála.
    Ég ítreka hvatningu mína til hæstv. forsrh. og ríkisstjórnarinnar í heild til að taka þessi mál föstum tökum og vonandi liggur eitthvað fyrir áður en þingi lýkur í þessum efnum því það getur verið þörf á að taka ákvarðanir hér á Alþingi fyrr en seinna sem snerta framkvæmd til úrbóta.