Meðferð trúnaðarmála
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að það er þörf á því að hlíta setningu reglna varðandi meðferð trúnaðarmála og birtingu opinberra gagna. Ég hef ítrekað ýtt á eftir þessu máli á Alþingi og það að gefnu tilefni. Þessi starfshópur, sem er að vinna að málum á vegum stjórnvalda, mun vera tilkominn vegna umræðu um þessi efni á Alþingi fyrir fáum missirum. Ég tel nauðsynlegt að við mótun stefnu um þessi efni verði þess gætt að upplýsingar verði sem fyllstar og aðgangur rúmur að upplýsingum varðandi aðgerðir stjórnvalda. Ég er ekki þar með að segja að það geti ekki verið ástæða til að hafa reglur um birtingartíma varðandi einstök málefni samkvæmt nánar útfærðum ákvæðum, en meginreglan á að vera opið stjórnkerfi og opnar reglur varðandi aðgang almennings að skjölum og gerðum opinberra aðila.
    Ég hef stundum minnt á meðferð þessara mála í öðrum ríkjum eins og Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem er birtingarskylda eða birtingarkvöð lögum samkvæmt á málefnum sem varða samskipti við aðrar þjóðir, að vísu með ákveðnum takmörkunum. Það var athyglisvert að í umræðum um þau efni á síðasta ári kom það fram hjá íslenskum sagnfræðingum að 20% þeirra gagna sem skotið hefur verið undan birtingu varðandi Ísland á árunum 1947--1951, sem varða það tímabil, þau 20% sem ekki er heimill aðgangur að fyrir sagnfræðinga eru fyrst og fremst lokuð vegna óska frá Íslandi, frá íslenskum aðilum. Þetta segir nokkra sögu og ég vildi minna á það í þessu sambandi.
    En aðalatriðið er að það verði þannig búið að skjalavörslu í landinu og reglum þar að lútandi að aðgangur sé öruggur og rúmur að þessum gögnum ásamt varðveislu þeirra. Þetta snertir auðvitað Þjóðskjalasafnið og uppbyggingu þess og aðstöðu á Þjóðskjalasafni útlendinga, en þar hefur margt dregist úr hömlu.