Störf ósonnefndar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Fyrirspyrjandi (Friðrik Sophusson):
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að bæta mörgum orðum við þær umræður sem hér hafa farið fram, en ítreka þakkir mínar fyrir skjót viðbrögð hæstv. ráðherra og einkum og sér í lagi ætlun hans og aðgerðir í því efni að Íslendingar gerist aðilar að sáttmálum sem kenndir eru annars vegar við Vín og hins vegar við Montreal og við bíðum eftir viðbrögðum utanrrn.
    Það er öllum ljóst að það er nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að vera í hópi þeirra þjóða sem fremstar eru í því að taka virkan þátt í umhverfisvernd og vissulega hefur þetta mál þýðingu í þeim efnum þótt ekki sé vísindalega fullsannað að þessi klórflúorkolefni séu aðalorsökin fyrir sannanlegri eyðingu ósonlagsins.
    Það er mikilvægt, sem kom fram hjá hæstv. ráðherra, að koma skipulagi á aftöppun efna sem geta haft þessi áhrif, eins og t.d. freons sem notað er í venjulegum kælikerfum inni á öllum heimilum og enn fremur í frystihúsum landsmanna í stórum stíl. Það kemur því miður allt of oft fyrir að þessi efni sleppa út þegar skipt er um t.d. í frystihúsum og eins, þó ekki sé í jafnmiklum mæli, þegar um er að ræða að ísskápar ganga úr sér og þeim er fleygt á ruslahauga.
    Ég vil enn ítreka að grunnurinn að þessu starfi var sú vinna sem fór fram á vegum forsrn. og hófst árið 1987 um haustið, en tek undir það með hv. 2. þm. Austurl. að vissulega hafði áhrif sú tillaga sem kom fram frá nokkrum þingmönnum. Ég held að 1. flm. hafi verið þáv. varaþm. Álfheiður Ingadóttir.
    Ég vil taka undir það með öðrum sem hér hafa talað að það er nauðsynlegt að koma skipulagi á umhverfismálin. Fyrir mér skiptir mestu máli að þessi mál séu samhæfð undir einni stjórn í einu ráðuneyti, en ekkert úrslitaatriði að stofnað sé sérstakt umhverfismálaráðuneyti. Að þessu vann forsrh. í síðustu ríkisstjórn og ef ekki verður hreyft við þeim málum á næstunni tel ég einsýnt að Sjálfstfl. muni leggja fram frv. um það efni á næstunni.