Störf ósonnefndar
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa talað undirtektir þeirra við það mál sem hér er til umræðu vegna fsp. hv. 1. þm. Reykv.
    Vegna þeirra orða sem hér hafa fallið um skipulag í ráðuneytum á yfirumsjón umhverfismála og umhverfisverndar vil ég taka það fram að ég tek undir það, sem kom fram hjá báðum þeim þingmönnum sem hér hafa talað, að það er brýn þörf á að sameina og samræma í einu ráðuneyti yfirstjórn þessara mála, ekki síst vegna þátttöku í alþjóðastarfi á þessum vettvangi því að mörg umhverfisvandamál eru þannig vaxin að þau varða heila heimshluta eða jafnvel alla heimsbyggðina. Það ætti að vera þjóðarheiður Íslendinga að láta sinn hlut þar ekki eftir liggja og taka þátt í umhverfisvernd eftir því sem við höfum krafta til því þjóð sem lifir á lífríki sjávar í jafnríkum mæli og við gerum á mikið undir því að þar sé vel og farsællega á málum haldið.
    Ég vildi, vegna þess sem kom fram hjá hv. 1. þm. Reykv. um að einhver dráttur væri á því að koma þessum málum fyrir í einu ráðuneyti, vekja athygli á því að forsrh. hefur gert um það alveg ákveðna tillögu, sem fram hefur komið á opinberum vettvangi, að umhverfismálin verði lögð til félmrn. og að það heiti eftir slíka breytingu félags- og umhverfismálaráðuneyti og þangað verði færðir helstu þættir umhverfisverndar og umhverfismálayfirumsjónar. Þetta tel ég gagnlega tillögu. Þetta er ekki eina skipulagslausnin sem til greina kemur. En ég vildi bara að það kæmi skýrt fram að sú ríkisstjórn sem nú situr leggur mikla áherslu á umhverfisvernd og umhverfismál og mun sýna þeim málum alla þá athygli sem þarf og mun breyta þessu skipulagi innan tíðar.