Sala á landbúnaðarafurðum
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr í fyrsta lagi um hvað mikið af landbúnaðarafurðum Íslendingar hafi selt varnarliðinu í Keflavík á árunum 1985, 1986 og 1987, sundurgreint eftir tegundum. Ég hef látið taka saman töflu um þetta efni sem dreift hefur verið til þingmanna og er í töflunni miðað við þyngd í pundum og verð í bandaríkjadölum, en mjólk í lítrum. Þar kemur m.a. fram að kaup varnarliðsmanna á kjöti, eggjum, mjólkurafurðum og brauðvörum námu samtals tæplega 62 þús. bandaríkjadölum á árinu 1987 eða sem svarar til 2,8 millj. kr.
    Um sölu íslenskra landbúnaðarafurða fóru fram ítarlegar samningaviðræður á árunum 1986 og 1987 sem lauk með undirritun samkomulags hinn 11. febr. 1987. Samkvæmt því skyldi stefnt að viðskiptum samkvæmt ákveðnum viðmiðunum varðandi magn og verð.
    Í byrjun þessa árs var samkomulagið endurnýjað, en þá var ljóst að ekki hafði reynst unnt að selja það viðmiðunarmagn sem skráð var í fyrra samkomulagi. Var viðmiðunum breytt í samræmi við fengna reynslu og hefur salan gengið betur á þessu ári. Þannig er nú gert ráð fyrir að varnarliðið kaupi á þessu ári talsvert meira en þau 16 tonn af nautakjöti sem samningurinn fjallaði um. Keypt verði um 50 tonn af eggjum, en sala á kjúklingum verði talsvert undir því 34 tonna marki sem um var samið, enda telja kjúklingabændur sig ekki geta annað þeirri eftirspurn. Þá var samið um sölu á 4,5 tonnum af svínarifjum, en ekki reyndist unnt að anna þeirri eftirspurn þegar til kom.
    Nú eru fram undan viðræður um kaup landbúnaðarafurða á næsta ári og munu fulltrúar Varnarmálaskrifstofu, landbrn., kjúklingabænda og annarra kjötframleiðenda taka þátt í þeim. Varnarliðið hefur lýst áhuga á kaupum landbúnaðarvara annarra en dilkakjöts sem nýtur ekki eins mikillar hylli varnarliðsmanna og aðrar íslenskar búvörur.
    Í öðru lagi er spurt hve mikið af kjötvörum og öðrum landbúnaðarvörum varnarliðið fékk að flytja inn til landsins á árunum 1985, 1986 og 1987. Ég hef einnig látið taka þær upplýsingar saman í töflu sem dreift er til þimgmanna og ekki hentar að þylja í munnlegu svari við fsp., en þar kemur m.a. fram að á árinu 1987 voru flutt inn samtals 504 tonn af kjöti, þar með töldu kjúklingakjöti, og einnig flutti varnarliðið inn 40 tonn af eggjum. Unnar landbúnaðarafurðir voru fluttar inn fyrir jafnvirði 24 millj. kr. og landbúnaðarafurðir fyrir jafnvirði 7,2 millj. kr.
    Virðulegi forseti. Ég er tilbúinn að láta hv. fyrirspyrjanda og öðrum þingmönnum sem þess kynnu að óska í té nánari skriflegar upplýsingar um þessi viðskipti, en hagskýrslur um þau henta sem kunnugt er illa til slíkra munnlegra svara.