Sala á landbúnaðarafurðum
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Sá sem hér talar hefur verið og er þeirrar skoðunar að meðan erlendur her dvelji í landinu, sem vonandi verður ekki lengi úr þessu, eigi hann að vera sjálfum sér nægur og dvelja hér einangrað og ekki eigi að vera við hann nein samskipti efnahagsleg af þessu tagi né öðru. Þessi her getur mín vegna lifað á dósamat eða dufti á meðan hann er hér. Það er jafnsjálfsagt og hitt að hann virði íslensk lög, þ.e. að íslensk lög gildi á Íslandi öllu. Ég hef aldrei skilið þá röksemdafærslu að íslensk lög skuli ekki gilda innan svonefndra varnarsvæða. Annaðhvort er þar verið að segja að þessi varnarsvæði séu ekki lengur hluti af Íslandi eða segja að íslensk lög skuli ekki gilda fyrir Ísland allt. Að sjálfsögðu er þessi innflutningur á jafnvel hráu kjöti inn á svæði sem lögð hafa verið undir herinn lögleysa af því tagi sem gengur þvert í gegnum öll samskipti við þennan her og helgast af því að einhver æðri lög þykjast hafa verið búin til með svonefndum varnarsamningi sem taka af almenn ákvæði íslenskra laga að því er ýmsir vilja meina.
    Ég tel að sjálfsögðu að það beri að stöðva þann innflutning inn á þessi svæði sem brýtur í bága við almenn íslensk lög og þar eigi engar undanþágur að gilda. Hvort það leiði síðan til þess að herinn fari vegna þess að hann fái ekki nógu góðan mat eða hann taki það upp hjá sjálfum sér að éta dósamat eða duft, það læt ég mig einu gilda. Ég er ekki sérstakur talsmaður og hvatamaður þess og mun ekki verða að menn fari að gera það að keppikefli að selja íslenskar landbúnaðarafurðir sérstaklega til þeirra Bandaríkjamanna sem dvelja þarna frekar en Bandaríkjamanna annars staðar í heiminum.
    Ég vil svo að lokum geta þess, virðulegur forseti, að í landbrn. eru ýmis mál til skoðunar sem lúta að sjúkdómavörnum og innflutningi á vörum sem bannaður er, meintum innflutningi, leyfilegum eða óleyfilegum.