Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þar eð afstaða mín kemur ekki fram á þeim nefndarálitum sem hér hefur verið mælt fyrir vil ég láta afstöðu mína koma í ljós við þessa umræðu.
    Ég tel þessa hækkun mun gæfulegri en margar þær tekjuöflunarleiðir sem hæstv. ríkisstjórn hefur valið sér á undanförnum vikum og byggi ég þá afstöðu mína fyrst og fremst á heilbrigðissjónarmiðum. Sá galli er hins vegar á að tóbak og áfengi hafa vægi í framfærsluvísitölu og hækkunin hefur því bein áhrif á hana, svo og lánskjaravísitöluna.
    Við kvennalistakonur teljum óeðlilegt að þessar vörur hafi vægi í framfærsluvísitölunni og vildum gjarnan sjá þeim kippt út með sama hraða og nú stendur til að afgreiða heimild hæstv. fjmrh. til hækkunar á áfengi og tóbaki. En þrátt fyrir þetta munum við þó styðja málið.