Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Egill Jónsson:
    Virðulegi forseti. Hér fer fram 3. umr. um fjárlög og því verður að sjálfsögðu ekki á móti mælt að gert var samkomulag fyrir jólahlé um að lokaafgreiðslan færi fram á þessum dögum.
    Frá hendi Sjálfstfl. er að sjálfsögðu eðlilegt að virða það samkomulag. En ríkisstjórnin mætti taka þá afstöðu okkar sér til fyrirmyndar því að hún hefur rofið þetta samkomulag. Í meginatriðum hlaut að vera eðlilegt að ganga út frá því að fjárlagafrv. yrði afgreitt við óbreyttar forsendur frá því sem var þegar þingi var frestað fyrir jól. Að sjálfsögðu var sá tími sem ætlaður var til umfjöllunar málsins fyrir lokaafgreiðsluna við það miðaður. Þessar forsendur hafa breyst þannig að tímasetningar eru ekki til samræmis við þetta samkomulag. Ríkisstjórnin hefur þess vegna svikið samkomulagið og það er afar mikilvæg reynsla og niðurstaða í eðlilegum samskiptum innan þingsins að þetta samkomulag, ég held nánast það fyrsta um vinnutilhögun hér á þinginu, hefur verið svikið að tilhlutan ríkisstjórnarinnar.
    Af störfum fjvn. við þessa fjárlagagerð má vissulega margt læra og það hlýtur að vera eðlilegt að það komi fram að í þeim efnum hefur margt horft til betri vegar og þá sérstaklega það að fjvn. hefur haft í miklu ríkari mæli en áður hefur verið aðgang að sérfræðiþjónustu til upplýsinga og skýringar við fjárlagagerðina. Þetta ber að sjálfsögðu að meta og þakka og mín skoðun er að fjárlagagerð og vinnu við fjárlagagerð þyrfti mjög að breyta frá því sem verið hefur. Hún tekur mið af því sem var hér á árum áður þegar ríkisumsvifin voru ekki nema hluti af því sem nú er og við þær aðstæður hafði fjvn. að sjálfsögðu miklu betri möguleika á því að meta mál eins og þau lágu fyrir.
    Ég held hins vegar að líka verði að horfa til þess að minni hl. fjvn. sé gert mögulegt að hafa svipaða aðstöðu í þessum efnum og meiri hl. fjvn. Ég hygg að það væri gagnlegt og tel raunar að reynslan hafi sýnt það við þessa fjárlagagerð að það ættu að verða miklu skarpari skil á milli meiri hl. og minni hl. við fjárlagagerðina. Það eru vissir þættir sem eru sameiginlegir í þeim efnum, reyndar sameiginlegir hér í þinginu öllu, en aðrir ekki. Það er allt of stór hluti af þessari sameiginlegu vinnu sem fer fram á grundvelli tilkynninga frá meiri hl. fjvn. Þegar svo er komið í sumum vandasömum málum að meiri hl. fjvn. er málpípa frá ríkisstjórninni sem tekur við tillögum frá ríkisstjórninni sem meiri hl. kemur sér kannski ekki saman um undir öðrum kringumstæðum og nánast engin málefnaleg umfjöllun fer fram um í fjvn., og alls ekki sameiginlega, þá hlýtur það að koma mjög til álita að hafa skarpari skil í vinnubrögðum fjvn. Ég minni á það að sum af þeim málum sem ég bað um útreikninga og upplýsingar um voru ekki upplýst fyrr en eftir að hinni almennu málefnalegu umfjöllun í fjvn. lauk. Það er óhætt að fullyrða að í þessum efnum, þessum tilkynningarskylduvinnubrögðum og beinum afskiptum

ríkisstjórnarinnar um einstaka fjárlagaliði, var gengið lengra núna en áður hefur verið. Þetta segir í rauninni fyrst og fremst það að leiðir í fjvn. eiga að skilja með málefnalegum hætti með skýrari vinnubrögðum en nú voru viðhöfð.
    Hv. 6. þm. Suðurl., fulltrúi Borgaraflokksins í fjvn. og sá hinn sami og hafði hér orð fyrir flokknum í þessari umræðu, hafði á því orð að það sem þjóðina vantaði núna helst væri styrkari ríkisstjórn. Auðvitað get ég verið honum sammála um að þjóðin þyrfti á miklu styrkari ríkisstjórn að halda en raun ber vitni um. Ég vek hins vegar athygli á því að ríkisstjórnin hefur komið öllum sínum málum fram á Alþingi. Hún þarf ekkert að kvarta. Stefna hennar liggur fyrir hér með afar skýrum hætti við afgreiðslu skattamálanna og við afgreiðslu fjárlaganna. Hún hefur ekki þurft að fara neinar krókaleiðir. Hún hefur getað haft þetta eins og hún hefur viljað. Þetta er hennar stefna. Það er engum öðrum að þakka né kenna en henni sjálfri. Að því leyti hefur ekkert skort á þingstyrk þessarar ríkisstjórnar. Það er svo annað mál hver styrkurinn er í upplaginu, en það var ekki það sérstaklega sem hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson var að ræða og ég held að ekki sé hægt að ætla að upplaginu sem slíku verði breytt.
    Þegar þessar aðstæður eru metnar er auðvelt að sjá hvert stefnir í þessum efnum og eru það að sjálfsögðu verkin sem tala. Það fyrsta sem er eðlilegt að minna á og undirstrika alveg sérstaklega er að gert er ráð fyrir því að viðskiptahalli verði á þessu ári 14,5 milljarðar kr. Eitt af meginfyrirheitum ríkisstjórnarinnar, aðalfyrirheit ríkisstjórnarinnar, hefur verið að eyða viðskiptahallanum. Hvað skyldi nú hæstv. fjmrh. vera búinn að gefa margar yfirlýsingar um að það dygði ekki lengur fyrir íslensku þjóðina að lifa á erlendum lánum? Það væri fróðlegt að fara yfir það hversu oft sá virðulegi ráðherra hefur lýst því yfir. Niðurstaðan liggur fyrir. Það er ætlað að viskiptahallinn á þessu ári muni nema 14,5 milljörðum kr. og aukast enn frá því sem áður hefur verið og hefur reyndar verið eitt mesta ádeiluefni á Sjálfstfl. að undanförnu.
    Það vakti nokkra eftirtekt við 2. umr. þessa máls þegar því var mótmælt af fjmrh. og af formanni fjvn. að markmið ríkisstjórnarinnar væri að hækka skattana í þjóðfélaginu, eins og fram hafði m.a. komið í viðræðum fjvn. við
Þjóðhagsstofnun, um 6,7 milljarða kr. Fjmrh. greip hér fram í og sagði að þessi tala væri 4,3 milljarðar kr. Nú er staðfest svo að ekki verður um deilt að skattheimtan, nýir skattar beint og óbeint, sem tekin er ákvörðun um í skattafrumvörpunum og í þeim heimildum sem ríkisstjórnin hefur er upp á 7,2 milljarða kr. eða rétt tæpum þremur milljörðum kr. meiri en fjmrh. var að kalla fram í við 2. umr. fjárlaga. Þetta liggur nú fyrir og þar með hefur skattametið verið slegið eins og skýrlega hefur verið tekið fram.
    Sú yfirlýsing sem mér finnst þó vera langsamlega mikilvægust af hendi ríkisstjórnarinnar er það sem

kom fram hjá hv. formanni fjvn. í framsöguræðu hans fyrr í kvöld þar sem hann segir skýrum orðum að atvinnumál og aðgerðir í þeim efnum séu allt annað en fjárlagagerð. Þetta er að sjálfsögðu ekki hægt að skoða öðruvísi en að afkoman í atvinnulífinu, hin almenna pólitíska atvinnustefna í landinu, sé allt annað en það sem felist í fjárlögum. Ég veit ekki hvort hægt er með skýrari hætti að lýsa því á hvaða misskilningi þessi fjárlagagerð byggist þegar aðaltalsmaður ríkisstjórnarinnar við þessa umræðu segir að þetta tvennt sé sitt hvort og að afkoma atvinnulífsins, vandi þess eða viðgangur sé sú hagstærð sem sé óháð fjárlagagerðinni. Það gæti reyndar verið að ýmislegt væri öðruvísi við þessa fjárlagagerð ef afkoman í atvinnulífinu og sérstaklega í sjávarútveginum hefði verið tekin til umfjöllunar og gerðar þar nauðsynlegar aðgerðir til eflingar en ekki samdráttar eins og hefur verið og er stefna núv. ríkisstjórnar.
    Það er nú liðið rúmt ár frá því að Alþb. tók upp alveg sérstakt pólitískt slagorð. Það var fyrst og fremst byggt á byggðasjónarmiðum sem margir góðir alþýðubandalagsmenn hafa vissulega mikinn áhuga fyrir. Ætla ég ekki að bera á það nokkrar einustu brigður. En þar var sagt: ,,Sækjum valdið suður.`` Leiðin til þess að treysta byggðirnar og bæta hag fólksins þar var að sækja valdið suður. Nú er búið að sækja þetta vald, færa það að sunnan og út á landsbyggðina og þá hlýtur að vera eðlilegt að víkja að því með örfáum orðum hvernig til hefur tekist með því að sækja þetta vald suður til Reykjavíkur og færa það austur á land og norður á land. Aðalbyggðamálaráðherrann er úr Alþb., ættaður af Norðausturlandi sem hefur nú ekki mjög ólíkt landfræðilegt umhverfi því sem gerist t.d. á Austurlandi. Það fer þess vegna ekkert á milli mála að þessi pólitísku áform Alþb. eru komin í framkvæmd. Það er búið að sækja valdið suður og það er búið að færa það út á land, svona hér um bil eins langt og hægt er að koma því í burtu frá Reykjavík. Og Alþb. stjórnar. Það er ekki einungis að valdið sé komið í réttan landshluta, það er líka komið í réttan flokk. Og ég hygg að það sé ekki mjög algengt að draumar manna og stjórnmálaflokka hafi ræst með svo skjótum hætti sem hér liggur fyrir. Það hafa verið boðaðar heilar ráðstefnur undir þessum formerkjum. Og nú liggja fyrstu tölurnar fyrir um hvert stefnir í þessum efnum. Vegamálin, sem eru náttúrlega grundvallarmál í byggðum landsins, hafa undir þessum byggðaformerkjum verið skorin niður í þessu fjárlagafrv. um 900 millj. kr. Það er einkunn númer eitt þegar búið er að sækja valdið suður. Og það eru margar aðrar áherslur sem vissulega væri hægt að hafa orð á í þessum efnum. Það er kannski gaman að rifja það upp að ég held að það hafi verið á einum af fyrstu fundum núv. fjvn. að skilaboð komu frá samgrh., landsbyggðarráðherra Alþb., um það að tekin yrði upp fjárveiting til rannsókna á jarðgöngum á Austurlandi. Hver var nú niðurstaðan? Hún var sú að til þeirra jarðganga sem nú er verið að byggja er ekki gert ráð fyrir einni einustu krónu, ekki einu sinni til

þess að standa við verksamninga. Þessi gífurlega mikilvægu, ég vil segja nútímabyggðamál hafa þannig fengið sitt uppgjör hjá byggðamálaráðherra Alþb., það liggur fyrir. Og það vildi svo til að á síðasta kjörtímabili hafði Alþb. líka ýmislegt um það að segja hvernig málefnum í íslenskum landbúnaði væri stjórnað, og byggðamálaráðherrann hefur komið sínum málum þar í framkvæmd.
    Ég gat þess hér við 2. umr. að leikurinn frá því sem gerðist við fjárlagagerð fyrir einu ári síðan hefði verið endurtekinn, leikurinn, eða kannski öllu frekar aðförin að landbúnaðinum sem þá var höfð uppi og Alþfl. beitti sér að sjálfsögðu fyrir. Það er vissulega athyglisvert að allt það versta í þeirri umfjöllun, meira að segja ýmislegt af því sem okkur tókst að hnekkja, er nú orðið að niðurstöðu og ákvörðunum við þessa fjárlagagerð. Þannig er nú, sem aldrei hefur verið gert fyrr frá því að jarðræktarlögin voru samþykkt árið 1923, ákveðið að greiða ekki lögskilin framlög vegna jarðræktarframkvæmda. Það er ákveðið að leggja búfjárræktarlögin af sem ein allra merkasta starfsemi og áhrifamesta í íslenskum landbúnaði hefur að stærstum hluta byggst á. Þetta er niðurstaða byggðamálaráðherra Alþb.
    Hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir að fyrstu brestirnir í fyrrv. ríkisstjórn hafi komið fram við fjárlagagerðina í fyrra. Nú voru engar sprungur á ferðinni í sambandi við landbúnaðarmálin. Brestirnir sem hæstv. utanrrh. hefur verið að tala um byggðust á því að Sjálfstfl. féllst ekki á að það yrði níðst á bændum landsins, dreifbýlinu, með sama hætti og Alþfl. lagði til við fjárlagagerðina fyrir einu ári síðan. Og þess vegna komu brestir og þess vegna komu sprungur. Nú hefur hins vegar verið gengið lengra í því að
lama þennan atvinnuveg við fjárlagagerð en meira að segja var reynt fyrir einu ári síðan. Og auðvitað hefur samkomulagið batnað en ekki versnað ef sérstaklega er litið til þess að nú eru A-flokkarnir svokallaðir orðnir það miklir bandamenn að þeir eru að fara í sameiginlega fundaferð hringinn í kringum landið.
    Hér á Alþingi hefur verið gott samkomulag í landverndarmálefnum og um það samkomulag hefur gilt sérstök niðurstaða samþykkt af Alþingi. Henni hefur verið fylgt en ég ætla ekki að leyna því að stundum hafa verið uppi óskir um að þar yrði gerð breyting á og fyrir einu ári var það ein af tillögum þáv. fjmrh. að stórskerða landgræðsluáætlunina. Hlutur Alþb. í þessum efnum hefur þó orðið enn verri en meiningar Alþfl. stóðu til fyrir einu ári síðan og þá sérstaklega vegna þess að rofið hefur verið það samkomulag sem gilt hefur um skiptingu og ráðstöfun þessa fjár. Nú er sú skipting út af fyrir sig ekki tekin um alla framtíð og það hlýtur að vera eðlilegt að hún sé endurskoðuð þegar þar að kemur eins og verið hefur. En á meðan sú ákvörðun stendur sem Alþingi hefur komið sér saman um eru það svik að bregða þar út af. Þetta er líka sérstaklega athyglisvert með tilliti til þeirrar umfjöllunar sem hefur verið hér á Alþingi um landgræðslu og gróðurverndarmál, ekki síst í ljósi

þeirra svigurmæla sem hæstv. viðskrh. hefur haft uppi í garð bændastéttarinnar í landinu og hefði áreiðanlega verið tekið betur eftir ef þar hefði verið erlendur maður sem að bændum landsins hefði sótt og störfum þeirra með sama hætti og sjálfur viðskrh. hefur gert.
    Niðurstaðan liggur hins vegar fyrir með brigðum á landgræðsluáætluninni og stórskertum framkvæmdaframlögum til landgræðslu og gróðurverndarmála almennt séð í landinu. Það er hins vegar eðlilegt að hver njóti sannmælis eins og til stendur. Ég sé það hér á þingskjali að einn nýr liður er kominn inn í landgræðsluáætlunina og það er að sjálfsögðu alveg augljóst mál að þar ætlar ríkisstjórnin að bæta fyrir önnur verk sín í þessum efnum. Það er liðurinn Landþurrkun, upp á 500 þús. kr. þar sem hæsta fjárveitingin er upp á 245 þús. kr. samkvæmt nánari sundurliðun. Þetta er að sjálfsögðu nýlunda. Þetta er nýr liður undir landgræðsluáætlun og kemur á móti niðurskurðinum, m.a. vegna varnaraðgerða af völdum landbrots við strendur landsins. Það er mikil ástæða til þess að þakka meiri hl. og ríkisstjórninni fyrir þessa hugulsemi. Hún er kannski nokkuð í takt við málflutning hæstv. viðskrh. í þessum efnum og má vel vera að formaður fjvn. hafi nokkuð viljað bæta fyrir hans umfjöllun hér fyrr á þinginu um landgræðslu- og gróðurverndarmál með þessari myndarlegu afstöðu ríkisstjórnarinnar.
    Það er að sjálfsögðu ýmislegt fleira óupplýst í sambandi við þessi mál öllsömul og þá ekki síst það hvernig verður háttað með niðurgreiðslur. Það er kannski besta ráðið til þess að draga úr þessum óþjóðhollu störfum bændanna í landinu að hætta þessum niðurgreiðslum sem þó hefur verið samið um. Og ekki hafa verið gefnar skýringar á neinu öðru en að sú fjárlagatala sem er í þessari tillögugerð verði látin nægja og þá að sjálfsögðu kemur hæstv. viðskrh. markmiðum sínum fram með miklu auðveldari hætti en þeim að hafa uppi áróður um að óþjóðhollt sé að borða dilkakjöt.
    Ég sé að hv. þm. Alexander Stefánsson er hér mikið við skriftir á þessu kvöldi. ( AS: Það er út af fiskeldinu.) Það er út af fiskeldinu. Það er kannski rétt að taka það til umræðu hér í kvöld, fiskeldið og vinnubrögðin í sambandi við það. Það er vissulega mjög af hinu góða að formaður landbn. Nd. sé farinn að skrifa í þeim efnum því ég hygg að það sé leitun að öðrum eins vanskapningi eins og frv. sem átti að afgreiða á hálfum degi fyrir jól og einum degi eftir jól, um einhvern tryggingarsjóð í fiskeldismálum. En umræðan um það kemur til við aðrar aðstæður og verður þar að sjálfsögðu dregið fram í dagsljósið hvernig vinnubrögð ríkisstjórnin hefur viðhaft í þeim efnum.
    Ástæðan fyrir því að ég horfði aðeins út í hornið til hv. þm. Alexanders Stefánssonar, sem ég reyndar hef átt ágætt samstarf við í fjvn. og trúverðugt sem ég met mikils, eru kannski ekki síst þær yfirlýsingar sem hann hefur gefið hér við fjárlagaumræðuna, bæði við 1. og 2. umr. fjárlaga. Og ég hef að sjálfsögðu hlustað eftir þeim. Það er sem betur fer allt skráð í

þingtíðindum, en þar hefur farið málsvari Framsfl. Hann hefur mikið talað um það að hlutur landsbyggðarinnar yrði áður en yfir lýkur leiðréttur. Hann hefur verið sérstakur áhugamaður um vegamálin og hann hefur verið sérstakur áhugamaður um landbúnaðarmálin. Ég hef lýst niðurstöðunni. Það er svona mikið að marka Framsfl. meira að segja þó að aðaltalsmaður hans við fjárlagagerð sé að tala. Ég átti svolítið erfitt með að skilja afstöðu Framsfl. fyrir einu ári síðan þegar ágreiningurinn var þá uppi í sambandi við fjárlagagerð og ég tók ekki mark á því sem hæstv. forsrh. lýsti yfir þegar ríkisstjórnin var mynduð að á milli Framsfl. og Alþfl. væri enginn ágreiningur í landbúnaðarmálum. Þá hef ég viljað horfa til þess að ég hef haft kynni af einstökum þm. Framsfl. í störfum á Alþingi og m.a. hv. þm. Alexander Stefánssyni. Nú liggur niðurstaðan fyrir. Menn skyldu bera það saman sem þessi hv. þm. hefur haft á orði við þessa fjárlagaafgreiðslu, bæði við 1. og 2. umr. og svo aftur við þá niðurstöðu sem
hér fæst. Hún staðfestir orð hæstv. forsrh. um sameiginleg markmið Alþfl. og Framsfl. í landbúnaðar- og byggðamálum og hún staðfestir að þó að traustir valinkunnir framsóknarmenn, eins og hv. þm. Alexander Stefánsson, séu að tala úr þessum ræðustól er ekkert að marka þá þegar byggðamál eru annars vegar.
    Núna er liðið um það bil hálft annað ár síðan forustumenn Framsfl. fóru hringinn í kringum landið og lýstu því yfir að stefna þeirra í sjávarútvegsmálum meðan þeir réðu ferðinni, og sérstaklega síðan farið var að stjórna fiskveiðum við strendur landsins, hefði skilað 500 millj. dollara. Við frambjóðendur á Austurlandi heyrðum þetta t.d. býsna oft fyrir síðustu kosningar. Þá voru gefnar út fleiri og stærri aflaheimildir en verið hafði og þjóðinni var heitið því að þannig væri hægt að halda áfram, gefa út fleiri heimildir, framleiða og fá miklu fleiri dollara í staðinn. Það voru ekki bornar neinar brigður á að þetta væri árangur af störfum Framsfl. í þessum málum. Sjávarbyggðunum hringinn í kringum landið var þannig búið að bjarga.
    Nú alveg á síðustu dögum hafa menn heyrt annan boðskap og líka frá forustumönnum Framsfl. Nú á að fara að setja á sérstakan auðlindaskatt, að vísu ekki mjög stóran í byrjun, sem á að nota til þess að kaupa upp fyrirtæki í sjávarútvegi vítt og breitt um landið. Það er rétt eins og valdið hafi líka verið sótt suður af Framsfl. Ég veit ekki til þess að nokkurn tíma hafi verið settar fram jafnfjandsamlegar tillögur fyrir íslenskar sjávarbyggðir. Ég vil biðja menn að bera þær saman við það sem forustumenn Framsfl. sögðu fyrir síðustu alþingiskosningar um að þeir hafi skilað af sér 500 millj. dollara sem var árangur stefnu þeirra á fjórum árum.
    Ég held að það sé hárrétt sem fram kom hjá hv. þm. Óla Þ. Guðbjartssyni að íslenska þjóðin þurfi styrkari stjórn. Eins og ég gat um áðan þá lagði hann að sjálfsögðu þann skilning í orðin að það ætti að koma styrkari stjórnarmeirihluti á Alþingi. Hann hefur

dugað. En málefnalegur styrkur ríkisstjórnarinnar hefur bilað og íslenskar byggðir vítt um landið gjalda þess nú langt fram yfir það sem áður hefur verið. Valdið hefur verið sótt suður. Alþb. fer með það vald og árangurinn liggur fyrir í þessu fjárlagafrv. og í þeirri tillögugerð sem nú er efst á baugi m.a. um nýja sjóði til þess að kaupa upp atvinnufyrirtæki vítt með ströndum Íslands.