Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Ragnar Arnalds:
    Virðulegi forseti. Menntmn. beggja deilda komu saman í dag til að ræða um heiðurslaun listamanna. Nefndin leggur til að veitt verði 17 heiðurslaun, og er það fjölgun úr 15 frá því sem var í fyrra, og að hver heiðurslaun hækki úr 500 þús. kr. í 600 þús. kr.
    Af þeim sem fengu heiðurslaun á liðnu ári eru 13 á lífi. Nefndin gerir því tillögu um að bætt sé við fjórum nöfnum á þann lista. Það var samkomulag um fjölgunina og samkomulag varð um þessa hækkun. Hins vegar voru skiptar skoðanir um það hverjir ættu að bætast við á listann og fór fram atkvæðagreiðsla sem lyktaði þannig að nefndin mælir með að eftirtalin nöfn bætist við á listann: Jakobína Sigurðardóttir, Jórunn Viðar, Kristján Davíðsson og Þorsteinn Ö. Stephensen.