Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Við þessa 3. og síðustu umræðu um frv. til fjárlaga höfum við kvennalistakonur leyft okkur að flytja fáeinar brtt. Það þýðir þó ekki að við yrðum ánægðar með frv. að okkar tillögum samþykktum. Við viljum með þessum tillögum leggja áherslu á nokkra þætti sem hafa orðið út undan við gerð frv. Ég hafði vonað að fjvn. sæi sér fært á milli 2. og 3. umr. að gera betrumbætur á frv. í átt til meira réttlætis.
    Þær tillögur sem ég mæli hér fyrir eru á þskj. 404 og 414. Á þskj. 404 eru þrjár tillögur til breytinga. Í fyrsta lagi hækkun á framlagi til Kvennaathvarfsins í Reykjavík um tæpar 3,6 millj. kr. eða úr 6 millj. 130 þús. kr. í 9,7 millj. kr. Kvennaathvarfið sótti um 9 millj. 696 þús. 400 kr. til ríkisins sem er 70% af fjárhagsáætlun sem hljóðar upp á 13 millj. 852 þús. kr. Sótt er um 30% til sveitarfélaga. Þetta er þó einungis til rekstrar. Dvalarkonur sjá sjálfar um húshaldið. Hús athvarfsins er keypt fyrir frjáls framlög almennings, fyrirtækja og félagasamtaka og sama gildir um allt viðhald hússins.
    Síðan athvarfið tók til starfa fyrir sex árum hafa leitað þangað og dvalið um lengri og skemmri tíma alls 865 konur af öllu landinu með samtals 697 börn. Þau úrræði sem áður voru fyrir hendi fyrir þær konur og börn þeirra sem flýja þurftu heimili sín vegna ofbeldis voru þjóðfélaginu til lítils sóma. Fram að þeirri stundu að Kvennaathvarfið var opnað hinn 6. des. 1982 buðust konum á Stór-Reykjavíkursvæðinu sem flýja þurftu heimili sín vegna andlegs og/eða líkamlegs ofbeldis ekki önnur úrræði en einnar nætur dvöl í fangaklefum lögreglunnar eða einnar nætur dvöl í einu af þremur sjúkrarúmum slysavarðstofunnar í þeim tilvikum að konan var illa slösuð. Börnum þeirra var ekki boðið upp á neitt né heldur landsbyggðarkonum og börnum þeirra. Næstum árlega stendur Kvennaathvarfið frammi fyrir lokun vegna skorts á rekstrarfé og er því mjög brýnt að séð verði til þess að rekstur Kvennaathvarfsins verði tryggður til frambúðar. Ódýrast hlýtur að vera að reka eitt kvennaathvarf fyrir allt landið.
    Í öðru lagi er lögð til hækkun til Lánasjóðs ísl. námsmanna. Í menntamálaráðherratíð Sverris Hermannssonar voru námslán skert um 20%, þ.e. ætlast var til að námsmenn gætu lifað af 20% minni fjárhæð en reiknað var með að þyrfti til framfærslu. Samkvæmt áætlun þarf um 370 millj. kr. á næsta ári til að bæta námsmönnum upp þessa vanáætluðu framfærslu eða um 41 millj. kr. á mánuði í 9 mánuði. Núv. menntmrh. skipaði vinnuhóp sem átti að kanna leiðir til að leiðrétta að öllu eða að hluta þessa skerðingu. Í bráðabirgðaáliti hópsins er lagt til að námslán hækki um 7,5% nú í mars og aftur um 5% í september. Lagt er til að útgjaldaauki vegna þessa verði fjármagnaður að hluta með því að auka frádrátt vegna tekna námsmanna úr 35% í 50%. Til að leiðrétta skerðinguna á næsta ári, en þó aðeins frá 1. mars, þarf sjö sinnum 41 millj. kr. eða 287 millj. kr. Samkvæmt útreikningum vinnuhópsins er miðað við

að breytingar á tekjuviðmiðun árið 1989 gefi 60--70 millj. kr. Ónýtt heimild upp á 77 millj. kr. er fyrir hjá Lánasjóðnum. Þetta gerir 137--144 millj. kr. en þá vantar 143--150 millj. kr. til að endar nái saman til að leiðrétta skerðinguna. Tillaga þessi gerir því ráð fyrir hækkun á framlagi til Lánasjóðsins um 145 millj. kr. til þess að skerðingin verði leiðrétt að fullu á næsta ári.
    Í þriðja lagi er hækkun á fjárveitingum til Náttúruverndarráðs. Gert er ráð fyrir hækkun á fjárveitingum til fræðslustarfsemi um 2 millj. kr. Benda má á að rétt fyrir jól samþykkti Alþingi þál. um umhverfisfræðslu í skólum og fyrir almenning. Náttúruverndarráð gefur út bæklinga og fræðsluritlinga og heldur námskeið um náttúruvernd fyrir almenning og verðandi landverði. Landverðir nýta sína þekkingu til að fræða gesti í þjóðgörðum og víðar og stuðla þannig að betri umgengni um náttúru landsins. Einnig hefur ráðið haldið námskeið fyrir umhverfismálanefndir sveitarfélaga og gefið út náttúruminjaskrá. Einn starfsmaður hefur að mestu séð um fræðslustarfsemi á vegum ráðsins ásamt öðrum störfum hjá ráðinu. Nauðsynlegt er að efla verulega fræðslu um umhverfismál og er eðlilegt að Náttúruverndarráð gegni þar verulegu hlutverki. Þessi aukning, ef samþykkt verður, getur e.t.v. gert Náttúruverndarráði kleift að sinna betur þessum mikilvæga þætti starfsemi sinnar. Nú hrekkur fjárveiting ekki fyrir brýnustu verkefnum og hækkun um 2 millj. kr. er því aðeins lágmark.
    Virðulegur forseti. Ég vil í þessu samhengi vekja athygli á samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 13. nóv. 1988 um norræna ráðstefnu á Íslandi um umhverfisfræðslu. Samþykktin hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,1. Ákveðið verði að stefna að því að norræn ráðstefna um umhverfisfræðslu verði haldin hér á landi árið 1991.
    2. Settur verði á laggirnar starfshópur þeirra ráðuneyta sem fjalla um umhverfismál. Verkefni hópsins verði m.a. að samræma aðgerðir á sviði umhverfisfræðslu og hafa yfirumsjón með undirbúningi ráðstefnunnar 1991.
    3. Veittar verði 2 millj. kr. á fjárlögum 1989 til undirbúnings ráðstefnunni.``
    Ég vek sérstaka athygli á síðasta lið tillögunnar um að veittar verði 2 millj. kr. til undirbúnings þessari ráðstefnu á fjárlögum 1989. Það var sama hvernig ég fletti í frv. ég gat ekki séð að gert væri ráð fyrir þessari fjárveitingu. Vonandi þýðir það ekki að ríkisstjórnin ætli að kasta til hendinni við undirbúning ráðstefnunnar. Varla ætlast hún til að fólk vinni að undirbúningi í sjálfboðavinnu. Betra er að sleppa því að halda þessa ráðstefnu hér en gera það með hangandi hendi.
    Í fjórða lagi er brtt. á þskj. 414. Þar er lagt til að við bætist nýr liður 102 Kvennahús í Mindelo á Grænhöfðaeyjum 4 millj. kr. Í fréttabréfi um þróunarmál sem kom út í desember árið 1988 skrifar Dóra Stefánsdóttir grein þar sem hún segir frá kvennahúsinu í Mindelo á Grænhöfðaeyjum. Mig

langar, með leyfi forseta, að grípa niður í þessa grein, en þar stendur m.a.:
    ,,Það hús sem konur í bænum Mindelo á Grænhöfðaeyjum eru að byggja með aðstoð ÞSSÍ [sem er Þróunarsamvinnustofnun Íslands]. Húsið verður mikil myndarbygging á tveimur hæðum og er sú þriðja áætluð seinna. Þar á að vera margt af merkum hlutum. Fyrst og fremst er það ætlað konum sem vilja leita sér aukinnar menntunar, hvort heldur sem er í lestri og skrift, matargerð eða umönnun barna, einhverju er færa kynni þeim atvinnu, vörnum gegn sjúkdómum eða öðru því er beint snertir daglegt líf þeirra. Einnig má bjóða upp á aðstoð í viðkvæmum málum eins og í getnaðarvörnum, hjálp á meðgöngu og við brjóstagjöf að henni lokinni. Þá geta konur leitað þangað ef eiginmenn þeirra eða sambýlismenn fara illa með þær eða ef þær eru skildar einar eftir með börnin eins og oft vill verða. Síðast en ekki síst verða haldnir fyrirlestrar, efnt til skemmtana og annars sem kann að létta konum lífið. Þetta hús verður byggt upp eins og önnur sömu tegundar um allar eyjarnar og það verður að segjast eins og er að fyrir þau er mikil þörf. Svo vægt sé til orða tekið er staða kvenna á eyjunum afar erfið. Þær eru mun minna menntaðar en karlar þó að búið sé að innleiða skólaskyldu fyrir öll börn. Áður en henni var komið á nutu drengir forgangs ef ekki reyndist unnt að mennta öll börn á heimilunum. Ólæsi er því mun algengara meðal kvenna en karla og sama má segja um aðra menntun sem verður til þess að konum gengur afleitlega að fá sér vinnu. Þetta er ekki síst bagalegt fyrir þá sök að þær eru oft einar um að vinna fyrir heimilunum. Faðir barnanna eða feður eru kannski stungnir af til annarrar eyju eða til annars lands.``
    Síðar í greininni segir hún svo: ,,Í þeim húsum sem kvennasamtökin eru búin að byggja um eyjarnar er fullt út úr dyrum alla daga og fram á kvöld. Aðallega er kennt á kvöldin en þá eiga konurnar auðveldast með að komast frá. Mjög oft verða þær þó að taka börn sín með sér. Þau fá að leggja sig einhvers staðar á meðan mamma er að læra. Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur gefið 3 millj. kr. til hússins sem verið er að byggja í Mindelo. Helmingurinn af fénu er kominn á staðinn. Allt verður féð um 2 / 3 hlutar byggingarkostnaðar og þá vantar allt inn í húsið. En ég dreg enga dul á að mér finnst þessum peningum hafa verið vel varið og þó meiri hefðu verið.`` Þetta eru orð Dóru Stefánsdóttur og get ég svo sannarlega tekið undir það sem hún segir.
    Nauðsynlegt er að ljúka við þetta hús ef það á að verða að einhverju gagni. Alveg er eftir að innrétta húsið sem mun kosta verulegt fé þó að þar sé um að ræða upphæðir sem ekki mundu duga langt við innréttingar sams konar húss hér á landi. Ég tel það skyldu okkar að sjá til þess að Kvennahúsið í Mindelo verði ekki hálfkaraður og ónotaður kumbaldi. Þess vegna leggjum við kvennalistakonur til að 4 millj. kr. verði varið til þessa verkefnis á næsta ári.
    Virðulegur forseti. Við þingkonur Kvennalistans flytjum fleiri brtt. við frv. en þær sem ég hef nú mælt

fyrir og munu aðrar þingkonur mæla fyrir þeim. Eins og ég sagði í upphafi máls míns væri svo sannarlega þörf á að gera miklu fleiri breytingar á frv. ef það ætti að vera viðunandi. Við höfum einungis kosið að flytja örfáar brtt. við frv. og vænti ég þess að þær fái jákvæða afgreiðslu.