Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það er ákvörðun þingkvenna Kvennalistans, eins og komið hefur fram, að flytja ekki margar brtt. við þessi fjárlög fremur en vanalega, þó að þess hefði sannarlega verið þörf. Við höfum jafnan gætt hófs í þeim efnum. Er það bæði af raunsæi stjórnarandstöðuþingmanna á það meirihlutalýðræði sem hér ríkir en einnig vegna þess að oft er erfitt að sætta sig við forgangsröðun og val annarra. Best þætti okkur að umturna verulega og breyta um vinnulag við fjárlagagerðina og hafa þar allt aðrar áherslur en nú eru. Þó ber að viðurkenna að ótrúlega lítill hluti þess fjár sem þar er ráðstafað er í raun hreyfanlegur og hægt að hafa áhrif á.
    Í þetta sinn höfum við einnig gætt hófs vegna slæmrar stöðu ríkissjóðs. Brtt. stjórnarandstöðu ná fæstar fram að ganga eins og við öll vitum og eru oftast fyrst og fremst viljayfirlýsingar. Þó er það vitanlega lýðræðislegur réttur að bera þær fram og vissulega geta þær orðið frækorn að umbótum eða náð að þoka þróuninni áleiðis í heppilega og jákvæða átt.
    Við þingkonurnar höfum skipt með okkur verkum um að flytja brtt. og mæla fyrir þeim en hv. 7. þm. Norðurl. e. Málmfríður Sigurðardóttir, fulltrúi okkar í fjvn., hefur þegar talað fyrir okkar hönd um almenna þætti fjárlaganna, stefnu þeirra og efnahagsleg áhrif.
    Það hefur komið í minn hlut að mæla hér fyrir þremur brtt. sem varða heilbrigðismál og hafa í för með sér hækkun sem svarar 28 millj. 183 þús. kr. ef þær ná fram að ganga. Þá þekki ég að minnsta kosti einn þingmann hér inni sem mundi segja: Hvar á að taka það fé? Það má víða leita fanga og mundi ég einna fyrst leita í þeirri fúlgu sem sparast mun þegar dregið verður úr risnu eins og hæstv. fjmrh. hefur lofað. Nú, eða þá að leita í andvirði þeirrar hækkunar áfengis og tóbaks sem við kvennalistakonur studdum reyndar hæstv. fjmrh. og stjórn hans við að koma á fyrr í kvöld í Ed. Allar þessar brtt. sem ég mæli fyrir eru þarfar og þær eru einnig brýnar. Allar varða þær almannaheill og allar hníga þær að því að koma í veg fyrir vanda.
    Þær eru á þskj. 406 og eru fluttar af öllum þingkonum Kvennalistans. Þær varða 4. gr. frv., lið 08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi. Þær eru þó allar vissulega allt of hóflegar miðað við þá þörf sem er í hverjum þessara málaflokka. Sú fyrsta er við undirlið 140 og varðar kostnað vegna laga nr. 25/1975, en það eru lög um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Þrettán árum eftir setningu laganna skortir verulega á að lögboðin fræðsla og ráðgjöf sé veitt á viðunandi hátt. Þetta er auðvitað óþolandi lítilsvirðing við samþykkt lög og er þeim mun alvarlegra þar sem þessi þáttur laganna er í raun grundvöllur þeirra. Ríkar ástæður eru til þess að hafa áhyggjur af vanþekkingu unglinga sem þrátt fyrir allar upplýsingar úr fjölmiðlum virðast margir ótrúlega fáfróðir um kynferðismál og getnaðarvarnir. Ætla má að bein tengsl séu á milli þessarar fáfræði og mikils fjölda þungana meðal íslenskra stúlkna á aldrinum

15--19 ára. Þá virðist enn skorta mjög á að piltum sé ljós sú ábyrgð sem þeir bera á afleiðingum samlífs engu síður en stúlkur og er brýn nauðsyn að vinna að breyttum viðhorfum hvað það varðar.
    Ég vil aðeins geta þess að þó að fóstureyðingar séu ekki eins tíðar hér og í nágrannalöndum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, hefur þó fæðingum hjá 15--19 ára stúlkum í þessum löndum fækkað samtímis á undanförnum árum. Á sama tíma hefur fjöldi fóstureyðinga í þessum aldursflokki aukist hér tiltölulega þó þeim hafi fækkað á Norðurlöndunum og telja menn almennt að þar sé um að ræða árangur meiri og betri kynfræðslu. Í því sambandi vil ég geta dæmis frá Kaupmannahöfn þar sem sérstakt átak í kynfræðslu fyrir nokkrum árum meðal unglinga leiddi til marktækrar lækkunar ótímabærra þungana meðal unglingsstúlkna.
    Í grein í Læknablaðinu 1987, 73. árgangi bls. 321, sem varðar fóstureyðingar og notkun getnaðarvarna og er eftir læknana Þórð Óskarsson og Reyni Tómas Geirsson, segir, með leyfi forseta: ,,Til að halda fjölda fóstureyðinga sem lægstum þarf að gera átak í þá átt að gera getnaðarvarnir aðgengilegri fyrir alla aldurshópa m.a. með stofnun kynfræðsludeilda við heilsugæslustöðvar, ódýrari getnaðarvörnum og aukinni fræðslu táninga.`` Þingflokkur Kvennalistans flutti á síðasta kjörtímabili þingsályktunartillögu um fræðslu meðal almennings um kynfræðslumál. Sú tillaga var reyndar samþykkt í þinglok, eftir að hafa tekið nokkrum breytingum og hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela heilbrmrh. að efla verulega fræðslu um kynferðismál meðal almennings með það meginmarkmið að koma í veg fyrir ótímabærar þunganir og hindra útbreiðslu sjúkdóma. Sérstök áhersla skal lögð á að upplýsa fólk á aldrinum 15--19 ára um kynlíf og getnaðarvarnir.`` Það er auðvitað óþolandi að hér skuli þrásinnis samþykkt góð mál á þingi en síðan skuli þau gjörsamlega hundsuð þegar til framkvæmdanna kemur og framlag til þeirra lækkuð af framkvæmdarvaldinu jafnvel þó að löggjafinn hafi nýlega samþykkt og lagt til að gera sérstakt átak í þessum efnum. Í núgildandi fjárlögum er beinlínis lögð til lækkun á þessum lið frá því sem áður var. Tillaga okkar er þó hófsöm og höfum við hækkað framlagið úr 927 þús. í 5 millj., eða um 4 millj. 73 þús. kr.
Það er ekki mikið en það kemur þó til góða.
    Breytingar við undirliðinn 195 Kynsjúkdómar, eyðni, eru í rauninni nátengdar fyrri liðnum og má leiða að því líkur að auðveldara verði að hefta útbreiðslu eyðni á Íslandi ef betur er staðið að almennri fræðslu um kynlíf og getnaðarvarnir en nú er. Eyðni er e.t.v. dæmigerðasti sjúkdómurinn þar sem varnir og aðgát varðandi hegðun eru einu meðulin sem duga. Þeim verður að beita ef hindra á vaxandi útbreiðslu sjúkdómsins. Það kostar þjóðfélagið hundruð þúsunda króna ef ekki nokkrar milljónir að annast og sinna hverjum þeim einstaklingi sem deyr úr eyðni, og þá nefni ég ekki þær þjáningar og þann félagslega vanda sem því fylgir. Á sama tíma og tíðni

eyðni eykst og vaxandi vandi fylgir í kjölfarið eru framlög til sérstakra aðgerða þess vegna lækkuð um rúmar 4 millj. kr. á fjárlögunum. Þetta er beinlínis grátbroslegur vitnisburður um skammsýni og skilningsleysi. Að vísu hefur tekist með góðra manna hjálp að tosa þetta framlag úr 5 millj. 890 þús. kr. upp í 8 millj. 390 þús. kr., eða um 2,5 millj. Við gerum tillögu um hækkun upp í 10 millj. kr. sem er aðeins myndarlegra þó að hvergi nærri sé miðað við þörfina. Ekki síst þegar hugað er að því hve geysilega hár auglýsingakostnaður er nú orðinn og gleypir léttilega framlög af þessari stærð.
    Síðasta tillagan sem ég mæli fyrir er nýr undirliður 180 og varðar forvarnarsjóð en til hans viljum við verja 20 millj. kr. Útgjöld ríkisins vegna heilbrigðismála hafa farið vaxandi á sl. áratugum. Þessi kostnaðaraukning hefur fyrst og fremst orðið í rekstri sjúkrahúsa og annarra stofnana heilbrigðisþjónustunnar. Hins vegar hefur í raun orðið hverfandi lítil hækkun á framlagi ríkisins til heilbrigðisfræðslu og fyrirbyggjandi aðgerða þrátt fyrir þá vitneskju að miklu hagkvæmara sé að koma í veg fyrir sjúkdóma en að lækna þá. Það er því löngu orðið tímabært að taka afdráttarlaus skref til að snúa þessari þróun við og leggja ríkari áherslu á heilbrigðisfræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðir en áður. Það er vert að geta þess að ýmis raunhæf verkefni á sviði forvarna blasa við þar sem ætla má að markvissar aðgerðir mundu skila verulegum árangri. Þann árangur má bæði mæla í mannslífum, auknu heilbrigði, bættri líðan og miklum fjárhagslegum sparnaði einkum þegar til lengdar er litið. Ég vil sérstaklega geta þess að þegar á að fara að beita niðurskurði á stofnanir heilbrigðiskerfisins er afar brýnt að stíga ákveðin markviss skref til forvarna og heilbrigðisfræðslu til að vega upp á móti þannig að samhengi og skipulag sé í þessari þróun og hún hlíti ákveðinni stefnumörkun.
    Sá forvarnasjóður sem við leggjum til að verði settur á laggirnar er viðleitni til stefnumörkunar í þessum efnum. Hann er einnig viðurkenning á nauðsyn þess að breyta um áherslur, að stíga markviss skref til forvarna og heilbrigðisfræðslu. Það eru mörg ágæt verkefni sem miða að forvörnum og varða heilbrigðisfræðslu en synjað er um fjármögnun af því að enginn ákveðinn aðili eða stofnun hefur það á verkefnaskrá sinni að sinna þeim eða útvega þeim fjármagn. Ég hef sannfærst um það eftir setu í tryggingaráði og af öðrum afskiptum af heilbrigðismálum á undanförnum árum að mikil þörf er á aukinni fjármögnun til þessara mála. Nauðsyn er að eyrnamerkja sérstakt fé til þessara þarfa en best væri þó að koma skipulagi þessara mála í betra horf. Samræmda og skipulega fræðslu um heilbrigðismál vantar hérlendis. Almenn heilbrigðisfræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir hafa ekki verið aðalviðfangsefni eða á ábyrgð neins ákveðins aðila heldur margra ólíkra og þá aðeins sem hluti af miklu stærra verksviði þeirra. Skortur á fjármagni til aðalstarfsemi þessara aðila hefur allt of oft leitt til

þess að fræðsluhlutverkið hefur orðið út undan.
    Í markmiði 5 í íslenskri heilbrigðisáætlun er fjallað um að komið verði á fót stofnun forvarna og heilbrigðisfræðslu. Þessari stofnun er ætlað að annast ráðgjöf um heilbrigða lífshætti, gerð fræðsluefnis og endurmenntun starfsliðs í heilsugæslu. Til þessarar stofnunar er enn fremur ætlað að flytja starfsemi áfengisvarnaráðs, tóbaksvarnanefndar, manneldisráðs og tannverndarstarfsemi svo eitthvað sé nefnt. Þó að þessi stofnun eða önnur ámóta sé enn ekki til, er samt nauðsyn að huga að þessum málum. Það er ekki síst nauðsyn að breyta viðhorfum manna, hvetja þá til að hugsa á annan hátt. Hvað eru menn eiginlega að hugsa um stefnumörkun í heilbrigðismálum, t.d. þau stjórnvöld sem nú sitja? Það er hutverk þeirra að marka samræmda og skipulega stefnu sem er í takt við þá heilbrigðisáætlun sem hefur í tvígang verið lögð fram á Alþingi, en þar er megináhersla lögð á fyrirbyggjandi aðgerðir. Sama er að segja um aðra þátttöku og aðild að stefnu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Ef menn ætla að standa við hana verða þeir að vinna að henni og leggja til þess nokkurt fé. Það mun bæði leiða til betra heilbrigðis hjá fólkinu í landinu og jafnframt spara mikið fé þegar til lengri tíma er litið. Og gleymum því ekki að 40% fjárlaganna renna til heilbrigðis- og tryggingamála. Það er hlutverk stjórnmálamanna og skylda að líta til lengri tíma og huga að framtíðinni. Í von um að hér leynist nógu margir slíkir sem styðji þessar hógværu en þörfu brtt. lýk ég máli mínu hér á nýjum degi, hinum 13. í jólum.