Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Fyrir hönd þingflokks Kvennalistans mæli ég fyrir brtt. á þskj. 409. Fyrstu tvær brtt. falla undir liðinn 07-999 Félagsmál, ýmis starfsemi og eru við 4. gr. frv. Við leggjum til að undir þennan lið komi tveir nýir liðir, annars vegar um sérstakt átak til að auka atvinnumöguleika kvenna í dreifbýli og hins vegar um sérstakt átak í jafnréttismálum.
    Varðandi fyrsta liðinn vil ég benda á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er fyrirheit um að ríkisstjórnin muni gera sérstakt átak til að auka atvinnumöguleika kvenna í dreifbýli. Ég þarf ekki að verja tíma mínum til að lýsa þeirri óvissu og óöryggi sem margar konur úti á landsbyggðinni mega búa við varðandi afkomu sína á tímum þegar atvinna minnkar við hefðbundinn búskap. Nú á haustþinginu hefur komið fram mikill áhugi hv. þingmanna fyrir því að ákvæði þessu verði framfylgt. Það sést m.a. á því að tvær háttvirtar þingkonur stjórnarinnar hafa ásamt mörgum öðrum þm. flutt þingsályktunartillögur varðandi þetta mál og hafa báðar tillögurnar hlotið mjög góðar undirtektir. Í morgun hlýddum við svo á svör hæstv. forsrh. við fyrirspurn hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og Hjörleifs Guttormssonar um það hvernig hæstv. ríkisstjórn hygðist ná því markmiði sínu að efla atvinnumöguleika kvenna í dreifbýli. Ég verð að segja að heldur þóttu mér svör hæstv. forsrh. ómarkviss og óákveðin. Í máli hans kom fram að nú stendur yfir söfnun heimilda um þá atvinnu sem konur um land allt hafa þegar skapað sér. Í mínum huga er hins vegar alveg ljóst að ekki þýðir að bíða lengur. Vonleysi fólks eykst ef það sér ekki eða finnur að eitthvað raunhæft sé hægt að gera. Konur þurfa fyrst og fremst örvun og hvatningu til þess að geta hrint ýmsum hugmyndum í framkvæmd og þær þurfa ráðgjöf og velvilja stjórnvalda og að sjálfsögðu, til að byrja með alla vega, nokkurt fjármagn.
    Í máli hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar í umræðunum um áðurnefnda fyrirspurn hér í morgun, eða réttara sagt í gærmorgun, komu fram tölur um kynskiptingu íbúa landsbyggðarinnar. Alls staðar er nokkur munur á fjölda kvenna og karla. Konurnar flytja burt til að sækja sér menntun og fjölbreyttari atvinnu. Á eftir flytja karlmennirnir og það raskar auðvitað byggðunum enn frekar en orðið er. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki hægt að gera það átak sem kveður á um í stjórnarsáttmálanum án þess að nokkru sé til kostað.
    Einhæfni atvinnulífs í dreifbýli er ekki séríslenskt fyrirbæri. Ýmsir nágrannar okkar, t.d. íbúar norðurhluta Skandinavíu, búa við svipuð skilyrði. Þar hefur verið unnið markvisst að því að efla atvinnu fyrir konur sérstaklega. Langar mig að nefna hér dæmi um lítið samfélag, Velkulas, í finnska skerjagarðinum. Það nær yfir 400 skerjagarðseyjar en aðeins 7 þeirra eru nú í byggð og var sú byggð að deyja út. Árið 1980 voru aðeins 132 íbúar á svæðinu og svartsýni mikil. Nú er íbúafjöldinn orðinn 210 og yfir 1000 manns búa þar á sumrin, þökk sé

stjórnvöldum sem skipulögðu þróunarverkefni sem fólst m.a. í nýrri höfn, sumarbústaðauppbyggingu og þjónustu af ýmsu tagi. Þetta verkefni mætti mótspyrnu til að byrja með. Sumir vilja því miður engu breyta heldur sökkva á sínum leka dalli. En nú mætir þetta verkefni vaxandi skilningi og trúin á framtíðina eykst. Til þess að örva og hvetja konur þarf að vera svigrúm til að veita þeim ráðgjöf og vinna upp hugmyndabanka um ný atvinnutækifæri sem miðast við þeirra forsendur og áhugamál. Til þess að vinna það verk þarf ekki aðeins velvilja stjórnvalda heldur líka fjármagn. Þess vegna legg ég til hér fyrir hönd þingflokks Kvennalistans að varið verði 5 millj. kr. á þessu ári til þess að hrinda þessu verkefni af stað. Það er ekki lengur eftir neinu að bíða því að það hallar stöðugt á konur úti á landsbyggðinni hvað atvinnu og fólksfjölda snertir.
    Seinni liðurinn um sérstakt átak í jafnréttismálum tengist að sjálfsögðu þeim fyrri, en gífurlegt misrétti ríkir enn milli karla og kvenna þrátt fyrir lagasetningu um jafnrétti kynjanna og töluverða umræðu um jafnréttismál í þjóðfélaginu um margra ára skeið. Þessi mál hefur einnig oftlega borið á góma á Alþingi undanfarið. Jafnréttismálin virðast þó enn brenna heitast á konum og sést það greinilega við lestur umræðna í Alþingistíðindum um þessi mál, þó sem betur fer sé að finna á því jákvæðar undantekningar. Hvers vegna segjast allir vilja ná jafnrétti en svo þokast jafnlítið í jafnréttisátt og raun ber vitni? E.t.v. stafar það af því að ekki meina allir það sama með hugtakinu jafnrétti. Í mínum huga er jafnrétti kvenfrelsi. Ef fólk viðurkennir það ekki náum við aldrei því jafnrétti sem við sækjumst eftir.
    Jafnréttisráð hefur mörgum og mikilvægum verkefnum að sinna og ekki hefði verið vanþörf á að hækka verulega framlög til ráðsins. Við ákváðum hins vegar að leggja til að 5 millj. kr. yrði varið í sérstakt átak á sviði jafnréttismála. Markmiðið með slíku átaki er að vekja almenning til vitundar um stöðu kvenna og leiðir til þess að bæta þá stöðu. Að sjálfsögðu hefði mátt hugsa sér að verja mun hærri upphæð til slíks verkefnis því að víða er pottur brotinn. Ég vil minna á að hæstv. félmrh. hefur gert sérstaka jafnréttisáætlun sem forstöðumönnum ríkisstofnana er ætlað að fylgja og mig grunar að margir þeirra þurfi jafnvel að fá einhverja ráðgjöf um það hvernig slíkar áætlanir
eru gerðar.
    Næsta brtt. sem ég flyt við 4. gr. er varðandi rannsóknir í kvennafræðum við Háskóla Íslands. Þær hafa verið stundaðar undanfarin ár af fræðikonum í ýmsum greinum við Háskólann en hér á landi er þetta tiltölulega ný fræðigrein sem þó á sér töluverða sögu í nágrannalöndum okkar. Ég segi að greinin sé ný vegna þess að á öllum sviðum fræða og vísinda eru konur nú að þreifa sig áfram með nýjar og skapandi rannsóknir og hugmyndir af þessu tagi. Þær eru nýjar og skapandi vegna þess að til þeirra bera konur reynslu sína, vitund og lífssýn en ekkert af þessu hefur áður verið mótandi á nokkru rannsóknarsviði.

Þau viðhorf, sjónarhorn og sá skilningur sem konur eru nú í fyrsta sinn í aðstöðu til að bera inn í fræðigreinarnar vegna stóraukinnar menntunar kvenna á undanförnum árum hafa víða verið sem frjóvgandi regn á gróðurmold. Upp hafa sprottið nýjar hugmyndir, ný viðfangsefni, nýjar aðferðir og nýjar niðurstöður sem stundum varpa nýju ljósi á fræðigreinina alla. Þetta hvetur fræðimenn til að leita nýrra svara og hvetur þá til nýrra dáða.
    Það vekur reyndar furðu mína að þrátt fyrir nauðsyn á niðurskurði á ýmsum sviðum skuli þessi liður lækkaður í krónutölu. Ég tel það óverjandi af ríkisstjórn sem kennir sig við jafnrétti að skera niður fjárveitingar til þessa mikilvæga vísindastarfs. Þó að skammt sé síðan kvennarannsóknir hlutu viðurkenningu hefur tekist samstarf milli norrænna fræðikvenna og eru rannsóknir þeirra viðurkenndar sem mikilvægt brautryðjendastarf og fyrirmynd fræðikvenna í öðrum löndum. Í ljósi þess mikla áhuga sem er á þessum rannsóknum og ekki síst fyrir áhuga fræðikvennanna og hins nýja og mikilvæga framlags þeirra til vísindanna leggjum við til að til kvennarannsóknanna verði veitt 4 millj. kr., eins og þær reyndar fóru fram á í bréfi sínu til fjvn. 11. nóv. sl. þar sem einmitt kemur fram að umsóknum hefur fjölgað mjög með hverju árinu síðan þessar rannsóknir hófust.
    Síðasta brtt. sem ég mæli fyrir tengist Heimilisiðnaðarskóla Íslands. Þar er lögð til 2 millj. kr. hækkun til skólans og miðast upphæðin við að hún nægi a.m.k. til þess að greiða laun skólastjóra. Í þessum skóla fer fram kennsla í gamalli íslenskri handmennt, svo sem þjóðbúningasaumi, fótvefnaði, spjaldvefnaði, knipli, balderingu og allri tóvinnu, þ.e. því að aðskilja þel og tog, kemba, spinna og vinna úr báðum gerðum ullarinnar. Hér er um að ræða handbrögð sem eru hluti af okkar menningararfi og mörg hver séríslensk. Glatist þau er um óbætanlegan skaða að ræða því hvergi annars staðar á landinu, og reyndar í heiminum öllum, er hægt að læra það sem þarna er kennt. Heimilisiðnaðarskólinn hefur unnið ómetanlegt starf í varðveislu þessara handbragða. Hins vegar hefur skólinn jafnan barist í bökkum fjárhagslega. Það hefur orðið orsök þess að ekki hefur verið hægt að borga leiðbeinendum, kennurum og skólastjóra eðlileg laun og námskeiðsgjöld hafa verið það há að margar konur sem gjarnan vildu læra það sem þarna er kennt og leggja þar með sitt af mörkum til að viðhalda hinum séríslenska menningararfi hafa orðið frá að hverfa. Í ljósi þessa leggjum við kvennalistakonur áherslu á að ríkissjóður viðurkenni starfsemi Heimilisiðnaðarskólans með því að hækka verulega framlög til hans. Ég vil aðeins geta þess til samanburðar að vegna þess að nemendur Heimilisiðnaðarskólans þurfa að greiða öll kennslugjöld þá kostar hver kennslustund þátttakanda 196 kr., vefnaðarnámskeiðið eru síðan 88 tímar sem þýðir að eitt námskeið kostar 17.248 kr. Til samanburðar vil ég benda á að ein önn í öldungadeild kostar 7400 kr. óháð því hversu margar námsgreinar

eða tíma nemendur velja að taka. Og spurningin er auðvitað hvers vegna er svona miklu merkilegra að læra það sem fram fer innan framhaldsskólanna en t.d. spjaldvefnað og það að viðhalda þessari gömlu, íslensku menningu okkar.
    Virðulegi forseti. Þær brtt. sem ég hef mælt fyrir snerta á einn eða annan hátt stöðu kvenna. Eins og fram hefur komið í máli mínu væri trúlega hægt að verja enn meira fé til að bæta stöðu kvenna en við vildum auðvitað reyna að vera ábyrgar og hógværar í tillöguflutningi við þær aðstæður sem við búum við núna. Við teljum þó að tíma orða verði nú að ljúka og við taki athafnir. Ég vænti þess af ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju að hún taki undir þessar brtt. og þær hljóti jákvæða afgreiðslu.