Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Friðjón Þórðarson:
    Virðulegi forseti. Aðeins örfá atriði skal ég nefna þó af nægu sé að taka. Á undanförnum árum hefur í fjárlögum staðið heimild til fjmrh. að selja Andakílsárvirjun um það bil tveggja km langa 66 kW línu milli Vatnshamra og Andakílsárvirkjunar, sem nú er í eigu Rafmagnsveitna ríkisins, og hluta af byggðalínustöðinni á Vatnshömrum í Borgarfjarðarsýslu. Heimamenn hafa óskað eftir því að þessari heimild yrði haldið inni í 6. gr. fjárlaga en af einhverjum ástæðum hefur hún lent utan garðs. Þá er auðvitað sá kostur fyrir hendi að þm. Vesturlands flyttu brtt. en þar sem svo framorðið var orðið var horfið frá því. Ég þakka hv. 1. þm. Vesturl. fyrir að minnast á þetta í lok ræðu sinnar áðan. Og raunar hefur hann, svo og formaður fjvn., heitið því að styðja við þetta mál ef á það reynir á þessu ári og verður að treysta á það.
    Það er svo með 6. gr. að hún leynir á sér, hún er lítið í umræðunni. Það var minnst á það áðan af hv. 7. þm. Norðurl. e. að 6. gr. mætti líkja við óútfylltan víxil og satt er það að verði allar heimildir 6. gr. nýttar til hins ýtrasta er þar um æðimikið fjármagn að ræða. Ég ætla að leyfa mér að nefna tvö eða þrjú atriði varðandi þessa grein.
    Á þskj. 396 frá fjvn. við 6. gr. segir í lið 5.25 að fjmrh. sé heimilt að kaupa húsnæði í húsi Útvegsbankans á Akureyri samkvæmt ákvæðum um forkaupsrétt. Ég vænti þess að þarna liggi þörf til grundvallar þessu ákvæði þó að hún sé ekki skýrð nánar og þetta sé ekki gert aðeins til þess að safna fasteignum í eigu ríkissjóðs.
    Í lið 6.10 er ákvæði um að semja við Grýtubakkahrepp um uppgjör vegna skólamannvirkja. Ég vil taka það skýrt fram að ég er að sjálfsögðu mjög hlynntur þessu ákvæði. Þarna eygir eitt sveitarfélag landsins möguleika á því að fá skuldaskil við ríkissjóð og ég fagna því og styð þetta ákvæði eindregið. En ég vil jafnframt minna á að ríkissjóður skuldar ýmsum öðrum sveitarfélögum álitlegar fúlgur í þessum efnum, m.a. hefur Stykkishólmur átt hjá ríkissjóði vegna byggingar skólamannvirkja margar milljónir nokkur undanfarin ár. Sú upphæð var um 7 millj. kr. um síðustu áramót en hefur oft numið mun hærri fjárhæð. Ég vil taka skýrt fram að ég er hlynntur þessu ákvæði 6.10 en ég vil ekki láta gagnálykta frá því. Ég beini því til hæstv. fjmrh. að hann reyni að líta til þeirra sveitarfélaga sem eins er ástatt um og Stykkishólm að þessu leyti og munar vissulega um svo miklar fjárhæðir, og reyni, þó það verði ekki tekið fram í 6. gr. fjárlaga 1989, að rétta hlut þessara sveitarfélaga með einum eða öðrum hætti á þessu ári.
    Útlitið er ekkert glæsilegt í vegamálum þar sem niður eru skornir sérmerktir tekjustofnar til vegamála. Við alþingismenn höfum vænst þess í lengstu lög að við gætum haldið áfram framkvæmdum í samgöngumálum eins og við höfum allir verið svo mjög sammála um á undanförnum árum og hv. 3. þm. Suðurl. vék að sérstaklega í sínu máli. Ég hygg að

við verðum þess vegna að taka þessi mál til mjög gagngerðrar endurskoðunar síðar í vetur og koma bættri skipan á þau mál til frambúðar, miklu bjartari en nú blasir við.
    Eins og fram hefur komið eru engar brtt. fluttar af hálfu sjálfstæðismanna við þessa umræðu eða a.m.k. mjög fáar. Ég skal ekki segja mikið meira, en nú eru, eins og hvað eftir annað hefur komið fram í máli manna við þessa umræðu, veður öll válynd og margt á hverfanda hveli. Við afgreiðslu þessa fjárlagafrv. eru fjölmörg skýr og greinileg ákvæði laga um framlög til hinna mikilvægustu mála sniðgengin með öllu. Hið eldforna markmið laga og réttar ,,Með lögum skal land byggja`` virðist mér vera að færast fjær.
    Ég læt máli mínu lokið að sinni, virðulegi forseti.