Fjárlög 1989
Fimmtudaginn 05. janúar 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 411. Þar leggjum við kvennalistakonur til hækkun á liðnum 02-982, sem tekur til framlaga til lista. Við höfum frá upphafi þingsetu kvennalistakvenna flutt tillögur um tvöföldun þessa liðar, ekki vegna þess að upphæðin sem lögð hefur verið til í fjárlögum frá ári til árs sé kórrétt tvöfölduð heldur er um viljayfirlýsingu að ræða og til áréttingar um að minna megi það nú ekki vera.
    Það lætur nærri að fjárframlög undir þessum lið hafi verið framreiknuð milli ára. Nú bregður svo við að hækkunin er rúm 20% umfram forsendur fjárlagafrv. Því höldum við okkur við sama heygarðshornið og leggjum til breytingu sem nemur 80% í viðbót og leggjum til að í stað 183,7 millj. kr. komi 308 millj. 22 þús. kr. Ég ítreka að þessi tala sem við leggjum til er ekki eitthvert endanlegt takmark heldur áfangi. Ef þessi tillaga nær fram að ganga nema framlög til allra lista og menningarstarfsemi landsins utan stofnana 0,5% og tæplega þó af útgjöldum fjárlagafrv. Varla getur það nú talist ofrausn. Að þessu mætti færa ótal rök þó að þau þættu auðvitað mismunandi merkileg í þeirri efnishyggju sem nú ríkir og hefur gert um nokkurt tíma og sífellt fer vaxandi. Þau rök sem menn hlýða helst á hér eru af þjóðernislegum toga. Enginn vill kenna sig við þá léttúð að vilja ekki veg íslenskrar tungu sem mestan eða leggjast gegn varðveislu og viðhaldi íslenskrar menningar. Hitt heyrir maður sjaldan nefnt hversu mikils virði skapandi iðja er öllum, bæði þeim sem hana stunda og ekki síður þeim sem hennar njóta.
    Margt væri hér með öðrum brag ef sem flestum væru búin skilyrði til listiðkunar, ekki með það fyrir augum að allir verði listamenn heldur til að leysa úr læðingi hugvit og hugmyndafrjóvgi sem hverju þjóðfélagi eru nauðsynleg á tímum örra breytinga. Hugmyndir manna um framtíðina eru oftar en ekki séðar með augum listamanna. Enginn einstaklingur getur kynnt sér allt eða þekkt allt af eigin reynslu. Þar gegna listir stóru hlutverki. Þær auka mönnum víðsýni og þekkingu á högum, tilfinningum og hugsunum annarra og stuðla þannig að auknum skilningi manna og þjóða í milli og þar er einmitt lykillinn að friði þjóða í milli. Listir geta þegar best lætur lyft huga mannsins á áður óþekkt stig, opnað nýjar víddir, glatt og upphafið. Ég ætla mér ekki þá dul að útskýra eðli og tilgang lista. Það hefur engum tekist. En einhverra hluta vegna leita allir menn, hvar sem þeir eru staddir og hvernig sem á stendur, að einhverju æðra og fegurra en því hversdagsamstri sem er hlutskipti flestra jarðarbúa. Þessa viðleitni mannsandans má ekki drepa í dróma heldur ber að ýta undir hana eins og frekast er unnt þó mönnum kunni í augnabliksblindni að finnast erfitt að leggja mikið fé í eitthvað sem erfitt er að skilgreina hvernig skilar sér í mælanlegum verðmætum. Því miður verður ekki sagt að við stöndum myndarlega að leitun þessara verðmæta hvort heldur er í uppeldi og menntun barna okkar, í því að gera öllum almenningi kleift að njóta eða stunda listir

á ódýran, aðgengilegan og margbreytilegan hátt né með myndarlegum stuðningi við listamenn og listastofnanir landsins. Ef sá stuðningur væri með öðrum hætti segir mér svo hugur um að ýmislegt annað mundi sparast og ávinningar yrðu líka margir, t.d. með stórauknu hugviti.
    Ég held þessar menningarvitaræður, en einhverjir hafa gefið þeim þá nafngift, með reglulegu millibili og gæti flutt þær margar og langar við mörg tækifæri en af menningarlegri tillitssemi læt ég staðar numið af virðingu fyrir tíma og áhuga hv. þm.
    Í fyrra deildum við þeirri hækkun sem við lögðum til á fyrrgreindum lið niður á hina ýmsu undirliði. Nú háttar svo til að þó að við séum að sjálfsögðu ánægðar með þá viðleitni sem sýnd er með hækkun þessa liðar, þó að við viljum þar betrumbæta, erum við ekki ánægðar með hvernig hækkuninni er deilt niður á hin ýmsu verkefni. Þó enginn sé ofsæll af sínu skortir rök fyrir mjög misjafnri hækkun liða. Ég ætla ekki að nefna nein dæmi því að það má auðveldlega snúa þeim orðum á þann veg að ég leggist móti einstökum hækkunum. Sú er ekki raunin, heldur vægi einstakra liða. Sú spurning hlýtur að vakna hvað ræður stórlegum mun á þessum hækkunum og sem oftar leiðir hugann að því að gera þarf talsverðar breytingar á þessum lið, stokka upp og vanda miklu betur til verksins. Brýnt er að úthlutanir verði ekki að vana, það sé ekkert sjálfkrafa frá ári til árs. Sífellt endurmat verður að fara fram til að tryggja að fjárveitingar standi hvorki nýgræðingum fyrir þrifum né safaríkum gróðri meðan lífinu er e.t.v. haldið í skrælnuðum og trénuðum jurtum.