Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Eins og flestum alþingismönnum ætti að vera kunnugt og þjóðinni allri eru í gildi lög um verðstöðvun og bindingu launa um tiltekinn tíma. Eftir því sem best er vitað hafa allur almenningur og fyrirtæki í landinu virt þessi lög á meðan þau eiga að gilda. En það er þó ein stofnun sem hefur ekki tekið mark á þeim og það eru þeir sem settu lögin sjálfir, hæstv. ríkisstjórn, því hún hefur farið offari í að hækka allt, alla skatta á almenning í landinu og hefur eiginlega ekki þurft að spyrja neinn. Það hefur með lagakrókum verið hækkað bensín og bílar að undanförnu en einhver feimni hefur verið ríkjandi hvað varðar hækkun á brennivíni svo að þetta afkvæmi hæstv. fjmrh. er nú komið á dagskrá um að heimila honum að hækka brennivín.
    Í sjálfu sér er ekkert við því að segja þó að vín hækki, en hitt er höfuðatriðið, allar aðrar hækkanir sem hafa átt sér stað og það að hér er verðstöðvun. Hjá flestu fólki væri það virt og sérstaklega af þeim sem setja og gefa úr bráðabirgðalög um verðstöðvun og taka kjarasamninga úr gildi. Og allt er þetta gert undir heitinu ,,jafnréttis- og félagshyggja``. Í nafni jafnréttis og félagshyggju á núna að hækka bensínið, sennilega á mánudag eða eftir hádegi í dag eða þegar þetta er orðið að lögum eða þess háttar. ( Fjmrh.: Það er búið að hækka bensín.) Já, það er búið að hækka bensín. Þá þurfti ekki heimild.
    M.ö.o.: hæstv. ríkisstjórn fer ekkert eftir því sem hún sjálf leggur til og ætlar þjóðfélagsþegnunum að fara eftir. Það er höfuðatriði þessa máls. Þetta er að mínum dómi siðleysi, algert siðleysi, en sérstaklega finnst mér andstyggilegt að kenna þetta við jafnrétti og félagshyggju.