Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Við höfum heyrt nál. lesin upp og ég tek undir það, sem kom fram hjá 2. minni hl., að það er ekki skemmtilegt af Alþingi að afhenda hverjum sem er, það er alveg sama hverjum það er, óútfyllta víxla. Mér finnst alveg nauðsynlegt að það komi fram hér á Alþingi, þó svo að ríkisstjórnin verði að veita þær upplýsingar í trúnaði og á lokuðum fundi, hvað stendur til að hækka áfengi mikið. Um hvað er ríkisstjórnin að biðja? Mér finnst alveg útilokað að Alþingi samþykki út í bláinn hækkanir af þessu tagi.
    En þá vil ég líka spyrja af gefnu tilefni hver álagningin er nú þegar á áfengi. Ég hef grun um að innkaupsverð á kassa af áfengi af hvaða tegund sem er sé jafnvel minna en útsöluverð á einni flösku, að álagning sé orðin yfir 1000--1200%. Hvað ætlar ríkið að ganga langt? Það er verið að tala um að gera þetta og gera hitt öðruvísi en áður. Af hverju hættir ríkið ekki að fjárfesta í áfengum drykkjum? Það er á móti vilja meiri hluta þjóðarinnar að ríkisstjórnin noti ríkisfé og almennt fé til að fjárfesta í vörubirgðum innflytjenda, eins og ég hef verið að benda á, t.d. á áfengi. Af hverju tekur Áfengisverslunin sín gjöld ekki í tolli og lætur innflytjendur um að fjármagna sínar birgðir og dreifa sinni vöru og ríkið hafi engan fjármögnunarkostnað og ekkert annað en tekjur? Þá er hægt að lækka verðið en hafa meira nettó út úr viðskiptunum. Þetta er alveg furðulegur vítahringur. En ég ítreka að ég tel alveg óhæft að afhenda óútfylltan víxil á þennan hátt og það í verðstöðvun. Eins og hér kom fram er það náttúrlega siðleysi gagnvart öllum öðrum sem stunda viðskipti á hvaða sviði sem er.
    Svo koma blessaðar konurnar með sitt nál. Ég skil þær ekki. Ég skil þær alls ekki vegna þess að það er ekki forvarnarstarfsemi að hækka verð á áfengi. Þeir sem hingað til hafa ætlað að fá sér áfenga drykki hafa fengið þá hvað sem það hefur kostað og ef það er búið að loka áfengisútsölunum hafa þeir í fortíðinni keypt það á dýrara verði annars staðar. Þetta er bara mannvonska gagnvart fólkinu almennt hvað snertir þessar landbúnaðarafurðir eins og oft kemur fram. (Gripið fram í.) Þetta eru landbúnaðarafurðir, elskan mín, annars staðar. ( KH: Ættum við að greiða það niður?) Nei, en rökin að það sé forvarnarstarfsemi að hækka ölið er rangt, það er það sem ég er að segja, og þetta er ekki heilbrigðissjónarmið heldur. Það er rangt vegna þess að það fara bara meiri peningar frá heimilunum, frá fátækum heimilum og frá matarkaupum en ella mundu kannski gera. Og annað líka. Það eru engin rök að segja að það sé ókostur og láta þar við standa að verð á áfengi og tóbaki vegi þungt í framfærslugrunninum og leiði til hækkunar á vísitölu framfærslu og lánskjara og auki verðbólguna. Allt þetta er samþykkjanlegt af Kvennalistanum þrátt fyrir þessa ókosti. Þetta eru ekki rök. En það er afskaplega sjaldan sem ég hef séð einhver rök í skoðunum Kvennalistans og það breytir engu og síst af öllu þegar ábyrgð hefur átt að hvíla á þeirra

herðum í stjórnarmyndunum eða einhverju slíku. Þá hafa þær hlaupið í felur, skulum við segja. (Gripið fram í.)
    Virðulegur forseti. ( Forseti: Ræðumaður hefur orðið.) Já, ég er að tala til forseta núna. Ég var að skoða þingsköp í gær að gefnu tilefni og bið forseta að leiðrétta mig ef það er rangt sem ég segi. Það er ekkert í þingsköpum sem bannar frammígrip. Það gæti verið óþægilegt ef um samtöl væri að ræða en frammígrip eru afskaplega eðlileg í öllum þingum heimsins og á hvaða fundum sem er þannig að á meðan ég er í ræðustól er allt í lagi að kalla fram í. Ég tel að það sé ekki brot á þingsköpum. En ég heyrði ekki hvað fulltrúi Kvennalistans, sem skrifaði undir nál., kallaði fram í svo ég get ekki svarað henni.
    Ég fór fram á það við forseta að á þessum fundi yrðu tekin fyrir tvö frv. sem ég hef lagt fram, en því var algjörlega neitað, svo mikið lá á að hafa aðeins eitt mál, bara brennivínið, hækkun á áfengum drykkjum. Frv. sem snerta gamla fólkið og þurfa að komast á dagskrá til þess að hljóta afgreiðslu um leið og fjárlögin, eins og brennivínið, var hafnað. Forseti hafnaði að taka þau á dagskrá. Þetta eru tvö frv. sem fjalla annars vegar um að taka aftur upp endurgreiðslu á sköttum síðasta starfsárs ellilífeyrisþega og hins vegar að færa fasteignaskatta ellilífeyrisþega niður í 0,95% í staðinn fyrir þá okurhækkun sem hefur átt sér stað með viðbótargjöldum og líka Þjóðarbókhlöðuframlagi sem fólkið þolir ekki og ég hef áður getið um hér í ræðu. En brennivínið skyldi hafa forgang. Gamla fólkið má bíða. Ég verð að harma það.
    En virðulegur forseti. Ég óska eftir svörum um hve hækkunin á að vera mikil. Hér fyrir stríð þegar ég var þingsveinn kom það iðulega fyrir að þingfundum var lokað þegar upplýsingar um afgreiðslu mála máttu ekki berast út vegna þess að það gat komið sér illa fyrir þjóðfélagið í heild. Ég skil vel þörfina á leyndinni yfir hækkunarprósentunni og þess vegna óska ég eftir að þær upplýsingar sem ég hef farið fram á verði gefnar á lokuðum fundi: Hvað er sá víxill hár sem verið er að fara fram á að fjmrn. fái til að fylla út og hver er álagningin fyrir og hver verður hún á eftir? Er þetta farið að skipta svo mörgum prósentum að það sé farið að teljast í þúsundum %, álagningin? Þá sér hver maður að svona er ekki hægt að halda áfram.