Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Hér er til umfjöllunar frv. sem með nokkrum sanni má segja að sé eins konar kóróna á stjórnarstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar. Tveir hv. þingdeildarmenn hafa borið fram í þessari umræðu fyrirspurn til hæstv. fjmrh. sem hann neitar að svara. Hér er um að ræða eitt augljósasta dæmið um það að ríkisstjórn Íslands er eini aðilinn í þjóðfélaginu sem ekki virðir og neitar að virða þá verðstöðvun sem verið hefur í gildi. Kaupmenn hafa samkvæmt orðum hæstv. fjmrh. sjálfs tekið á sig allar byrðar og allan kostnaðarauka af gengislækkun sem fram fór í lok septembermánaðar. Almenningur í landinu hefur tekið á sig kjaraskerðingu þó að hæstv. ríkisstjórn hafi ekki enn sem komið er gert neinar ráðstafanir til að tryggja rekstur undirstöðuatvinnuveganna. Og málgagn hæstv. fjmrh. ræðst á hæstv. sjútvrh. svo til á degi hverjum fyrir það að vera boðberi kjaraskerðingar. Hæstv. fjmrh. hins vegar ber einn höfuðábyrgð á því hvernig þessi kjaraskerðing er og hversu mikil hún er án þess að hér hafi verið gerðar ráðstafanir til að treysta undirstöður framleiðslunnar í landinu. Almenningur hefur tekið þessar byrðar á sig, atvinnureksturinn hefur samkvæmt ummælum hæstv. fjmrh. sjálfs tekið þessar byrðar á sig, en hann einn segir: Lögin ná ekki til mín. Þau lög sem ég set öðrum ná ekki til mín. Og þegar þessi stjórnarstefna er kórónuð með flutningi frv. um það að veita hæstv. fjmrh. undanþágu frá verðstöðvun til að hækka áfengi neitar hæstv. ráðherra að svara spurningum þess efnis hversu mikil þessi hækkun er sem tveir hv. þingdeildarmenn hafa borið fram.
    Nú kann einhver að segja að það megi ekki gefa slíkt upp vegna þess að það geti haft óeðlileg áhrif á viðskiptin. Það liggur þó fyrir að hæstv. ráðherra er búinn að tilkynna opinberlega fyrir lifandi löngu að verð á þessum vörum eigi að hækka svo það getur varla talist ástæða fyrir þögn hæstv. ráðherra.
    En hér er verið að taka ákvörðun í verðstöðvun um hækkun á vöru sem mælist í vísitölu framfærslukostnaðar, hefur áhrif á lánskjaravísitölu og þar með á afkomu fólksins í landinu og atvinnufyrirtækjanna. Og það liggur núna fyrir eftir nokkurra vikna hlé í verðbólgu, þar sem verðbólga hefur engin verið, að hún verður yfir 20% næstu þrjá mánuði einvörðungu vegna ákvarðana sem hæstv. fjmrh. hefur tekið. Þá fer verðbólgan yfir 20%. Og húsnæðisstefna Alþfl. kemur fram í því á sama tíma og verðstöðvun ríkir í landinu og ríkisstjórnin er að dæma kjaraskerðingu yfir fólkið án aðgerða í þágu atvinnuveganna að skuldir húsbyggjenda hækka um nálega 1,5 milljarða vegna aðgerða Alþb. í núverandi hæstv. ríkisstjórn undir forustu núverandi formanns Alþb. --- um 1,5 milljarða. Sú ákvörðun sem ríkisstjórnin er að knýja hér fram í verðstöðvun hefur enn áhrif í þá veru að auka á þessar skuldabyrðar vegna áhrifa á lánskjaravísitölu og það er býsna mikil ósvífni af hæstv. ráðherra að neita að svara þeirri spurningu hversu mikil þessi hækkun er, hvaða áhrif hún hefur á framfærsluvísitöluna, hvaða áhrif hún

hefur á lánskjaravísitöluna og t.a.m. hvaða áhrif hún hefur á skuldagreiðslur húsbyggjenda í verðstöðvun.
    Það er svolítið kyndugt þegar sett er á verðstöðvun og samstaða fólksins í landinu er svo mikil að það eru allir reiðubúnir að taka byrðarnar á sig, enginn skorast undan merkjum, enginn af forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar hefur skorið upp herör, enginn af forustumönnum atvinnurekenda hefur gengið gegn þessari meginstefnu að taka á sig byrðar og þeir hafa fengið lof og prís hjá hæstv. fjmrh. fyrir að velta ekki kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Í fyrsta skipti í sögunni verður verðbólgusprenging eingöngu vegna ákvarðana ríkisstjórnar þar sem ekki er hægt að benda á að kjarasamningar hafi leitt til aukinnar verðbólgu eða benda á að forstjórar og kaupmenn hafi velt kostnaðarhækkunum út í verðlagið. Yfir 20% verðbólga á næstu þremur mánuðum stafar einvörðungu af áhrifum aðgerða hæstv. fjmrh. Það frv. sem hér er til umræðu, þó að það sé kannski ekki veigamikið, er verðug kóróna á þessa stjórnarstefnu, verðug kóróna fyrir hæstv. fjmrh. til að bera, verðugt tákn fyrir félagshyggjuna og jafnréttishyggjuna, veglegt dæmi um hið eiginlega innihald félagshyggjunnar, en lágmark að þingdeildarmenn geti krafið hæstv. fjmrh. svara við svo einfaldri spurningu sem hér hefur verið borin fram.