Matthías Bjarnason:
    Herra forseti. Ræða hæstv. fjmrh. gefur mér tilefni til að standa hér upp. Hann sagði að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefði tekið á sig gengisbreytingar bæði í september og þá væntanlega núna. Mátti ekki Áfengis- og tóbaksverslunin hækka eins og aðrir vegna hækkandi verðlags á innkaupum sínum í íslenskum krónum? Því var það þá ekki gert? Við höfum ekkert á móti því að það sé gert, alls ekki. Um það getur verið full samstaða. Ég skil ekkert í því af hverju hæstv. fjmrh. hefur glatað þessum tekjum á þessu tímabili. Ég ætlast ekkert til af honum að hann sé eitthvað betri en aðrir innflytjendur. Vitaskuld átti hann að breyta verðlaginu þá strax sem þessu nam --- eða kannski fannst hæstv. fjmrh. ekki taka því, það væri svo lítið, hækkun á innfluttu víni og tóbaki miðað við útsölu. Það er kannski á bak við þessi orð.
    Mér fannst hæstv. fjmrh. snupra okkur, minni hlutann í fjh.- og viðskn., svo maður er hálfpartinn beygður eftir að vera snupraður fyrir að vera svona miklu lélegri en kollegar okkar í Ed. Ég vona að ég megi fyrir mína hönd og hv. 5. þm. Vesturl. óska eftir því við hæstv. forseta að nefndin komi aftur saman á milli 2. og 3. umr. til að fá upplýsingar hjá hæstv. fjmrh. ( Fjmrh.: Sjálfsagt mál.) Mér finnst það alveg sjálfsagt mál og það væri ánægjulegt ef væri hægt að koma þessum boðum til formanns hv. fjh.- og viðskn. sem er ekki í salnum eftir að hann flutti sína ítarlegu ræðu með sínum röksemdum fyrir þessari heimild samkvæmt frv., enda var hann varla sestur niður á nefndarfundi þegar hann lagði til að frv. yrði samþykkt og nefndarálitið var svo að segja tilbúið svo að það verður ekki hægt að segja annað en að brennivínshækkanir gangi greiðlega í gegnum þessa virðulegu stofnun. En það gildir kannski ekki alveg um öll önnur mál sem eru meiri háttar, því miður.
    Ég endurtek að það sem skiptir hér verulegu máli er brot á því sjónarmiði að hér á að ríkja verðstöðvun, en ekki hvort menn þurfa að borga þetta eða þetta mörgum krónum meira fyrir brennivínsflösku eða þá hvort létt vín eigi að hækka minna en sterk vín. Sumir sem vilja verða fullir drekka þá þess meira af léttum vínum ef þeir fá ekki hitt. Það er líka til í dæminu. En aftur aðrir sem vilja verða lítið fullir láta sér kannski nægja þessi léttu vín. Það verður gaman fyrir kvennalistakonur og mína ágætu vinkonu 10. þm. Reykn. að fara nokkru nánar út í þetta áður en að lýst er yfir stuðningi við það að brjóta það prinsipp að hér er verðstöðvun og launastöðvun í landinu. En vitaskuld ræður hver sínum næturstað og það ræður hver því hvaða frv. hann styður. Því er ég alveg með á. Ég hefði ekkert haft á móti því ef hér væri ekki verðstöðvun þó að hæstv. fjmrh. hækkaði vín og tóbak, en ég hef á móti því af þeirri ástæðu sem ég hef gefið og það er prinsippástæða en ekki hvaða tegund vöru er rætt um. Það eru þeir skattar og miklu skattahækkanir sem hafa átt sér stað að undanförnu og þjóðin er ekki farin að átta sig á enn þá sem ég ber kvíðboga fyrir.
    Vísitala og lánskjaravísitala koma til með að hækka

um allt að 20% vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ríkisstjórnar sem gefur út bráðabirgðalög um verðstöðvun. Yfirleitt hafa verkefni ríkisstjórna á undanförnum áratugum verið þau að vinna gegn þrýstihópum sem hafa staðið að því að sprengja upp verðlag í landinu. En núna bregður allt öðruvísi við. Núna eru það ekki þrýstihóparnir eða sérhagsmunahópar í landinu sem eru að hækka verðlagið heldur sjálf ríkisstjórnin. Hún er sökudólgurinn. En áður þurftu ríkisstjórnir að glíma við ýmsa sökudólga í þjóðfélaginu. Þessi ríkisstjórn er því alveg sérstæð, enda er hún ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju. Það skiptir afskaplega miklu máli hvort það er ríkisstjórn jafnréttis og félagshyggju sem níðist á hinum almenna skattborgara og manni í þessu landi.