Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Tillaga þessi er 1. liður í brtt. á þskj. 418 frá Guðmundi Ágústssyni. Að gefnu tilefni varðandi þessa tillögu vil ég taka eftirfarandi fram:
    Að mínu frumkvæði í minni hl. fjvn. lét minni hl. undirbúa drög að tillögum um sparnað í ríkisútgjöldum. Tillaga sú sem hér er á þskj. 418 er úr vinnuskjali sem var í sambandi við vinnu að þessum undirbúningi og úr fórum minni hl. fjvn. Það vinnuskjal var ekki fullunnið né tillöguflutningur af þessu tagi í heild. Eftir að hæstv. ríkisstjórn hafði komið fram þeim skattaálögum sem raun ber vitni og lagðar eru á þjóðina var það sameiginleg niðurstaða fulltrúa minni hl. í fjvn. og fulltrúa stjórnarandstöðuflokkanna að þessar tillögur skyldu ekki fullunnar eða fluttar að sinni. Það er því ekki tilefni til þess að mínu áliti að samþykkja þessar tillögur nú og með óvenjulegum hætti eru þær hér á borð bornar og settar fram. Ég greiði ekki atkvæði.