Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég geri ekki mikið úr mismæli hv. þm. Guðmundar Ágústssonar. Hitt þykir mér verra að hann fór með ósannindi í sínu máli um upphaf þeirra tillagna sem hér eru fluttar. Mér er alveg óhætt að skýra frá því að áður en ég greindi fulltrúa Borgfl. í fjvn. frá þeim undirbúningi sem ég hafði í huga hafði ég rætt það við fulltrúa Kvennalistans, en síðar við fulltrúa Borgfl. sem stóð að þessu heils hugar eftir að við hann var rætt en hann hafði ekki um það frumkvæði. Það er ástæðulaust að deila um slíkt og ástæðulaust að koma hér upp og fara með ósannindi.