Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Guðni Ágústsson:
    Hæstv. forseti. Hér kemur til atkvæðagreiðslu tillaga um að fjölga þeim listamönnum, sem heiðurslaun hljóta, um fjóra. Allir þessir menn og þúsund í viðbót eru verðir þessara launa. Hverjum þessara manna eru greiddar 600 þús. kr. Flestir þeir listamenn sem þessarar náðar njóta af hálfu Alþingis eru ellilífeyrisþegar, fólk komið yfir sjötugt. Allir sem hér er gerð tillaga um að bæta við eru einmitt á þeim aldri. Það er vandi að skilja hafra frá sauðum. Það er klúður að þingnefnd skuli þykjast þess umkomin í kosningu að velja heiðurslistamenn. Þeir eru margir sem aldrei hljóta náð sem eru þess verðir. Það sýnir þetta val. Heiðurskóróna þess fullorðna á að vera sæmd og ef þjóðfélagið vill heiðra þá sérstaklega er fálkaorðan enn til staðar. Það er ekki hægt að gera upp á milli listamanna með þessum hætti og það er ástæðulaust. Starfslaun til yngri listamanna væru verðugri.
    Hæstv. forseti. Ég tek ekki þátt í þessari atkvæðagreiðslu.