Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegur forseti. Það hefur ævinlega verið mín skoðun og flestra annarra listamanna að úthlutun launa eða fjár til listamanna ætti ekki að vera í höndum Alþingis að frekara leyti en því að ákvarða upphæð og síðan er miklu eðlilegra að aðrir fjalli um hvernig því fé er útdeilt. Nú hefur það sannast með mjög áhrifaríkum hætti að þetta er rétt skoðun. Ég er glöð að hæstv. menntmrh. skuli vera sammála mér að það þurfi að endurskoða þetta fyrirkomulag.
    Hæstv. forseti tók af mér það ómak að minnast á þriðja verðlaunahafann, Hafliða Hallgrímsson, sem ekki hefur þarna komið til álita. Jafnframt vil ég mótmæla því að Norðurlandaráðsverðlaun séu endanlegur mælikvarði á þá listamenn sem Alþingi í þessu tilfelli ákveður að hljóti heiðurslaun. Þar ræður mat þeirra tveggja nefnda sem Alþingi hefur ákveðið að skuli gera það. Enn fremur vil ég mótmæla þeim fréttaflutningi, sem verið hefur í blöðum, sem er að mínu mati mjög ósmekklegur, þar sem dregin eru fram í dagsljósið úrslit þessarar atkvæðagreiðslu í nefndunum og látið í veðri vaka að þar hafi verið ósamkomulag. Það er ekki rétt og ég skora á aðra nefndarmenn að koma hér upp og lýsa því ef öðruvísi hefur verið því að það var fyrir fram samþykkt, fyrst búið er nú að láta uppi hvernig að þessu er staðið, að það skyldi fara fram skoðanakönnun og að lokinni skoðanakönnun skyldi fara fram atkvæðagreiðsla. Nákvæmlega þannig fór þetta fram og úrslit voru eins og koma fram á þessu skjali og þessi úrslit eru á engan hátt höfnun á öðrum listamönnum.
    Hv. 5. þm. Suðurl. Guðni Ágústsson lýsti því hér áðan að það væri nær að þessir menn fengju starfslaun. Ég er þeirrar skoðunar að einmitt meðan listamenn eru á besta aldri og hafa enn þá fullan skapandi kraft sé eðlilegt að þeir njóti starfslauna, en þá verður líka að standa að þeim með myndarlegum hætti og vonandi getur maður þá treyst því að a.m.k. hv. 5. þm. Suðurl. standi að því í næsta skipti með myndarlegri hætti en nú. Ég segi já.