Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Albert Guðmundsson:
    Herra forseti. Ég lýsi ánægju minni með störf nefndarinnar í þetta sinn eins og áður. Ég held að úthlutunarnefnd Alþingis hafi unnið gott og þarft starf. Ég sé engan á þessum lista sem er ekki að fullu verðugur þess heiðurs sem Alþingi er að sýna hverjum og einum af þeim 17 sem hér eru. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra menntamála að það mættu vera fleiri nöfn á þessum lista, en ég tel að umræður eins og hafa átt sér stað hérna hjá þingmönnum sem eru velviljaðir málinu geri meira til hins verra en til hins betra. Slíkar umræður eiga að vera og hafa alltaf verið frá því að ég kom á Alþingi takmarkaðar við nefndarstörfin en ekki við sali Alþingis. En ég segi já.