Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Ég hef æðilengi starfað í menntamálanefndum bæði sem varaþingmaður og reyndar í menntmn. Nd. stundum og Ed. stundum. Það hefur ætíð verið fjallað um heiðurslaun til listamanna af báðum nefndunum í báðum deildum og þar hefur til hins ýtrasta verið leitast við að ná samkomulagi. Hér fyrrum voru heiðurslaunin veitt átta listamönnum af nefndum þingmanna. Síðan hefur þeim fjölgað og ég held að það sé ekki af því góða. En ef við viljum breyta þessu fyrirkomulagi á að ræða það við annað tilefni en þetta og ekki að draga ákveðna listamenn inn í þær umræður. Ég tel mjög miður að hæstv. menntmrh. sjálfur skyldi opna svona umræðu. Það er honum ekki til sóma. Ég segi já.