Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegi forseti. Sú hækkun á framlögum til Kvennaathvarfsins sem þessi tillaga gerir ráð fyrir er miðuð við það að 70% af fjárhagsáætlun athvarfsins vegna reksturs komi úr ríkissjóði. Miðað er við að sveitarfélög greiði 30% rekstrarkostnaðar. Ég legg áherslu á að hér er aðeins um rekstrarkostnað að ræða. Viðhald húss og annar kostnaður er greitt af framlögum almennings, fyrirtækja og félagasamtaka. Ekki þarf að fjölyrða um mikilvægi Kvennaathvarfsins í Reykjavík fyrir konur sem hafa verið beittar líkamlegu og/eða andlegu ofbeldi. Sú upphæð sem hér er lögð til til hækkunar er lágmarksupphæð. Ríkisstjórn jafnréttis hlýtur að styðja þessa tillögu sem sjálfsagt réttindamál kvenna. Ég segi já.