Fjárlög 1989
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Þorsteinn Pálsson:
    Frú forseti. Þegar hæstv. ríkisstjórn lagði fjárlagafrv. fyrir Alþingi var augljóst að fyrir því voru engar efnahagslegar forsendur. Það var ekki í neinum tengslum við þær raunverulegu aðstæður sem við búum nú við í efnahags- og atvinnumálum. Í meðferð frv. á hinu háa Alþingi hefur komið fram að ríkisstjórnin hefur ekki treyst sér til þess að afgreiða málið í einhverju samhengi við hinar raunverulegu aðstæður í efnahags- og atvinnumálum. Frv. er af þessum sökum þannig úr garði gert að fyrir því eru engar forsendur. Þar að auki er ljóst að vanáætlað er fyrir ýmsum mikilvægum kostnaðarliðum. Í heild fer ekki milli mála að hér er ekki um að ræða eiginlegt frv. að fjárlögum heldur pappírsgagn. Af þessum sökum er útilokað með raunhæfum hætti að taka þátt í afgreiðslu málsins. Af þessum sökum hefur Sjálfstfl. ekki flutt brtt. við þetta frv. Það kom fram þegar í upphafi umfjöllunar um málið á hinu háa Alþingi að Sjálfstfl. var fyrir sitt leyti reiðubúinn til samstarfs við ríkisstjórnarmeirihlutann á Alþingi bæði við útgjaldahlið fjárlagafrv., tekjuöflunarhliðina og efnahagsstefnuna í heild. Ríkisstjórnin hafnaði samstarfi af þessu tagi með öllu. Fyrir því er enginn grundvöllur fyrir alvöruumfjöllun um þetta frv. Af þeim sökum sitja þingmenn Sjálfstfl. hjá við afgreiðslu frv. við lok þessarar umræðu og ég greiði ekki atkvæði, frú forseti.