Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég skal svo sannarlega ekki lengja umræður hér, en mér finnst að mér sé bæði rétt og skylt að tala í örstutta stund og eyða kannski einhverjum af þeim mikla misskilningi sem fram kemur, eins og t.d. sá sem síðasti ræðumaður nefndi, að hér væri í fiskiræktinni um afar fjárfrekan rekstur að ræða. Því er nú öðru nær miðað við til t.d. útgerðarmál o.s.frv.
    Ég fagna því, sem hefur komið fram t.d. hjá ákveðnum hv. þm., Agli Jónssyni og Halldóri Blöndal, að þeir gera sér grein fyrir því eins og ég að þetta frv. er aðeins spor í áttina. Það þarf miklu meira að gera. En ástæðan til þess að ég tel mér líka rétt og skylt að tala hér er sú að ég hygg að það fyrirtæki, sem ég er stjórnarformaður í og heitir Ísnó og starfar á þrem stöðum á landinu, í Kelduhverfi, Vestmannaeyjum og Ölfusi, mundi ekkert þurfa á þessari hjálp að halda. Það eru 20 ár síðan við byrjuðum nokkrir félagar í fiskirækt og núna áratugur síðan við sömdum við Norðmenn um þátttöku, fengum hjá þeim alla tækniþekkingu sem þá var til og höfum fengið síðan og reksturinn, þó hann væri í fimm ár tilraunarekstur, mjög dýr og erfiður þar af leiðandi, er farinn að skila svo góðum árangri að við erum t.d. um þessar mundir að slátra um 400 tonnum af úrvalslaxi, mest á Bandaríkjamarkað, fyrir 150 millj. eða svo. Við vonum að það tvöfaldist núna á þessu ári og síðan áfram. Við höfum fengið afurðalán upp á 37,5% og það nægir okkur og þetta eru allt erlend lán. Við skuldum ekkert í lánum innan lands. Við erum rétt að komast fyrir hornið eftir tíu ár og þeir sem hafa byrjað síðustu 3--4 árin hafa nánast engar tekjur fengið. Það er rétt að reksturinn er fjármagnsfrekur, en fjárfestingin er sáralítil miðað við það sem er t.d. í fiskveiðum sem allir vita, en togari kostar kannski 400 millj. í dag. Það er hægt að byggja ansi stóra stöð fyrir það og arðvænlega.
    Þess vegna get ég með mjög góðri samvisku barist fyrir þessum atvinnuvegi af því að við þurfum ekki á þeirri fyrirgreiðslu að halda sem nú er talað um og höfum í raun og veru aldrei fengið krónu í nokkurn styrk og ég held að við höfum nánast aldrei fengið nein innlend lán. Það litla sem við höfum fengið hjá lánastofnunum hefur verið verðtryggt eða gengistryggt.
    Hlutafé er auðvitað meira í þessu félagi en öðrum þó að hægt væri af stað farið. En það sem hefur gerst er hörmungarsaga þegar bæði ég og aðrir hafa hvatt menn mjög til að leggja út í þennan rekstur í von um að lánafyrirgreiðsla, svo að það orð sé notað, yrði eitthvað svipuð og hjá öðrum atvinnuvegum. Ég vil helst kalla þetta lántökur og vexti í staðinn fyrir neikvæða raunvexti eða þá vaxtafót eins og í gamla daga og rétt til að vera á alþjóðlegum markaði og taka þau lán sem menn þurfa. En hjá öðrum fyrirtækjum er það svo að þau hafa engar tekjur haft og þau voru hvött til þess, eins og ég sagði, af mér og öðrum og ég minnist þess að okkar hæstv. forseti og þáv. og núv. forsrh. við hittumst einmitt inni í þessu herbergi og sömdum um það þrír að reyna að

beita okkur fyrir því að forsrn. skipaði nefnd á þeim tíma vegna átaka sem voru um hvort hér væri um landbúnaðarmál að ræða eða sjávarútvegsmál til að leysa þann ágreining, koma í veg fyrir að sá ágreiningur yrði. Við bjuggumst við því að þessi rekstur fengi eitthvað ámóta og t.d. iðnaður og engum datt í hug að hann þyrfti jafnmikla peninga og t.d. sjávarútvegur. Þess vegna fóru menn í gang, sumir auðvitað með allt of lítið eigið fé og mjög margir, en það er misskilningur að það hafi allir sem út í þennan rekstur hafa farið gert það af vanþekkingu. Það er mjög mikið af hámenntuðum mönnum og reyndum ungum mönnum og konum í landinu sem hafa alla sömu þekkingu og það fyrirtæki sem lengst er komið í Noregi, sem er Norsk Hydro og Mowi, félagar okkar, sem eiga 43% í okkar félagi. Sú þekking er öll komin inn í landið. Hún er öll á boðstólum. Og auðvitað gengur hún út frá okkar stöðvum til allra sem það vilja vita og sjá.
    En menn sem eru að berjast í þessu eru að verða gjaldþrota af því að þeir hafa engin lán fengið sem hægt er að nefna því nafni. Það er alveg rétt að þarna hafa orðið mistök í kerfinu, mjög mikil tregða. Og ég verð að segja það eins og það er að mér finnst að landbrn. hafi gengið of langt í eins konar tilraunum til að setja nýjar reglur og flóknar mjög svo. Þess vegna held ég að það sem hafi bjargað þessu fyrirtæki sem ég leyfi mér að nefna, ekki til þess að hæla mér heldur til þess að menn viti að þetta er hægt, sé að við höfum aldrei þurft að sækja neitt undir neinn nema það að við fengum leyfi til að flytja inn norsk hrogn fyrir fjórum árum og það vill svo til að núna er verið að kreista þennan norska fisk, sem er núna milli 50 og 60 punda, sem mönnum finnst nú voðalega stórt og eru skíthræddir við að eitthvað af því veiðist á stöng, veiðimennirnir mundu líklega bara henda honum, ekki vilja sjá svoleiðis fisk, og það eru um þúsund lítrar eða 5 millj. hrogn. Það þykir illa á haldið ef ekki helmingurinn af 5 millj. hrognum verður að stórfiski. Við höfum á boðstólum núna hrogn úr fiski sem er kannski eini alheilbrigði norski stofninn sem til er í veröldinni því að eftir að við fengum þessi hrogn og þau hafa verið auðvitað í sóttkví hafa komið upp mjög alvarlegir sjúkdómar í Noregi sem ekki þekkjast hér. Ef það ætti að drepa þennan atvinnurekstur núna með því að
gera ekkert fyrir hann nálgast það landráð, finnst mér.
    Hitt er rétt að þetta frv. nær mjög skammt og ég held og vil leggja á það megináherslu að við þurfum að breyta þeim lögum, sem væntanlega verða samþykkt núna á eftir, á þessu þingi. Það er hægt að breyta þessum lögum á morgun ef þing sæti. Ég held að það séu svo miklar ágallar á þeim og ég er ekki að ásaka einn eða neinn fyrir það. Þeir eru svo margir að ég held að það verði að láta breyta þessum lögum.
    Hæstv. ráðherra ætlar að lofa okkur að fylgjast með reglugerðabreytingum og öðru slíku. En það sem ég er að leggja áherslu á er að vera ekki með of mikið af slíkum reglum, ekki of flókna hluti, leyfa einföldum hlutum að vera einfaldir. Þá er borgið

kannski bara helmingnum af þeim stöðvum sem fyrir eru.
    Við höfum líka lært af mistökunum. Það er það einkennilega að menn læra líka af mistökum. Og það voru auðvitað mistök hjá sumum að fara af stað með of lítið eigið fjármagn. ( K P: Menn læra mest af mistökum.) Já, já, menn læra mest af mistökum. Við vorum nánast þekkingarlausir fyrir tíu árum þegar við fengum alla þessa þekkingu frá Norðmönnunum sem voru tíu árum á undan okkur og eru jafnfætis okkur út af fyrir sig núna í þessu fyrirtæki. Norsk Hydro er með stöðvar í Noregi, þær stærstu, með stöðvar á Írlandi og í Skotlandi og á Íslandi. Þessi hópur hittist alltaf öðru hverju, skiptist á öllum upplýsingum. Þær eru allar komnar í landið. En það sem hefur háð öðrum er fjármagnsskortur, fjármagnssvelti hreint. Það má vel vera að það yrðu að vera þau mörk að allt yrði að vera 50% lán, 50% eigið fé eins og hefur verið í okkar fyrirtækjum. En það er bara ekki venja á Íslandi. Iðnaðurinn fær bæði rekstrarfé og góð iðnfyrirtæki fá svona 50% í Iðnlánasjóði eða Iðnþróunarsjóði. ( HBl: Útflutningslánasjóði.) Útflutningslánasjóði o.fl. Það má ekki drepa hugsjónamenn sem eru að byrja núna, hafa byrjað fyrir 3--4 árum, niður þannig að þeir sjái enga glætu. Það sem segir mér að það verði að samþykkja þetta frv. núna er að annars mundi svartsýnin verða alger og það vita bæði núv. hæstv. landbrh. og fyrrv., sem vissulega eru áhugamenn um þetta. Og hvað með alla þá erfiðleika sem fyrrv. landbrh. þurfti að glíma við, baráttuna við kerfið, þessa peningaskömmtum, vitleysingapeningaskömmtun? Auðvitað eiga peningar að vera frjálsir. Það er það eina sem á að vera frjálst. Menn geti tekið óháð lán ef þeir geta ábyrgst þau sjálfir.
    Þessu verður að linna. Og menn eru að fara á taugum vegna þess að þeirra starf í fimm ár, sumra lengur, er allt að hrynja fyrir þröngsýni stjórnvalda, ekki pólitíkusa heldur kerfiskarla sem öllu vilja ráða og allt þykjast vita þó að þeir viti kannski ekki neitt.
    En þetta er ekki aðalatriðið, laxinn og það. Það er smápeningur. Við getum vel farið í 40 þús. tonn af laxi á næstu 6--7 árum sem eru að útflutningsverðmæti --- hvað haldið þið? --- 15 milljarðar kr. Það eru sömu spor og Norðmenn voru í fyrir þremur árum. Það eru 15 milljarðar kr. Allt hreinn gjaldeyrir. Það er engin gjaldeyrisnotkun í fiskirækt þegar búið er að byggja stöðvarnar nema kannski vítamín í fóðrið. Það er hreinn gjaldeyrir. Menn sjá að það er ekkert verið að tala í gríni í þessu efni. En það er aukaatriði. Það sem er að gerast núna er að sjávarfiskarnir verða dýrari. Lúðan er dýrari fiskur í fínustu búðunum í Bandaríkjunum, það hef ég skoðað með eigin augum, en úrvalslax og selst hærra verði. Ísnó, mitt fyrirtæki, fyrirgefið að ég nefni það enn þá, er búið að ákveða í samvinnu við Norðmennina, sem eiga sandhverfustöðvar, þær fyrstu, keyptu tilraunastöðvar í Noregi fyrir tíu árum, að fara út í sandhverfu. Hún selst á helmingi hærra verði en laxinn. Hún selst á 1000 kr. á mörkuðum jafnvel. Þegar fást 10 dollarar

kannski fyrir laxinn sem við erum að flytja út núna, 400--500 kr., nálgast sandhverfan 1000 kr. í heildsölu, bara á markaði. Og þetta eru staðreyndir. Þetta tekur allt tíma. Sandhverfuseiðin sem við erum að fá núna eru ekki orðin söluvara fyrr en eftir 3--4 ár. Auðvitað verður að fjármagna þetta eitthvað í millitíðinni. Það segir sig sjálft. Það tekur líka tíma að smíða veiðiskip og koma því í gagnið o.s.frv. Þetta eru bara tvær tegundir af fiski. Síðan er allur skelfiskurinn eftir, allt það sem hægt er að rækta hér. Það er staðreynd t.d. með sandhverfuna að hún þarf 12--17 gráðu hita sem jafnastan árið um kring. Það getur enginn annar gert þetta í stórum stíl en sá sem hefur jarðhita. Önnur hitaorka er of dýr.
    Þess vegna hljótum við núna að afgreiða þetta mál til þess að við sjáum að Alþingi sé í alvöru að tala um hlutina, það sé ekki bara þykjustuleikur eins og þetta hefur verið. Þrátt fyrir það tal sem stjórnmálamenn hafa reynt er alltaf einhver fyrirstaða, alls staðar verið lok lok og læs, hvort heldur er hafbeit eða eldi í kvíum eða á landi. ( GHG: Best væri að stjórnmálamenn kæmu ekki nálægt þessu. Það væri best.) Best væri auðvitað að hvorki stjórnmálamenn né kerfiskarlar kæmu nálægt þessu, hér væri hreint frjálsræði og sá sem gæti tryggt peningana mætti taka þá að láni hvar sem væri. ( KP: Er ekki best að þjóðnýta þetta bara?) Það eina sem aldrei má gera, það hef ég sagt margsinnis, það eina sem aldrei má gera er að styrkja fiskeldið. Þá fer það á hausinn. Það má aldrei styrkja fiskeldið um einseyring. Það á að borga fulla vexti af sínum
lánum og má aldrei lána meira en svo að það sé nokkurn veginn öruggt að það tapist ekki. Þó þetta frv. sé samþykkt á það ekkert að hjálpa öllum. Sumir eru auðvitað gjaldþrota. Við því er ekkert að segja. En obbinn hefur það þó hann fengi ekki nema helminginn af þeim lánum sem sjávarútvegurinn hefur. Ég sagði áðan: 37,5% eru afurðalánin af tryggingaverði sem eru 2 / 3 af söluverði. Það eru sem sagt 20--24% af okkar söluverði. Það nægir okkar fyrirtæki. Það nægir líka öðrum fyrirtækjum eftir 2--3 ár þegar þau hafa rétt úr kútnum.
    Mér fannst mér vera skylt að segja þetta til þess að menn sjái að frv. á að afgreiða núna bara til að fiskeldismennirnir, sem eru að berjast árum saman, og okkar hæstv. forseti veit manna best hvað hefur verið erfitt að koma þessu í gegnum kerfið, missi ekki algerlega móðinn og segi: Já, já, Alþingi, einn ganginn í viðbót, sinnir ekki mikilvægasta atvinnuveginum. Þess vegna á að gera það og svo breytum við því sem við þurfum í næsta mánuði í samráði við ráðherra og alla réttsýna og velviljaða menn og gerum þetta. Og svo skal ég ekki segja orð meira. Við skulum bara sameinast um að gera þessa hluti og gera þá skynsamlega og aldrei að styrkja fiskirækt, aldrei um einseyring.