Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Karvel Pálmason:
    Herra forseti. Auðvitað ætlar enginn hv. þm. hér í deild að stöðva þetta mál. Þetta er ekki spurning um það. Þetta er ekki spurning um að Alþingi ætli að stöðva eitt eða neitt. Þetta mál hefur verið stöðvað annars staðar í langan tíma, ekki á þinginu. Og það hvarflar ekki að mér að leggja neinn stein í götu þessa máls þó að ég viti hins vegar að það er mörgum spurningum ósvarað að því er þetta mál varðar. Það kom berlega í ljós á fundi beggja nefnda deildanna í gær að það er ýmsum mikilvægum spurningum ósvarað. Hvað þetta frv. kann að leiða af sér í framkvæmd er ég ekki dómbær um að segja nú. En það var ekki endilega það sem ég ætlaði að tala um.
    Ég ætlaði að taka undir þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á meðferð þessa máls og meðferð margra mála í þinginu. Þetta er út af fyrir sig ekkert nýtt og ég er ekki með þessu að gagnrýna hæstv. núv. landbrh. sérstaklega. Það er auðvitað ótækt að þingmönnum sé stillt nánast upp við vegg í hvert skipti á fætur öðru og þeir verði að afgreiða mál án þess að hafa getað skoðað þau nægilega til að geta myndað sér skoðun á þeim. Þetta á ekki bara við núv. hæstv. landbrh. Kannski á hann minnst af þessu. Þetta á auðvitað við alla ráðherra mismunandi mikið og allar ríkisstjórnir undangengin ár og áratugi. Það er spurning hvað við hinir óbreyttu þingmenn látum hæstv. ráðherrum líðast það lengi að haga sér með þessum hætti. Það hlýtur að koma að því fyrr en seinna að menn segja: Hingað og ekki lengra. Menn eiga ekki að láta stilla sér þannig endalaust upp við vegg í mikilvægum málum að menn gefi sér ekki tíma til að líta á þau, fá um það upplýsingar og gaumgæfa hvað hér er í raun og veru á ferðum. Undir þessa gagnrýni tek ég heils hugar og hef gert það áður og raunar margoft, að það er óþolandi að þingmönnum sé boðið upp á svona vinnubrögð.
    En að því er þetta mál varðar skal ég ekki spyrna við fótum í málsmeðferðinni og enn síður að því er málið sem slíkt varðar því að auðvitað er þörf á að bæta hér um. Spurningin er með hvaða hætti.
    Ég tek líka undir að það kann vel svo að fara að þetta mál þurfi að taka upp aftur fljótlega. Ég hygg að hæstv. landbrh. muni líka sýna landbúnaðarnefndum þann heiður að þær fái reglugerðirnar eins og stjórnarandstaðan, eins og hann er búinn að lofa, hæstv. ráðherra, þannig að við sitjum við sama borð og stjórnarandstaðan, nefndarmenn. ( SkA: Það er engin stjórnarandstaða til í landbúnaðarnefndum.) Ég var ekki að tala um stjórnarandstöðu þar. Ég var að tala um stjórnarandstöðu í þinginu og hæstv. ráðherra átti við það. (Gripið fram í.) Það á nú eftir að koma í ljós.
    En hvað sem því líður er þetta mál nauðsynlegt, en það verður að taka tillit til þess að a.m.k. einstaka þingmenn vilja fá að hafa sjálfstæða skoðun og skoða mál. Það veit ég að hæstv. menntmrh. tekur undir og hefur gert undangengin ár. Hann hefði ekki látið bjóða sér slíkt lengi sem stjórnarandstæðingur og óbreyttur

þingmaður. (Gripið fram í.) Já, það kann vel að vera. Auðvitað skiljið þið manna best hvor annan, hv. þm. Halldór Blöndal og Svavar Gestsson, hæstv. ráðherra. ( Menntmrh.: Það er ekki svoleiðis í A-flokkunum.) ( SkA: Á rauðu ljósi.) Ef menn vilja halda áfram umræðum í þessum dúr er það hægt, ekkert skorast ég undan því að tala um þessa hluti, sem eru hjartfólgnir fyrrv. formanni Alþb. þessa dagana, og hugsa til liðinna ára í þessum efnum. ( HBl: Ætli þeir mætist á miðri leið, formennirnir?) Ekki skal ég segja um það. Það er ekki á mína ábyrgð sem sú ferð kann að verða farin. ( SkA: Amen.)
    Út af þessu dagskrármáli skal ég ekki hafa fleiri orð, en ég bið hæstv. landbrh., sem er með þetta mál, og einnig hæstv. menntmrh. að reyna að koma því til leiðar að ráðherrar fari að haga sér með þeim hætti að þeir séu að umgangast venjulega þingmenn og ryðji ekki inn málum á síðustu stundu án þess að menn fái aðstöðu til að kynna sér þau. Það er lágmarkskrafa að slíkt verði gert. En ég ítreka enn: Þessu er ekki beint gegn núv. hæstv. landbrh. Þetta höfum við öll orðið að láta yfir okkur ganga hér allt of lengi. En við hljótum einhvern tímann að segja: Nei. Hingað og ekki lengra.