Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki vera langorður, en hér er um mjög mikið mál að ræða þannig að mér finnst eðlilegt að alla vega þeir þingmenn sem hafa fengist eitthvað við þetta láti eitthvað í sér heyra eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði áðan. Ég vil einnig taka undir þær athugasemdir þingmanna sem hér hafa talað á undan að það er í sjálfu sér forkastanlegt hvernig þetta mál ber að. Þar á ég sérstaklega við þann drátt sem hefur orðið á því að koma málinu inn í þingið. Ég er ekki að gagnrýna hæstv. landbrh., ég tel ekki að hann eigi neina sérstaka sök á því, en æskilegra hefði verið að þetta mál hefði komið fyrr inn í þingið því það má segja að það er ekki seinna vænna að hið háa Alþingi fjalli um fiskeldismál.
    Ég lít þannig á að þetta frv. sé spor í rétta átt, en það leysir í sjálfu sér ekki þann mikla vanda sem við er að etja. Það mun samt hjálpa til í sambandi við uppbyggingu fiskeldis. Í því eru atriði sem geta stutt mjög við bakið á heilbrigðum, vel reknum fiskeldisstöðvum. Því verður hins vegar ekki neitað að sumir sem hafa farið út í þessa atvinnugrein hafa ekki gert það af þeirri fyrirhyggju sem æskilegt er og þeim verður auðvitað ekki bjargað og frv. ekki hugsað þannig. (Gripið fram í.) Ég er ekki sammála hv. þm. Agli Jónssyni um að svo skuli gert. Menn verða að fara út í atvinnurekstur með fyrirhyggju og leggja grundvöll að því með eðlilegum hætti en ekki koma eftir á og gera þær kröfur til hins opinbera að þeim verði bjargað þegar þeir hafa ekki lagt út í sinn rekstur með þeim hætti sem verður að vera krafa um á hverjum tíma.
    En mér fannst rétt að vekja athygli á því í þessu máli, þar sem hér hefur verið rætt nokkuð um fiskeldi almennt, að fiskeldi er fjölbreytilegt og það er mikið talað um, eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði áðan, að Norðmenn hafi flutt alla þekkingu inn í landið eða réttara sagt Íslendingar sem eru í samstarfi við Norðmenn. Ég er ekki alveg sammála þessu sjónarmiði þótt ég ætli ekki að draga úr því að Norðmenn hafa veitt okkur veigamikla aðstoð í uppbyggingu mjög góðra fyrirtækja eins og þeirra fyrirtækja sem hv. þm. Eyjólfur Konráð minntist á áðan. Íslendingar hafa sjálfir tekið þátt í þessu. Þeir hafa sjálfir aflað sér þekkingar og komið við sögu, auk þess sem við höfum einnig notið sérþekkingar annars staðar frá og vil ég sérstaklega nefna það í sambandi við hafbeit.
    Það er einu sinni þannig að fiskeldi er meira en bara kvíaeldi eða strandeldi. Það er einnig hafbeit. Ég undirstrika það í sambandi við afgreiðslu þessa frv. að í frv. er gert ráð fyrir og tekin afstaða til hafbeitar. Ég tel það mjög mikilvægt og þýðingarmikið atriði með það í huga að þeir sem hafa fengist við að reyna að byggja upp hafbeitarstöðvar hérlendis hafa yfirleitt ekki fengið neina fyrirgreiðslu, jafnvel ekki viðskipti í þeim bönkum sem ættu að veita slíkum fyrirtækjum viðskipti.
    Ég nefni sem dæmi að það fyrirtæki sem hefur

gengið lengst í því að byggja upp hafbeitarstöð á Íslandi, Vogalax hf., hefur ekki komist í viðskipti við ríkisbankana með sama hætti og ýmsar minni stöðvar og minni fyrirtæki. Er það í sjálfu sér forkastanlegt að fyrirtæki sem hafa verið að þróa sig á lengri tíma eins og það fyrirtæki, en það hóf sínar tilraunir fyrir tíu árum, skuli ekki hafa komist í eðlileg viðskipti eins og mörg önnur fyrirtæki.
    Ég tek undir það sem hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson sagði áðan um að fjárfesting er ekki mikil í þessari atvinnugrein. Það er mikill misskilningur að halda það þegar það er borið saman við þá miklu fjárfestingu sem er t.d. í íslenskri togaraútgerð eða íslenskum fiskvinnslustöðvum. Sem dæmi vil ég nefna um hafbeitarstöðina sem Vogalax rekur í Vogum að fjárfesting í því fyrirtæki er ekki meiri en 3 / 4 af skuttogaraverði, en það er áætlað að þegar stöðin er komin í full afköst geti hún skilað helmingi meiri tekjum en skuttogari. Ég nefni sem dæmi, þar sem hér var talað um áðan að sumar stöðvar væru að framleiða hrogn, að bara í þeirri stöð er hrognataka mjög mikil og stöðin er sjálfri sér nóg í því að framleiða úr þeim hrognum sem sá fiskur skapar skilyrði til sem kemur af hafi á hverju sumri. Okkar framleiðsla mun verða 5--6 milljónir seiða á þessu ári sem mun gefa möguleika á sleppingu upp á ca. 2 1 / 2 milljón seiða næsta sumar. Það er álit mitt að í uppbyggingu fiskeldisstöðva eigi að reyna að dreifa áhættunni þannig að fyrirtækin séu með bæði seiðaeldi, strandeldi og hafbeit og eftir atvikum kvíaeldi.
    Að lokum vil ég segja, virðulegi forseti, að ég tel að frv. sé spor í rétta átt og hefði átt að vera fyrr búið að huga betur að þessum málum á hinu háa Alþingi varðandi þau atriði sem hið opinbera getur komið inn á í sambandi við þessa atvinnugrein. Þetta er ný atvinnugrein á Íslandi og því miður hafa Íslendingar tapað að vissu leyti á tíma í þessum efnum. Norðmenn byrjuðu á fiskeldi fyrir rúmlega 20 árum, en það má segja að Íslendingar hafi ekki hafið þetta starf með skipulögðum hætti fyrr en fyrir um tíu árum þegar fyrirtækið Ísnó og Fjárfestingarfélag Íslands fóru út í þetta skipulega með það í huga að gera þetta að stórri atvinnugrein.
    Hér áðan greindi hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson frá því að fyrirtækið Ísnó,
sem hefur verið um tíu ár í þróun hérlendis ef rétt er með farið, er núna komið á það stig að það er farið að framleiða 400--500 tonn af eldislaxi á ári. Það fyrirtæki hefur aldrei notið neinnar fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera að öðru leyti en því að ég geri ráð fyrir að það hafi fengið lán eins og aðrir, en það eru örugglega lán með afarkjörum. Sama má segja um Vogalax. Það fyrirtæki hefur aldrei fengið neinn opinberan stuðning. Það hefur fengið að taka lán eins og aðrir með afarkjörum. Hins vegar hefur það, eins og aðrir aðilar sem hafa ráðist í þetta af eigin rammleik, mætt mikilli andstöðu og ég vil segja óvilja víða hjá hinu opinbera. Ég nefni sem dæmi að jafnvel ríkisbankar landsins hafa neitað að opna viðskipti við

fyrirtæki eins og Vogalax. Eiginfjárstaða þess fyrirtækis hefur þar af leiðandi sem betur fer orðið með þeim hætti að eigendur hafa lagt til mjög mikið eigið fé á móti þeim lánum sem tekin hafa verið þannig að eiginfjárhlutfall er mjög hátt. Ef þessir tveir aðilar hefðu ekki ráðist í þessar framkvæmdir með þeim hætti sem gert var fyrir tíu árum og aflað þeirrar þekkingar erlendis frá, annað fyrirtækið í Noregi og hitt í Bandaríkjunum, væru Íslendingar ekki komnir þar sem þeir eru í dag á sviði fiskeldismála.
    Ég gat um það áðan að Íslendingar hefðu tapað tíma. Norðmenn munu á þessu ári væntanlega framleiða 120 þús. tonn af laxi í sínum fiskeldisstöðvum. Á sl. ári var framleiðsla þeirra um 80 þús. tonn. Þeirra forskot er orðið mikið, ekki bara í framleiðslumálum heldur einnig í markaðsmálum. Við Íslendingar erum rétt á byrjunarstigi. Ég tek undir það sem sagt hefur verið hér fyrr í umræðunni af sumum þingmanna að ég treysti þingmönnum til þess að leggjast ekki gegn þessari nýju atvinnugrein með úrtölum. Þeir ættu frekar að leggjast á sveif með þeim mönnum sem hafa staðið að þeirri uppbyggingu með þeim hætti sem eðlilegt er að hið opinbera geri.