Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Frsm. meiri hl. landbn. (Skúli Alexandersson):
    Herra forseti. Landbn. deildarinnar hefur fjallað um frv. á stuttum fundi. Áður hafði nefndin unnið með landbn. Nd. og rætt málið þar. Við höfðum óskað eftir því að á þennan fund, sem haldinn var núna, kæmi fulltrúi frá Landsbankanum. Það tókst ekki að fá þann fulltrúa, en ég átti samt símtal við Sverri Hermannsson bankastjóra og gerði honum grein fyrir okkar ósk og um hvað væri verið að fjalla. Það breytti ekki því að bankinn sendi ekki fulltrúa, en ég upplýsti hann sem sagt um þessa hluti þannig að hlutur okkar gagnvart bankanum, ef einhver upplýsingaskylda hefur átt að vera þangað, ætti að vera í lagi út frá því samtali sem við áttum saman.
    Á fundi nefndarinnar kom það fram, sem reyndar hafði komið fram í ræðum manna hér, að vinnubrögð svipuð og þau sem hafa átt sér stað í kringum þetta mál, sá þrýstingur ríkisstjórnar að koma máli í gegnum hv. Alþingi á svo skömmum tíma og í svo miklum önnum sem í þinginu eru núna væri hlutur sem ekki mætti endurtaka sig og væri allur af hinu verra.
    Hv. þm. Egill Jónsson ítrekaði enn á nefndarfundinum að hann vildi benda á að ákvæðið um gengisviðmiðun, ábyrgðartölurnar, gæti gert að verkum að þar féllu hlutir ekki saman, það yrði með einni gengisfellingu hærri tala en lögin gerðu ráð fyrir. Þetta væri nauðsynlegt að taka til ítarlegrar athugunar í sambandi við reglugerð. Einnig benti sami þingmaður á að hann teldi að sú umræða, sem hér hefði átt sér stað á þann veg að það væri allt í lagi að sum fyrirtæki færu á hausinn, væri ekki það sem við ættum að huga að heldur hitt, að styrkja þennan rekstur svo sem unnt væri þannig að hann mætti halda velli. Það voru margir nefndarmenn sem tóku undir þetta. (Gripið fram í.) Já, það voru allir nefndarmenn sem tóku undir það, en hv. þm. Egill Jónsson benti á þetta sérstaklega í sinni tölu. ( HBl: Það hefur verið mikil eining í nefndinni.) Mjög mikil eining var í nefndinni og einnig var þar ítrekuð og reyndar þökkuð sú yfirlýsing frá hæstv. landbrh. að nefndin og þingmenn fengju að fylgjast með undirbúningi og gerð reglugerðar.
    Ég þakka nefndinni fyrir gott starf og að hún skyldi hafa skilað þessu máli á þessum kvöldfundi frá sér þannig að við ættum að geta gengið frá frv. nú sem lögum frá Alþingi. Meiri hl. nefndarinnar leggur til . . . (Gripið fram í.) Gleymi ég nú einhverju, hv. þm.? ( KP: Málsmeðferðinni.) Ja, ég hafði nefnt hana í upphafi. Ég nefndi það einmitt í upphafi.
    Meiri hl. nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt. Guðrún Agnarsdóttir skilar séráliti.