Stofnlánadeild landbúnaðarins
Föstudaginn 06. janúar 1989

     Frsm. minni hl. landbn. (Guðrún Agnarsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nál. við 206. mál þessa þings, frv. til l. um breytingu á lögum nr. 45 frá 16. apríl 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, með síðari breytingum, og þetta er minnihlutaálit landbn.
    Stjórnvöldum ber skylda til að skapa hagkvæmar aðstæður fyrir útflutningsgreinar. Það er einnig eðlilegt að efla fjölbreytni þeirra og hvetja til nýrra atvinnugreina. Miklu varðar þó að vanda til undirbúnings og líta til lengri tíma. Það er eðlilegt að styðja við bakið á nýjum atvinnugreinum meðan þær fóta sig, en sjálfsagt er einnig að krefjast ákveðinna lágmarksskilyrða áður en stjórnvöld veita fé eða styrki til framkvæmda og það hlýtur að vera grundvallaratriði að útflutningsgreinar beri sig. Alltaf geta þó komið upp óviðráðanlegar aðstæður sem gera kröfu til þess að stjórnvöld hlaupi undir bagga.
    Þetta frv. er flutt til að taka á langvinnum og vaxandi vanda fiskeldisfyrirtækja, en þar hefur víða gætt meira kapps en forsjár. Bæði er að stjórnvöld hafa óspart hvatt menn til framkvæmda, en einnig hafa margir eygt skjótfenginn gróða í þessari atvinnugrein. Vandi fiskeldisfyrirtækja var viðurkenndur af stjórnvöldum í maí sl. þegar þau veittu þeim stuðning að nokkrum hluta. Sá stuðningur hvatti menn til að halda áfram rekstri. Síðan hefur orðið óskiljanleg töf á frekari aðgerðum stjórnvalda sem hefur aukið mjög á skuldabagga og annan vanda fiskeldisfyrirtækja. Það er því enn óskiljanlegra að þessu máli skuli nú skellt næsta fyrirvaralítið inn á Alþingi og þess krafist að það sé afgreitt næstum umyrðalaust án þess að nægilegur tími gefist fyrir þingmenn til að athuga það.
    Ýmsir aðilar hafa sótt tvo sameiginlega fundi landbn. beggja deilda. Ég harma reyndar að fulltrúar frá Landsbanka Íslands hafa ekki látið sjá sig. Ég bað sérstaklega um að þeir mættu á fundinn, ekki síst vegna þess að þær reglur sem þar gilda um lán hafa verið fordæmisskapandi og við þær er miðað þegar talað er um eðlilegt lánshlutfall. Það er því mjög miður að þau hafa ekki séð sér, ekki einn einasti fulltrúi, fært að mæta á fund okkar. Hins vegar var ljóst af upplýsingum þeirra sem á fund okkar mættu að vandinn er mikill og nauðsyn að grípa á honum án mikillar tafar og tek ég fúslega undir það. Það er hins vegar einnig ljóst að á þessu máli eru margir lausir endar og margt óljóst um framkvæmd þess, jafnvel fyrir þá aðila sem ætlað er að sjá um lánveitingar og þá vitna ég til aðila frá Búnaðarbankanum sem var alls ekki ljóst hvernig ætti að framkvæma þetta mál.
    Ekki liggur fyrir mat á áhættu sem stjórnvöld hljóta að taka á sig með þessum aðgerðum, en hún hlýtur að vera töluverð þar sem hér er um mjög fjármagnsfrekan atvinnurekstur að ræða. Skilyrði fyrir lánveitingu eru einnig mjög óljós, svo og þáttur erlendra aðila, t.d. raunverulegur eignarhluti þeirra. Það er til að mynda undarlegt að hvergi skuli minnst á í frv. mikilvæg skilyrði eins og t.d. staðsetningu fiskeldisstöðva, aðbúnað mengunarvarna, hollustuhætti

og kröfur um menntun og þekkingu þeirra sem að greininni starfa, en það verða að teljast eðlilegar kröfur þegar um slíkan áhætturekstur er að ræða og af þessu tagi.
    Lengri tíma þarf til að athuga málið betur án þess þó að á því verði töf, og ég vil taka mjög skýrt fram að við höfum fyllsta hug á því að afgreiða þetta mál og standa vel að afgreiðslu þess og tefja það alls ekki. En það þarf lengri tíma og það kom fram í umfjöllun nefndarinnar að hægt væri að fresta þessu máli fram í næstu viku og hefði ég og aðrar kvennalistakonur verið mjög fúsar til þess að taka á því þá til þess að vanda afgreiðslu þess. Án þess að það sé gert telja þingkonur Kvennalistans ekki óhætt fyrir stjórnvöld að styðja við þessa mikilvægu atvinnugrein á þann hátt sem hér er til lagt. Við viljum þó ekki standa gegn málinu og munum því sitja hjá við afgreiðslu þess í þinginu.