Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Þegar ríkisstjórnin tók við 28. sept. sl. voru ákveðnar fyrstu aðgerðir sem var ætlað að skapa útflutningsatvinnuvegunum þolanlegan rekstur en um leið svigrúm í 4--5 mánuði til ýmiss nauðsynlegs undirbúnings og aðgerða.
    1. Að afgreiða hallalaus fjárlög.
    2. Að draga úr verðbólgu.
    3. Að lækka vexti.
    4. Að lagfæra raungengi íslensku krónunnar.
    5. Að kanna vandlega stöðu atvinnuveganna.
    6. Að lagfæra skuldastöðu atvinnuveganna.
    7. Að undirbúa varanlegar aðgerðir í atvinnu- og efnahagsmálum.
    Þeim tíma sem til þessa var ætlaður lýkur í þessum mánuði. Því þykir ríkisstjórninni rétt að gera Alþingi grein fyrir því starfi sem hefur verið unnið og þeim efnahagsaðgerðum sem hún ráðgerir.
    Fjárlög voru afgreidd eins og að var stefnt. Nýsamþykkt fjárlög fela í sér rúmlega 600 millj. kr. tekjuafgang á ríkissjóði. Til að ná þessum afgangi var nauðsynlegt að auka skattheimtu ríkisins og skera verulega niður útgjöld. Niðurskurður útgjalda á milli áranna 1988 og 1989 er áætlaður um 2,5 milljarðar kr. á verðlagi síðasta árs. Er það einn mesti niðurskurður sem ráðgerður hefur verið á einu ári í langan tíma. Heildarútgjöld ríkissjóðs lækka úr 28,6% af landsframleiðslu 1988 í 27,7% 1989, en án vaxtagjalda fara útgjöld ríkissjóðs úr 25,9% af landsframleiðslu í 25%. Áætlað er að aukning skatttekna verði um 5 milljarðar kr. á verðlagi síðasta árs. Skatttekjur aukast úr 24,3% af landsframleiðslu í 26,5% en að meðtöldum vaxtatekjum og arði aukast heildartekjur úr 25,7% í 27,9 af landsframleiðslu.
    Á þessum fjórum mánuðum sem ríkisstjórnin hefur setið og þrátt fyrir þær aðgerðir sem óhjákvæmilegt var að grípa til til að tryggja hallalausa afgreiðslu fjárlaga hefur verðbólga undanfarna fjóra mánuði verið um 9,5% á ársgrundvelli. Er það lægsta verðbólga sem við Íslendingar höfum kynnst síðan árið 1971. Er engum vafa undirorpið að þessi tiltölulega litla verðbólga hefur verið bæði atvinnufyrirtækjum og einstaklingum mikilvæg. Á þessu tímabili hafa raunvextir lækkað úr 9,5% af verðtryggðum skuldabréfum í 7,75%. Nafnvextir hafa sömuleiðis lækkað úr um það bil 33--34% í 15--16%. Þetta hefur reynst fjölmörgum fyrirtækjum og einstaklingum ákaflega mikilvægt. Eru mörg dæmi þess að greiðslubyrði vaxta hefur lækkað um helming eða meira. Því miður hafa hins vegar ekki lántakendur allir notið þessarar lækkunar á vöxtum. Rekstur margra fyrirtækja, einkum í iðnaði, er enn fjármagnaður með sölu verðbréfa sem keypt eru með miklum afföllum. Mun 18% raunávöxtun algeng í þeim viðskiptum. Að sjálfsögðu þolir enginn atvinnurekstur slíkt.
    Frá því að raungengi íslensku krónunnar var hæst í upphafi ársins 1988 hefur það lækkað mjög og þá ekki síst fyrir aðgerðir þessarar ríkisstjórnar. Á einu ári hefur raungengið lækkað um nálægt 15% á

mælikvarða launa og 10% á mælikvarða verðlags. Er það nú aðeins um það bil 2% hærra en meðaltal frá 1980. Verðlækkun á sjávarafurðum erlendis, einkum í Bandaríkjunum, hefur hins vegar valdið útflutningsfyrirtækjum erfiðleikum.
    Staða útflutningsgreinanna, einkum sjávarútvegsins, hefur verið könnuð ítarlegar en líklega nokkru sinni fyrr. Liggja fyrir frá Þjóðhagsstofnun, frá sérstökum endurskoðendum í sjávarútvegi og frá Atvinnutryggingarsjóði afar miklar upplýsingar um stöðuna. Þessar upplýsingar hafa þegar að mestu verið kynntar fyrir þingflokkum og fulltrúum atvinnuvega og launþega. Mun ég því aðeins fara nokkrum orðum um helstu niðurstöður.
    Á sl. ári er talið að eigið fé í sjávarútvegi hafi rýrnað um u.þ.b. helming eða fallið úr um það bil 26 milljörðum í 13 milljarða kr. Rekstrarstaða í botnfiskveiðum og vinnslu er að mati Þjóðhagsstofnunar nú neikvæð um 4%. Rekstrarstaða vinnslunnar er talin vera í núlli, þar af saltfiskvinnslunnar jákvæð um 4,5% en frystingar neikvæð um 2,5%. Rekstrarstaða veiðanna er hins vegar talin vera neikvæð um 7%. Innan veiðanna er staðan hins vegar talin vera mjög misjöfn. Bátar eru taldir með 14% neikvæða rekstrarstöðu, minni togarar með neikvæða rekstrarstöðu sem nemur 1*y1/2*y% en frystitogarar með 0,5% neikvæða rekstrarstöðu.
    Í þessu mati Þjóðhagsstofnunar er aðeins gert ráð fyrir 6% ávöxtun stofnfjár. Athuganir benda hins vegar til þess að fjármagnskostnaður sé töluvert hærri eða líklega um 12--14% að meðaltali. Umhugsunarvert er að staða sjávarútvegsins skuli vera svo erfið þrátt fyrir afar góð aflaár frá 1985 til 1987, aflaverðmæti var þá um 12% meira en meðaltal áratugarins, og þrátt fyrir að gengi hinnar íslensku krónu hafi á einu ári verið fellt um yfir 26%. Skýringarnar eru margar. Verðfall á erlendum mörkuðum hefur að sjálfsögðu valdið búsifjum. Gífurleg fjárfesting, einkum í nýjum skipum og endurbótum á eldri skipum, á fyrrnefndum aflaárum, 1985--1988, á tvímælalaust þátt í þeim erfiðleikum sem nú blasa við. Fjárfesting í fiskiskipum hátt í þrefaldaðist á þessum árum. Á skömmum tíma var frysti- og vinnslutogurum fjölgað úr 3 í 20.
Við þetta jókst vinnsla á fiski á sjó mjög. Á sl. ári voru yfir 70 þús. lestir af slægðum fiski unnar í frystitogurum án þess að fylgdu nauðsynlegar breytingar og aðlögun á vinnslu í landi. Þessu til viðbótar var útflutningur á ferskum fiski í gámum rúmlega 47 þús. tonn og fluttar voru út með fiskiskipum tæplega 39 þús. lestir eða samtals um 156 þús. lestir voru ekki unnar í landi af um það bil 536 þús. lestum af þeim sem veiddust af þessum fiskstofnum. Augljóst er jafnframt að skuldastaða sjávarútvegsins er alls kostar óviðunandi og í mörgum tilfellum óviðráðanleg. Skammtímaskuldir eru allt of miklar. Veltufjárstuðull, þ.e. hlutfall lausafjár og skammtímaskulda, er að meðaltali aðeins rúmlega hálfur. Lengri lán eru til allt of stutts tíma, í mörgum tilfellum aðeins til tveggja eða þriggja ára, einkum í bankakerfinu.

    Af þessari stuttu lýsingu og þeim miklu upplýsingum sem liggja fyrir má ljóst vera að þær miklu gengisfellingar sem orðið hafa á einu ári hafa komið stórum hluta sjávarútvegsins að litlum notum og aðeins í skamman tíma. Það hefur dregið mjög úr áhrifum þeirra að þeim hafa ekki fylgt nauðsynlegar aðgerðir, m.a. í fjármálum atvinnuveganna.
    Þótt við stjórnarmyndun hafi ekki verið ljóst að fjárhagsstaða atvinnuveganna væri eins erfið og undangengin athugun, sem ég hef nú stuttlega lýst, hefur leitt í ljós taldi ríkisstjórnin nauðsynlegt að hefja þegar með fyrstu aðgerðum víðtækar skuldbreytingar í þágu útflutningsgreinanna. Í því skyni var Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina settur á fót. Mikilvægi þessara skuldbreytinga hefur sannast svo að ekki verður um villst. Til sjóðsins hafa sótt um lán um 190 fyrirtæki. Margar þessara umsókna eru hins vegar þannig úr garði gerðar að ekki er unnt að afgreiða þær án ítarlegri upplýsinga frá viðkomandi fyrirtækjum. 80 umsóknir hafa verið afgreiddar. 51 fyrirtæki hefur fengið skuldbreytingu og þar af nokkur hagræðingarlán til viðbótar. 29 fyrirtækjum hefur verið synjað. Synjanir eru byggðar á þeirri niðurstöðu að viðkomandi fyrirtæki hafi ekki rekstrargrundvöll eftir skuldbreytingu og við eðlileg rekstrarskilyrði þegar til lengri tíma er litið. Svo virðist sem þriðjungur fyrirtækja í sjávarútvegi fullnægi ekki slíkum kröfum. Fjöldi þessara fyrirtækja gæti því orðið á bilinu 60--70. Mörg þessara fyrirtækja eru máttarstoðir í viðkomandi byggðarlögum. Án þeirra mun meiri hluti íbúanna verða atvinnulaus og fjárhagur byggðarlagsins hrynja. Ríkisstjórnin hefur því óskað eftir því við Byggðastofnun að hún ásamt viðkomandi viðskiptabanka og fjárfestingarsjóðum athugi vandlega hvað gera má til þess að koma í veg fyrir slíkt hrun. Um það vil ég ræða nánar síðar.
    Atvinnutryggingarsjóður hefur að sjálfsögðu einnig sinnt skuldbreytingum á sviði útflutningsiðnaðar. Hafa sex iðnfyrirtæki þegar fengið skuldbreytingu, en fjórum verið hafnað, flestum í ullariðnaði. Vegna þeirra efasemda sem fram komu um ríkisábyrgð á skuldbindingum Atvinnutryggingarsjóðs munu verða lagðar fram hér á Alþingi tillögur til breytinga á því frv. sem fyrir liggur um staðfestingu á bráðabirgðalögum sem taka af allan vafa í þessu efni. Verður sjóðurinn þá óumdeilanlega með sams konar ríkisábyrgð og aðrir fjárfestingarlánasjóðir sem á vegum ríkisins starfa.
    Ríkisstjórnin hefur og þegar gert ýmsar ráðstafanir til styrktar landbúnaðinum og einstökum greinum hans. Með efnahagsráðstöfunum ríkisstjórnarinnar í lok september voru niðurgreiðslur á búvörum verulega auknar sem hefur leitt til þess að verð á helstu búvörutegundum hefur haldist óbreytt eða mjög lítið hækkað síðan sl. sumar. Hagstætt verðlag á búvörum er afar mikilvægt atriði fyrir neytendur jafnt sem bændur og styrkir stöðu innlendrar framleiðslu í samkeppni við innflutning. Af einstökum aðgerðum á sviði landbúnaðarins má nefna: Endurgreiðsla söluskatts til fiskeldis og loðdýraræktar, 30 millj. kr.

á árinu 1988 og 70 millj. kr. á árinu 1989. Lög um Tryggingasjóð fiskeldislána voru sett í janúar og er nú unnið að stofnun sjóðsins og setningu reglugerðar um hann. Sérstakar aðgerðir sem þegar hafa verið kynntar til frekari stuðnings loðdýraræktinni sem m.a. lækkar tilkostnað við framleiðslu skinna og taka eiga á lausaskuldum bænda.
    Þá kem ég að þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið. Eins og ég hef áður rakið hefur raungengi krónunnar lækkað verulega á undanförnum mánuðum. Auk þess hefur gengi dollarans hækkað um u.þ.b. 4% frá áramótum sem er nokkur bót fyrir ýmis fyrirtæki sem verst eru stödd. Þó er raungengi krónunnar hærra en svo að samkeppnisstaða útflutningsatvinnuvega og samkeppnisiðnaðar sé viðunandi.
    Rekstrarvandi þessara greina stafar þó ekki síður af ýmsum djúpstæðum skipulagsvandamálum en af því að almenn rekstrarskilyrði séu erfið. Á vegum fyrirtækjanna sjálfra og stjórnvalda er nú unnið að lausn þessa skipulagsvanda, bæði fjárhagslegs og tæknilegs. Þær umbætur og þær fjölþættu aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur ákveðið í verðlagsmálum, peningamálum, ríkisfjármálum og á sviði útflutnings- og samkeppnisgreinanna sjálfra, sem ég mun lýsa, munu draga úr þörf fyrir gengislækkun. Auk þess sýnir reynslan að gengisbreyting, sem raskar þeim stöðugleika sem náðst hefur í verðlagsmálum á síðustu mánuðum, gæti reynst atvinnuvegunum hæpin hjálp. Þá hefði umtalsverð
gengislækkun krónunnar óheppileg verðhækkunaráhrif á umþóttunartíma í verðlagsmálum í kjölfar verðstöðvunar. Engu að síður er talið óhjákvæmilegt að lagfæra gengið lítillega og bæta þannig rekstrarstöðu fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisgreinum og draga úr viðskiptahalla þjóðarbúsins. Jafnframt verður þar með eytt óvissu í gengismálum. Þá telur ríkisstjórnin einnig nauðsynlegt vegna áframhaldandi óstöðugleika á erlendum gjaldeyrismörkuðum að auka nokkuð svigrúm Seðlabankans til þess að jafna úr slíkum sveiflum. Slíkt fyrirkomulag er nú í gildi í öllum löndum Vestur-Evrópu, þar á meðal á Norðurlöndum og í því felst í sjálfu sér ekkert fráhvarf frá almennum stöðugleika í gengismálum. Í ljósi þessa hefur ríkisstjórnin samþykkt að Seðlabankanum verði heimilað að lækka gengið um 2,5% nú þegar og jafnframt verði staðfest heimild til bankans til þess að ákveða daglegt gengi íslensku krónunnar innan marka sem eru 2,25% til lækkunar eða hækkunar frá hinu ákveðna meðalgengi.
    Á meðan að því er unnið að ná atvinnuvegunum úr þeim erfiðleikum sem við blasa telur ríkisstjórnin óhjákvæmilegt að tryggja nokkra umþóttun í verðlagsmálum. Það mun gert með tímabundnu ströngu verðlagseftirliti í kjölfar verðstöðvunar. Fyrirætlun ríkisstjórnarinnar verður best lýst með þeirri samþykkt sem hún hefur gert um verðlagsmál:
    ,,Ríkisstjórnin samþykkir að við lok verðstöðvunar, sem í gildi hefur verið frá því í lok ágúst á síðasta ári

og lýkur 28. febr. nk., taki við sex mánaða umþóttunartími í verðlagsmálum með sérstöku aðhaldi að verðhækkunum. Ríkisstjórnin felur Verðlagsráði og Verðlagsstofnun að framkvæma þessa ákvörðun og leggur í því sambandi áherslu á eftirgreind atriði:
    Ríkisstjórnin telur nauðsynlegt að náið verði fylgst með verðlagsþróun í einstökum greinum eftir að verðstöðvun lýkur. Í því skyni verði fyrirtækjum skylt að tilkynna verðhækkanir og ástæður fyrir þeim til verðlagsyfirvalda þegar eftir er leitað. Komi í ljós að verðhækkanir verði umfram það sem brýn kostnaðartilefni og afkoma fyrirtækjanna gefa tilefni til skulu verðlagsyfirvöld beita tímabundið ýtrustu ákvæðum verðlagslaga eftir því sem efni standa til. Til þess að tryggja örugg skil á upplýsingum til Verðlagsstofnunar mun ríkisstjórnin leggja fram á Alþingi frv. til breytinga á 49. gr. verðlagslaga um viðurlög við vanrækslu á tilkynningarskyldu.
    Ríkisstjórnin felur Verðlagsstofnun að fylgjast sérstaklega með verðákvörðunum einokunar- og markaðsráðandi fyrirtækja, sbr. ákvæði verðlagslaga um slík fyrirtæki, hvort sem um er að ræða einkafyrirtæki eða opinber þjónustufyrirtæki. Þetta á einnig við um verðákvarðanir sem teknar eru af samtökum starfsgreina, en þau hafa að öðru jöfnu meiri möguleika en fyrirtæki í samkeppnisgreinum til að snögghækka verð í kjölfar verðstöðvunar.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja til tímabundna breytingu á verðlagslögum þannig að á umþóttunartímanum verði hækkun á orkuverði háð samþykki verðlagsyfirvalda.
    Ríkisstjórnin felur Verðlagsstofnun að sinna verðkönnun af árvekni og kynna niðurstöður rækilega. Jafnframt er nauðsynlegt að halda áfram samanburðarkönnunum á verðlagi hér á landi og í nágrannalöndum. Ríkisstjórnin mun styðja sérstakt átak á þessu sviði.
    Loks leggur ríkisstjórnin það fyrir Verðlagsstofnun að hún taki upp samstarf við verkalýðs- og neytendafélög um aðhald að verðlagi. Þetta er mikilvægt vegna þess að opinbert verðlagseftirlit, hversu gott sem það er, getur aldrei komið í staðinn fyrir árvekni neytenda.``
    Ég hygg að ekki verði um það deilt að hinn íslenski peningamarkaður hefur farið mjög úr skorðum og reynst atvinnulífinu og einstaklingum þungur í skauti. Þótt verulegur árangur hafi náðst í lækkun vaxta og fjármagnskostnaðar er frekari lækkun nauðsynleg. Því hefur ríkisstjórnin gert eftirgreinda samþykkt á sviði peninga- og vaxtamála:
    ,,Ríkisstjórnin hefur mótað stefnu í peninga- og vaxtamálum sem hefur að meginmarkmiði að koma á lægri raunvöxtum en stuðla jafnframt að betra jafnvægi á lánamarkaði með ýmsum umbótum í peninga- og vaxtamálum. Helstu markmiðin eru:
    Með samræmdu átaki verði unnið að því að lækka raunvexti þannig að vextir af verðtryggðum ríkisskuldabréfum verði ekki hærri en 5% og raunvextir af öðrum fjárskuldbindingum lagi sig að því.

    Vaxtamunur hjá bönkum og sparisjóðum og öðrum lánastofnunum minnki frá því sem nú er.
    Starfsskilyrði fjármálastofnana verði samræmd með breytingu á reglum um bindi- og lausafjárskyldu og hvað varðar heimildir til tímabundinnar íhlutunar um ávöxtunarkjör.
    Skipulagi bankakerfisins verði breytt og það bætt og samkeppni aukin á lánamarkaði.``
    Til þess að ná fram þessum markmiðum hefur ríkisstjórnin ákveðið fjölþættar ráðstafanir sem ég mun nú lýsa.
    Ríkisstjórnin hefur ákveðið að fela Seðlabankanum að stuðla að því að vextir á lánamarkaðinum lagi sig að vöxtum á ríkisskuldabréfum að teknu tilliti til
áhættu og annarra atriða sem máli skipta. Ríkisstjórnin hefur veitt Seðlabankanum heimild til þess að beita ákvæðum 9. gr. seðlabankalaganna ef þörf krefur til þess að markmiðum ríkisstjórnarinnar í peninga- og vaxtamálum verði náð.
    Ríkissjóður mun neyta stöðu sinnar sem langstærsti lántakandi á innlendum fjármagnsmarkaði til þess að ná með samningum fram hóflegum raunvöxtum á ríkisskuldabréfum, m.a. þeim sem lífeyrissjóðir kaupa af ríkissjóði og Byggingarsjóði ríkisins, jafnframt því sem dregið verður úr lánsfjárþörf ríkissjóðs með ýtrasta aðhaldi að ríkisútgjöldum.
    Seðlabanka Íslands verður í samráði við viðskrn. falið að veita nafnvöxtum lánastofnana sérstakt aðhald á umþóttunartímabili í kjölfar verðstöðvunar þannig að samræmi verði á milli raunávöxtunar verðtryggðra og óverðtryggðra lánasamninga. Seðlabankanum verður jafnframt falið að beita sér fyrir endurskoðun á ávöxtunarkjörum viðskiptaskuldabréfa og viðskiptavíxla og á skiptikjarareikningum í innlánsstofnunum og einnig að fylgjast náið með þróun vaxtamunar inn- og útlána og beita ákvæðum í seðlabankalögum til að innlánsstofnanir leggi fram áætlun um þróun vaxtamunar samhliða tilkynningum um vaxtaákvarðanir. Nefnd á vegum viðskrn. sem vinnur að athugun á þróun vaxtamunar í bankakerfinu er falið að móta tillögur um minnkun vaxtamunar.
    Til að tryggja að markmið hennar nái fram að ganga hefur ríkisstjórnin undirbúið og mun leggja fyrir Alþingi á næstu dögum ýmis frumvörp til breytinga á lögum.
    Ríkisstjórnin mun leggja fram frv. til breytinga á lögum um Seðlabanka Íslands þar sem verði kveðið skarpar á um heimildir bankans til þess að binda vaxtaákvarðanir innlánsstofnana takmörkunum. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að í lögum um verðbréfafyrirtæki og eignarleigustarfsemi verði hliðstæð ákvæði þannig að allir aðilar á fjármagnsmarkaði sitji við sama borð að þessu leyti. Þá verður laust fé innlánsstofnana skilgreint með markvissari hætti en verið hefur og kveðið á um að stærstur hluti viðurlaga sem Seðlabankinn innheimtir af innlánsstofnunum renni í ríkissjóð. Jafnframt verður reglugerð um bindi- og lausafjárskyldu breytt þannig að miðað verði við ráðstöfunarfé innlánsstofnana en ekki innlán eins og nú er. Breyttar reglur um bindi-

og lausafjárskyldu munu jafna starfsskilyrði innlánsstofnana og koma bönkum sem þjóna útflutningsgreinum til góða. Þær eru jafnframt forsenda þess að unnt verði að beita bindiskyldu eða hliðstæðum kvöðum á aðrar fjármálastofnanir en banka og sparisjóði til þess að jafnræðis sé gætt.
    Ríkisstjórnin mun leggja fram breytingar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem skilgreina nánar og auka verksvið bankaráða, m.a. hvað varðar vaxtaákvarðanir, gjaldskrár, skuldabréfaútgáfu og viðskiptahætti almennt, jafnframt því sem þær munu girða fyrir hagsmunaárekstra.
    Ríkisstjórnin mun flytja frv. um breytingu á vaxtalögum til þess að koma í veg fyrir ósanngjarna vaxtatöku og misneytingu á aðstöðu í lánsviðskiptum. Þá verður lagt til að í lögunum verði kveðið á um að vaxtakjör fjárfestingarlánasjóða verði áfram háð staðfestingu ríkisstjórnarinnar.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að fyrirliggjandi frumvörp um verðbréfafyrirtæki og verðbréfasjóði og eignarleigufyrirtæki verði að lögum sem fyrst.
    Ríkisstjórnin mun á næstunni kynna ákveðnar tillögur um samruna lánastofnana hér á landi og áætlun um aðlögun íslenska lánamarkaðarins að breyttum aðstæðum í umheiminum. Í þessu felst m.a. að íslensku atvinnulífi verði tryggð sambærileg aðstaða á fjármagnsmarkaði og er í helstu viðskiptalöndum. Markmiðið er að stuðla að lækkun fjármagnskostnaðar fjölskyldna og fyrirtækja með aukinni samkeppni og hagræðingu í bankakerfinu og nánari tengslum innlends lánamarkaðar við fjármagnsmarkaði í nágrannalöndunum. Heimildir íslenskra fyrirtækja til þess að taka lán erlendis með ríkisábyrgð eða ábyrgð banka eða sjóða í eigu ríkisins verða takmarkaðar, en hins vegar verða heimildir fyrirtækja til að taka erlend lán á eigin ábyrgð rýmkaðar.
    Á næstu missirum verða reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.
    Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa íslenska bankakerfið undir breytingar sem munu fylgja sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu, m.a. með því að auka hagkvæmni þess þannig að það geti staðist samkeppni við erlenda banka hvað varðar vaxtamun, tryggingar og fleira. Í framhaldi af því verður m.a. kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.
    Þá mun ríkisstjórnin flytja frv. til breytinga á verðtryggingarkafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl., þannig að þar komi inn ákvæði um heimild Seðlabankans með samþykki viðskrn. að setja reglur um lágmarkstíma verðtryggðra fjárskuldbindinga og að vextir verðtryggðra lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum. Ríkisstjórnin mun fela Seðlabankanum að lengja lágmarkstíma verðtryggðra fjárskuldbindinga eftir því sem verðbólga hjaðnar.
    Í samræmi við málefnasamning ríkisstjórnarinnar

ætlar ríkisstjórnin sér að
koma í veg fyrir víxlhækkanir verðlags og lánskjara þegar jafnvægi í efnahagsmálum er náð.
    Seðlabankinn mun óhjákvæmilega gegna lykilhlutverki í framkvæmd stefnu ríkisstjórnarinnar í peninga- og vaxtamálum. Mun ríkisstjórnin fela honum að vinna að framgangi þeirrar stefnu sem mörkuð hefur verið með fyrrgreindum ákvörðunum.
    Til að tryggja að markmið fjárlaga nái fram að ganga hyggst ríkisstjórnin fylgja markvissri aðhaldsstefnu á sviði útgjalda ríkisins. Í því sambandi verður unnið að eftirgreindum atriðum:
    Gert verður markvisst átak til að halda útgjöldum ráðuneyta, stofnana og ríkisfyrirtækja innan ramma fjárlaga. Eftirlit með launakostnaði verður hert. Alls er stefnt að um 4% niðurskurði launaútgjalda. Mótaðar verða reglur sem tryggi fyrirhugaðan niðurskurð ferðakostnaðar, risnu og sérfræðiþjónustu. Greiðsluáætlanir verða nákvæmari en hingað til og komið verður á mánaðarlegum fundum fjmrn. og fjármálastjóra ráðuneyta til að tryggja framgang þeirrar stefnu sem ríkisstjórnin hefur ákveðið. Stefnt er að því með gerð greiðsluáætlana að draga úr árstíðasveiflu í fjármálum ríkissjóðs. Haft mun verða víðtækt samráð m.a. við ríkisstarfsmenn og aðila með reynslu í atvinnulífinu um leiðir til að spara í ríkisrekstrinum án þess að draga úr sjálfri velferðarþjónustunni.
    Áfram verður unnið að umbótum í skattamálum sem miða að því að breikka skattstofna en lækka á móti jaðarskatta og auka réttlæti í skattamálum án þess að auka heildarskattbyrði, en gera skattkerfið réttlátara og einfaldara og láta það stuðla sem mest að hagkvæmni og réttum ákvörðunum í hagkerfinu. Á næstunni verður unnið að eftirgreindum málum á þessu sviði:
    Skattlagning fyrirtækja verður tekin til skoðunar, bæði út frá almennum sjónarmiðum um skattaumbætur og með tilliti til samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Skattlagning eigna og fjármagnstekna verður samræmd. Skattlagning eigna og eignatekna verður í því sambandi tekin til endurskoðunar, svo og skattaleg meðferð arðs og hlutafjáreignar. Stefnt verður að sem mestu samræmi í skattalegri meðferð mismunandi sparnaðarforma og að eytt verði skattalegu óhagræði hlutafjáreignar. Athugað verður hvort fjárfestingarskattur geti e.t.v. leyst af hólmi sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði og vörugjald á byggingarvörur. Sérstakt átak verður gert til að bæta skattinnheimtu og draga úr skattsvikum. Innheimtukerfi söluskatts verður tekið til gagngerðrar endurskoðunar. Sett verða skilyrði fyrir söluskattsskyldri starfsemi. Samræmdar og bættar verða reglur fyrir innheimtumenn ríkissjóðs, innheimtukerfið sjálft verður styrkt, bæði varðandi yfirstjórn, eftirlit og sjálfa innheimtuna. Lög um gjaldþrot og greiðslustöðvanir verða endurskoðuð til að tryggja betur greiðslu á söluskattsskuldum.
    Gert er ráð fyrir því í fjárlögum að innlend lánsfjáráætlun ríkissjóðs nemi 5,3 milljörðum kr. sem er 1,3 milljarðar kr. umfram áætlaða innlausn

spariskírteina. Mikilvægt er að greitt verði fyrir þessari fjáröflun með ýmsum hætti ef hún á að takast samhliða því sem stefnt er að lækkun raunvaxta. Í því skyni mun þetta verða gert: Áhersla verður áfram lögð á söluherferð vegna spariskírteina og reynt verður að greiða fyrir henni með því að ná samkomulagi við banka og sparisjóði um spariskírteinaeign þeirra. Settar verði hömlur við útgáfu bankabréfa með ríkisábyrgð. Ríkissjóður mun gefa út nýja tegund verðbréfa sem verða sniðin að þörfum lífeyrissjóða. Sala ríkisvíxla verður örvuð og þeir þróaðir áfram sem tæki til að fjármagna árstíðabundinn halla ríkissjóðs.
    Eins og áður er rakið er staða sjávarútvegsins erfið. Ríkisstjórnin hefur því gripið til margþættra aðgerða honum til stuðnings og má þar sérstaklega nefna starfsemi Atvinnutryggingarsjóðs og sérstakar verðbætur á freðfisk úr Verðjöfnunarsjóði. Þessar aðgerðir hafa komið í veg fyrir rekstrarstöðvun í greininni og þær munu leiða til traustari greiðslustöðu og bættrar fjárhagsuppbyggingar margra fyrirtækja í sjávarútvegi. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir þær almennu aðgerðir í efnahagsmálum sem ég hef lýst eru enn sértækar aðgerðir í þágu sjávarútvegsins nauðsynlegar.
    Eins og komið hefur fram eru fjölmörg af þeim fyrirtækjum, sem ekki fá skuldbreytingu í Atvinnutryggingarsjóði, máttarstoðir atvinnu og búsetu í viðkomandi byggðarlögum. Ef þau stöðvast mun af því leiða ómetanlegt tjón og gífurlegur kostnaður, ekki aðeins fyrir viðkomandi byggðarlag og íbúa þess heldur fyrir þjóðarbúið allt. Óhjákvæmilegt er að grípa til róttækra aðgerða til þess að bæta eiginfjárstöðu slíkra fyrirtækja og tryggja áframhaldandi rekstur í byggðarlaginu og koma í veg fyrir byggðaröskun af þessum völdum. Í þessu sambandi er sérstaklega mikilvægur hlutafjársjóður sá sem stjórnarandstaðan gerði tillögu um og samþykktur hefur verið eftir 2. umr. í Nd. um frv. til laga um staðfestingu á bráðabirgðalögum um aðgerðir í efnahagsmálum. Af stærð vandans er ljóst að sjóður þessi þarf að hafa mikið fé til ráðstöfunar til kaupa á hlutafé. Þess er vænst að viðskiptabankar og sjóðir sem hagsmuna hafa að gæta kaupi hlutdeildarbréf í sjóði þessum. Einnig
er æskilegt að Alþingi geti ráðstafað fjármagni til sjóðsins. Breytingartillögur, sem ríkisstjórnin af ofangreindum ástæðum telur nauðsynlegar, munu verða lagðar fram. Jafnframt geri ég ráð fyrir því að drög að reglugerð megi kynna áður en málið hlýtur lokaafgreiðslu á Alþingi.
    Þrátt fyrir stofnun hlutafjársjóðsins er ljóst að margra fyrirtækja bíður gjaldþrot. Í slíkum tilfellum er mikilvægast að fiskiskip haldist í viðkomandi byggðarlagi. Á það verður að leggja áherslu.
    Meðal fyrstu aðgerða ríkisstjórnarinnar á sl. hausti var að heimila Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins að taka lán að fjárhæð 800 millj. kr. Andvirði þess hefur verið notað til greiðslu verðbóta vegna framleiðslu á freðfiski og hörpudiski frá 1. júní 1988. Þessar greiðslur munu halda áfram í samræmi við fyrri

forsendur fram í maí eða á meðan það fé, sem tekið var að láni í þessu skyni, endist. Að þeim tíma liðnum falla þær niður en málið í heild verður endurskoðað á ný eftir því sem ástand á fiskmörkuðum og gjaldeyrismörkuðum gefur tilefni til. Vonir eru hins vegar bundnar við að afurðaverð hækki á ný til mótvægis við núverandi greiðslur úr Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins.
    Af sérstökum aðgerðum, sem ætlað er að treysta stöðu sjávarútvegsins til frambúðar, vil ég nefna:
    Sjútvrh. hefur látið semja frumvarp um úreldingarsjóð fiskiskipa sem er til meðferðar hjá þingflokkum ríkisstjórnarinnar. Sjóðnum er ætlað að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð. Afkoma útgerðar er nú afar slæm. Erfitt verður að bæta hana til langtíma nema fiskiskipum fækki þannig að meiri afli komi í hlut hvers skips. Sjútvrh. leggur til að stofnfé sjóðsins verði m.a. eignir Aldurslagasjóðs og hins eldri úreldingarsjóðs. Sjóðnum yrði ætlað að kaupa fiskiskip og selja þau úr landi eða eyða þeim þannig að fiskiskipum í flotanum fækki. Tekjustofn sjóðsins yrði hliðstæður núverandi tekjustofni Aldurslagasjóðs. Þá er gert ráð fyrir að aflaheimildir þeirra skipa sem sjóðurinn kaupir flytjist til hans og verði þeim endurráðstafað til þeirra fiskiskipa sem eftir verða í flotanum. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn geti þó aldrei eignast meira en sem nemur 3% af heildaraflaheimildum í einstökum tegundum veiða.
    Varið verði 100 millj. kr. til niðurgreiðslu á raforkuverði til þeirra fiskvinnslufyrirtækja sem nýta raforku tiltölulega jafnt á dags- og ársgrundvelli. Með þessari ráðstöfun lækkar raforkuverð til frystihúsa að meðaltali um 25%. Það vegur um það bil 0,5% í rekstrarafkomu.
    Stofnuð verði sérstök þróunardeild við Fiskveiðasjóð Íslands. Deildin tekur við eignum og skuldum Fiskimálasjóðs. Hlutverk hennar verður að veita þeim aðilum, sem starfa að nýjungum í sjávarútvegi, lán eða framlög til þróunar- og rannsóknarverkefna.
    Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir því að þær hugmyndir um afla- og upplýsingamiðlun, sem samtök hagsmunaaðila í sjávarútvegi hafa rætt undanfarna mánuði, komist til framkvæmda. Hlutverk þeirrar starfsemi verður að miðla upplýsingum um afla og upplýsingum um ástand og horfur á helstu fiskmörkuðum erlendis milli kaupenda og seljenda. Samtök aðila í sjávarútvegi munu alfarið annast starfsemina og hafa hönd í bagga um að tryggja jafnt og stöðugt framboð á erlenda ísfiskmarkaðnum í samræmi við skuldbindingar okkar og samninga.
    Sú margþætta starfsemi, er lýtur að því að auka verðmætasköpun úr takmörkuðu sjávarfangi, verður efld. Að sumum þessara atriða hefur verið unnið í mörg ár með góðum árangri, en önnur eru í undirbúningi. Þrír helstu þættir eru: gæðamál, fullnýting afla og starfsmenntun. Gerð hefur verið áætlun um gæðaátak í sjávarútvegi til fjögurra ára. Er ætlunin að nýta í ríkari mæli þær gæðastjórnunaraðferðir sem tíðkast við framleiðslu í

iðnvæddum ríkjum heims. Ríkismat sjávarafurða hefur forustu um framkvæmd þessa máls í samvinnu við fyrirtæki í sjávarútvegi. Hluti þess afla sem úr sjó er dreginn fer í súginn, þar á meðal verðmætir hlutir eins og lifrin. Með samstilltu átaki og auknum rannsóknum má bæta nýtingu aflans. Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins verður falin forusta í þessu máli.
    Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar hefur starfað um nokkurra ára skeið með mjög góðum árangri. Starfsemi hennar þarf að efla og jafnframt þarf að útvíkka verksvið nefndarinnar þannig að það nái einnig til sjómanna og stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja. Til að samræma og skipuleggja hina ýmsu þætti þessa starfs verður komið á samstarfshópi sjútvrn. og þeirra stofnana er að þessum málum vinna. Er ætlunin að kostnaður vegna gæðaátaks geti orðið á bilinu 10--15 millj. kr. en kostnaður vegna vinnu og tilrauna til fullnýtingar afla á bilinu 20--25 millj. kr.
    Á sviði landbúnaðar er hafin endurskoðun á fyrirkomulagi rekstrar- og afurðalána. Í undirbúningi er athugun á samkeppnisstöðu innlendrar grænmetisframleiðslu og ný reglugerð er væntanleg um innflutningsmálefni sömu greinar. Ætlunin er að hefja vinnu er lýtur að atvinnumöguleikum í strjálbýli og skoða þar sérstaklega aðstöðu kvenna. Í því sambandi er mikilvægt að styðja við bakið á greinum eins og ferðaþjónustu og hlunnindanýtingu jafnframt því að
leita nýrra möguleika. Hafin er vinna við mótun nýrrar framleiðslustefnu í landbúnaði og undirbúningur að viðræðum milli ríkisvaldsins og bænda um nýjan grundvöll búvöruframleiðslunnar. Í þessu starfi verður sérstök áhersla lögð á að samræma búskaparhætti landkostum og markmiðum æskilegrar landnýtingar, jafna kjör og bæta aðstæður bænda og tengja skipulag landbúnaðarins markmiðum stjórnvalda í byggðamálum. Höfuðmarkmiðið er öflugur og vel rekinn landbúnaður sem fullnægir þörfum landsmanna fyrir sem flestar tegundir búvöru í hæsta gæðaflokki. Í undirbúningi eru margþættar aðgerðir og efld starfsemi í landgræðslu og skógrækt sem tengja verður breyttum búskaparháttum og víðtækari landnýtingaráætlun.
    Útflutnings- og samkeppnisiðnaður hefur notið góðs af þeim almennu breytingum sem gerðar hafa verið á gengi og vöxtum. Sérstakt átak í þágu iðnaðarins er þó óhjákvæmilegt. Tryggja verður íslenskum fyrirtækjum aðgang að lánsfé til uppbyggingar og reksturs þannig að þau njóti jafnræðis við fyrirtæki í sjávarútvegi hvað varðar aðgang að fjármagni og lánskjör. Í fyrstu aðgerðum ríkisstjórnarinnar fólst sérstakur stuðningur við ullariðnaðinn og jafnframt fóru af hálfu iðnrn. fram viðræður við forsvarsmenn ullarvörufyrirtækja um aukið samstarf í markaðsmálum. Þær viðræður hafa nú skilað sér í viljayfirlýsingu tveggja stærstu aðilanna á þessu sviði, Álafoss hf. og Hildu hf., um að auka samvinnu í Bandaríkjunum. Unnið er að víðtækari samvinnu þessara og annarra íslenskra ullarvörufyrirtækja á

útflutningsmörkuðum í Evrópu og Asíu. Unnið er að endurskoðun vörugjalds þannig að álagning og innheimta þess geri ekki stöðu íslensks iðnaðar lakari í samkeppni við innfluttan iðnvarning.
    Þá er einnig unnið að því að samræma skattlagningu verkstæða og verksmiðjuframleiðslu í byggingariðnaði annars vegar og framleiðslu á byggingarstað hins vegar. Vandlega mun verða fylgst með undirboðum á innfluttum iðnvarningi og jöfnunargjaldi beitt þar sem slík undirboð virðast sannanleg. Þess mun einnig verða vandlega gætt að innfluttur iðnvarningur fullnægi íslenskum reglum um hollustu og gæði. Hefur heilbr.- og trmrn. þegar sett reglur sem að þessu lúta.
    Í samvinnu iðnrn. og hagsmunaaðila hefur erlendur ráðgjafi verið ráðinn til þess að gera úttekt á íslenska skipasmíðaiðnaðinum, getu hans og framtíðarmöguleikum. Á grundvelli niðurstaðna þessa ráðgjafa mun á næstunni verða unnið að mótun nýrrar stefnu í málefnum skipasmíðaiðnaðarins hér á landi sem byggist á aukinni samvinnu fyrirtækja á sviði skipasmíði og markaðsstarfs, aukinni tæknivæðingu, þróun nýjunga og bættri þjónustu við íslenska skipaeigendur.
    Vaxandi úrgangur frá byggð og atvinnulífi er vandamál hér á landi, bæði hvað varðar umhverfisvernd og sóun verðmæta. Af því tilefni mun ríkisstjórnin beita sér fyrir lagasetningu sem leggi skilagjöld á einnota drykkjarvöruumbúðir og iðnrn. mun hafa frumkvæði að stofnun sérstaks fyrirtækis sem taki að sér söfnun umbúða og ráðstöfun þeirra til endurvinnslu.
    Unnið er að athugun á því hvernig nýta megi orkulindir landsins til atvinnuuppbyggingar. Ríkisstjórnin mun leita leiða til þess að sú atvinnuuppbygging geti stuðlað að sem æskilegastri búsetu og iðnþróun og byggðaþróun og að ný fyrirtæki jafnt á sviði frumvinnslu sem á sviði úrvinnslu styrki afkomu og frekari uppbyggingu byggðarinnar í öllum landshlutum.
    Ríkisstjórnin hefur átt viðræður við ýmsa fulltrúa launafólks og atvinnurekenda. Hafa þeim einkum verið kynntar niðurstöður af þeirri könnun sem fram hefur farið á stöðu atvinnulífsins. Eftir að stefna ríkisstjórnarinnar hefur nú verið kynnt á Alþingi mun ríkisstjórnin bjóða þessum aðilum til viðræðna um framkvæmd hennar og þá stefnu í launamálum sem fylgja verður.
    Eins og fram hefur komið í athugun Þjóðhagsstofnunar hefur þáttur launa í þjóðartekjum aukist mjög á undanförnum árum. Hann hefur aukist frá því að vera 65% svonefndra þáttatekna í yfir 72%. Þetta er hærra hlutfall þjóðartekna sem ráðstafað er til launa en þjóðarbúið þolir. Þessi aukning stafar að öllum líkindum ekki síst af miklum yfirborgunum á þenslutímum undanfarinna ára. Skynsamlegasta leiðin til þess að draga úr heildarlaunakostnaðinum er að slíkar yfirborganir hverfi og umsamdir kauptaxtar ráði launagreiðslum.
    Við þær aðstæður sem nú eru, með um það bil

5,5% samdrátt í afla á yfirstandandi ári og lækkun þjóðartekna um 2--3%, getur ekki orðið um kaupmáttaraukningu að ræða. Það mundi setja öll markmið um endurreisn atvinnulífsins í hættu og gæti leitt til lækkunar á gengi og verðbólgu. Ríkisstjórnin telur skynsamlegast að leggja áherslu á eftirgreind atriði launþegum til kjarabóta: Atvinnuöryggi í öllum byggðarlögum, jöfnun kjara og lækkun fjármagnskostnaðar. Ríkisstjórnin er jafnframt reiðubúin til að gera það sem í hennar valdi stendur til að verja kaupmáttinn, m.a. með lækkun á verði helstu nauðsynja, t.d. innlendra matvæla. Þótt samningar um kaup og kjör hljóti að sjálfsögðu að vera á ábyrgð atvinnurekenda og launþega er ríkisstjórnin reiðubúin til þess að gera það sem hún má til að stuðla að
skynsamlegum samningum.
    Ég hef nú lýst þeim efnahagsaðgerðum sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að við taki af fyrstu aðgerðum á þessu sviði. Á næstu dögum munu ýmis frumvörp sem tryggja eiga framgang þessarar stefnu verða lögð fyrir Alþingi. Mikilvægt er að þau fái skjóta afgreiðslu. Um það vill ríkisstjórnin hafa góða samvinnu við stjórnarandstöðuna.
    Okkur Íslendingum er tamt að leita að sökudólg í hverjum vanda. Það er aukaatriði nú. Ýmsir samverkandi þættir hafa leitt til þeirra erfiðleika sem við Íslendingar eigum nú við að stríða. Mikilvægast er að vinna sig hægt og sígandi en örugglega úr þessum erfiðleikum og án kollsteypu í efnahagsmálum. Um það eigum við öll að geta sameinast. Það er meginmarkmið þeirrar efnahagsstefnu sem ég hef lýst.
    Að lokum vil ég geta þess að fulltrúar þeirra flokka sem að ríkisstjórninni standa hafa síðustu vikurnar átt viðræður við Borgfl. um þátttöku í ríkisstjórn. Þær viðræður hafa að mínu mati verið mjög jákvæðar. Mér hefur sýnst koma fram ríkur vilji hjá Borgfl. til þess að taka á þeim erfiðleikum sem íslenskt atvinnulíf á nú við að stríða. Borgfl. hefur lagt fram tillögur í ýmsum málaflokkum. Þeir flokkar sem standa að núverandi ríkisstjórn geta samþykkt þær að mjög miklu leyti og reyndar eru ýmsar þær tillögur nú komnar í það efni, sem ég hef lýst, t.d. í skattamálum. Fulltrúar Borgfl. hafa lagt mikla áherslu á lækkun á verði innlendra matvæla. Það gerir ríkisstjórnin einnig eins og fram kemur í málefnasamningi og ég hef ítrekað hér. Eðlilegt er að það gerist í tengslum við kjarasamninga.
    Það er von mín að viðræðum á milli Borgfl. og þeirra sem að núverandi ríkisstjórn standa ljúki með því að þessir aðilar ákveði að starfa saman í ríkisstjórn og vinna saman að þeim stóru verkefnum sem við blasa.