Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Á fundi sem ég sat með formönnum þingflokka nú eftir hádegi var frá því gengið að það yrði kvöldfundur hér í kvöld og um það var samkomulag að þessari umræðu mundi ljúka í kvöld. Ég vil jafnframt taka það fram að það er með öllu óviðunandi, þegar hæstv. forsrh. leggur hér fram það sem ríkisstjórnin vill kalla stefnumótun í efnahagsmálum, að fulltrúar Alþfl. og Alþb. skuli ekki taka til máls við þessar umræður þannig að fyrir liggi nú á þessum degi hver sé afstaða þeirra til þess sem hæstv. forsrh. vill kalla stefnumörkun í efnahagsmálum. Ég gerði athugasemd við það á fundinum í morgun og spurðist þá fyrir um hvort svo væri enn, sem fram hefði komið í sjónvarpsþætti hjá hæstv. sjútvrh., að hæstv. forsrh. hefði bannað öðrum mönnum í ríkisstjórninni að tala um efnahagsmál og svo virðist sem það bann standi enn. En þá vil ég segja við hæstv. sjútvrh. að það þarf sérstakt geð til að sitja undir því hér að áfram skuli halda sömu stefnu í efnahags- og gjaldeyrismálum á sama tíma og sjávarútvegurinn hefur á sl. ári tapað helmingnum af sínu eigin fé og ég tók áreiðanlega rétt eftir að hæstv. forsrh. talaði um að það væru 13 milljarðar kr. Ég vil ekki trúa því, hæstv. forseti, að hæstv. sjútvrh. styðji mig ekki í því að hann telji nauðsynlegt að koma hér upp í dag til að gera grein fyrir sínum málaflokki, tali úr þessum ræðustól í kvöld og skýri fyrir þjóðinni hvernig það megi saman koma, sú hörmung sem hæstv. forsrh. var að lýsa áðan og hitt sem maður kallar hagsmuni sjávarútvegsins, hagsmuni hinna dreifðu byggða, hagsmuni okkar Íslendinga raunar allra, því það er rétt, sem formaður Sjálfstfl. sagði hér áðan, að sómasamlegum lífskjörum verður ekki haldið uppi í landinu nema vel rekin sjávarútvegsfyrirtæki séu til í þessu landi. Það verður ekki hægt að halda hér uppi blómlegum byggðum, það verður ekki hægt að halda hér uppi batnandi lífskjörum ef sú stefna á að vera ríkjandi í þessu landi að þjóðnýta fyrirtækin aftan frá, skipuleggja þannig efnahagsmálin að öll sjávarútvegsfyrirtækin séu rekin með halla og síðan á að bæta það upp með því að moka í fyrirtækin úr ríkissjóði úr sérstökum sjóðum sem enginn stjórnarandstæðingur má koma að.
    Ég held þess vegna, hæstv. forseti, og ég trúi ekki öðru en það standi sem við komum okkur saman um hér fyrr í dag, það standi að þessi umræða haldi áfram. Það er algerlega óviðunandi annað.
    Landbrh. á líka eftir að fylla upp í þær eyður sem voru í ræðu hæstv. forsrh. Það er ekki bara að formaður Alþfl. og formaður Alþb. þurfi að gera hér grein fyrir sínum málum heldur hygg ég að hæstv. landbrh. þurfi sömuleiðis að gera grein fyrir því sem að honum snýr og ég tók ekki betur eftir en ekki hafi verið minnst einu einasta orði á húsnæðismálin og þó liggur fyrir að þau hafa ekki verið í jafnhörmulegu ástandi og núna síðasta áratuginn. ( Forseti: Er hv. þm. að tala um þingsköp?) Ég er að tala um nauðsyn þess að umræðum sé haldið áfram, hæstv. forseti, og get ekki skilið annað en við því verði orðið. Fyrir því

er öll sanngirni. Fyrir því er öll réttsýni. Fyrir því eru málefnalegar ástæður. Þetta nugg og juð um að stjórnarandstaðan megi ekki komast að nema í svo sem einn eða tvo tíma eftir allt þetta langa hlé er auðvitað algerlega út í hött, óviðunandi, ósæmandi og hæfir ekki þeirri stofnun sem við erum nú hér inni í. Ég vil því skora á hæstv. forseta að endurskoða sína afstöðu, leyfa hv. þm. að varpa fyrirspurnum til ráðherra, gefa ráðherrunum tækifæri til að sitja fyrir svörum og skýra það sem þeir vilja kalla nú hinn nýja boðskap þessarar ríkisstjórnar. Mér skildist á ýmsu sem hæstv. forsrh. sagði áðan sem hann vildi láta sýnast sem svo að hann væri kominn niður úr fílabeinsturninum þó svo hann hafi gefið það í skyn í sjónvarpsþætti fyrr í vikunni að utanrrh. væri kominn upp í turninn í staðinn. Og ég vil líka minna á að þegar hæstv. forsrh. var spurður um það hvort hann teldi enn að þjóðargjaldþrot væri fram undan sagði hæstv. forsrh. eitthvað á þá lund að hann hefði komið til landsins fyrir svo sem einu ári og þá sagt: Róm brennur. Skyldi Róm brenna núna? ( Forseti: Má ég biðja þingmanninn að halda sig við þingsköp.) Eru það brunabjöllurnar sem klingja fyrir aftan mig á meðan verið er að brenna upp eigið fé fyrirtækjanna úti á landsbyggðinni?