Albert Guðmundsson:
    Virðulegi forseti. Ég sé að menn eru komnir vel hvíldir úr jólafríinu sem enginn óskaði eftir, en ég get ekki séð hvernig hægt er að slíta fundi í lausu lofti rétt eftir að forsrh. tekur klukkutíma rúman af ræðutíma til að boða ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég sit í lausu lofti eftir hans ræðu nema það að minn flokkur, Borgfl., sé á leiðinni inn í ríkisstjórn sem mér er bara ekkert kunnugt um. Ég vil fá staðfest í umræðu hvort það er rétt sem hæstv. forsrh. fullyrðir hér um minn flokk á sama tíma sem formaður flokksins kemur upp í ræðustól og mótmælir með tali sínu þeim ráðstöfunum sem hæstv. forsrh. er að boða og talar á móti þeim. Ég skil þörf ríkisstjórnarinnar fyrir gott fólk í ríkisstjórn, en ég skil ekki ákafa forsrh. né heldur þann áhuga sem ég hef orðið var við annars staðar hjá sumum borgaraflokksmönnum um að fara í ríkisstjórnina. Ég vil fá umræður um þetta. Það er alveg útilokað að geyma þær til næsta fimmtudags ef fundur er ekki fyrr en þá. Ég óska eftir því að þessari umræðu verði haldið áfram. Það er þjóðinni nauðsynlegt að vita hvort ríkisstjórnin er eða er ekki, hvort það er að koma ný ríkisstjórn eða ekki. En það er alveg eins víst eins og ég stend hér og brýt illa á virðulegum forseta, sem ég bið hann um að afsaka augnablik, að ef spádómur forsrh. er réttur er í burðarliðnum annar þingflokkur og það getur alls ekki beðið. Það er ekki hægt að láta slík mál dansa í lausu lofti. Við skulum tala þá íslensku sem fólk skilur. Það er ekkert verið að ráðstafa meiri eða minni hluta í einum þingflokki.