Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Það hefur komið fram í ræðum hv. þm. að þeir hafa miklar áhyggjur af útflutningsatvinnuvegunum og þá sérstaklega sjávarútveginum og er það vel og full ástæða til þess. Hitt er svo annað mál að til að gera sér grein fyrir stöðu sjávarútvegsins sem er okkar mikilvægasta útflutningsgrein er nauðsynlegt að fara nokkuð aftur í tímann til að varpa ljósi á það sem þar hefur gerst. Það kom fram í ræðu hv. 1. þm. Suðurl. og hv. 1. þm. Reykv. að gengisstefnan væri ráðandi um hvernig gengi í þessari atvinnugrein og get ég í sjálfu sér tekið undir það, þ.e. það sem skiptir máli er að raungengi hinnar íslensku krónu sé sem stöðugast.
    Nú held ég að allir geti verið sammála um að það var á árinu 1987 sem ýmislegt fór úrskeiðis í okkar efnahagsmálum og þar af leiðandi er algjör óþarfi að halda því fram að þetta sé nú allt saman vegna þess að Alþb. hafi komið inn í ríkisstjórn og það sé þess vegna sem öll þessi bölvun hafi komið yfir okkur. Það er alls ekki svo því að eftir að þeir komu í ríkisstjórn hefur raungengið verið heldur að lagast þannig að samkvæmt því hafa þeir heldur verið til góðs.
    En það var á árinu 1986 að raungengi hinnar íslensku krónu var miðað við verðlag 92,7 ef miðað er við 100 1980 en miðað við laun 87,6 ef miðað er líka við 100 1980 en raungengið var svipað 1979. Það gerist hins vegar á árinu 1987 að þetta sama raungengi miðað við launakostnað fer úr 87,6 í 107,6 og miðað við verðlag úr 92,7 í 101,2. Það var á þessu ári sem mikil bjartsýni var hér í landinu. Menn héldu að það væri allt að fara á betri veg. Það var m.a. kosningaár og þegar ríkisstjórn var mynduð vorið 1987 voru menn ekki nógu raunsæir um stöðu mála og á það jafnt við þann sem hér stendur og ýmsa aðra sem að því stóðu. Það var hins vegar alveg ljóst strax haustið 1987 að hér var ýmislegt á ferðinni sem þurfti að gá að og það fyrsta sem kom fram þá um haustið að laun áttu að hækka í byrjun október verulega þótt það væri alveg ljóst að það var ekkert til fyrir þessari launahækkun og ekkert það fram undan sem réttlætti hana. Um það var fjallað við aðila vinnumarkaðarins, en niðurstaðan eftir alllanga umræðu um það mál, m.a. í ríkisstjórn, að það væri ekki ráðlegt eftir að sú launahækkun væri gengin yfir að breyta gengi hinnar íslensku krónu vegna þess að þar yrði ekki um raungengisbreytingu að ræða vegna þess að launasamningar væru fram undan og það mundi hafa slæm áhrif á vinnumarkaðinn.
    Um þetta voru skiptar skoðanir eins og gengur, enda er engin ein skoðun rétt í þessu sambandi. Hér er vissulega um matskennt atriði að ræða, hvort og hvenær tekst að koma fram raungengisbreytingu.
    Síðan áttu sér stað launasamningar veturinn 1988, fyrir u.þ.b. ári. Þar urðu miklar launahækkanir, meiri en aðilar vinnumarkaðarins tjáðu þjóðinni að raunin væri, sem m.a. leiddi til þess að það þurfti að breyta genginu um veturinn og aftur um vorið. Var það nánast eingöngu til að jafna upp á móti þeim miklu

launabreytingum sem þá urðu. Jafnframt var þá samþykkt heimild til Seðlabankans til að breyta genginu um 3% þá um vorið ef ástæða væri til. Seðlabankinn sá ekki ástæðu til þess og um það voru menn ekki allir sammála í ríkisstjórn þótt ástæðan væri í reynd augljós. Það þurfti nánast ríkisstjórnarskipti í landinu til að nýta þá heimild þótt í reynd væru allir sammála um að slíkt væri nauðsynlegt og Sjálfstfl. segði þá um haustið að það þyrfti meiri breytingu.
    Svo varð gengisbreyting aftur nú um áramótin og síðan hefur dollarinn hækkað nokkuð og nú hefur genginu verið breytt um 2,5% þannig að raungengi miðað við verðlag er trúlega u.þ.b. 99 miðað við 100 1980 og miðað við launakostnað 102 miðað við 100 1980.
    Þetta raungengi er vissulega heldur hátt miðað við stöðu útflutningsatvinnuveganna og miðað við viðskiptahallann, en hins vegar hefur það breyst mjög til hins betra og á það jafnt við nú eins og oft áður að menn velta því fyrir sér hvort mögulegt sé við þær aðstæður sem nú eru að koma fram raungengisbreytingu eða ekki. Miðað við að nýta þá heimild sem nú er fyrir hendi, sem er ekki mikil, 2,25%, má gera ráð fyrir því að mögulegt sé að koma raungenginu lítið eitt neðar.
    Þetta er eins og hv. 1. þm. Suðurl. sagði, menn gera þetta ekki rétt eins og að smella saman fingrunum. Menn ná ekki niður viðskiptahalla með því að smella saman fingrunum. Það er mikið mál og erfitt. Það þýðir kjaraskerðingu, það þýðir margvíslegan samdrátt o.s.frv. Og það vill nú svo til að 1987 var viðskiptahalli 3,5% af landsframleiðslu, er áætlaður 4,6% 1988, var áætlaður 4,5% 1989, en gera má ráð fyrir við þessar aðstæður að viðskiptahalli á árinu 1989 verði 3% ef ekkert fer frekar úrskeiðis það sem eftir er ársins og raungengi lækkar lítið eitt frá því sem nú er. Það er vissulega verulegur árangur að ná viðskiptahallanum það mikið niður þótt vissulega þyrfti hann að fara neðar, sérstaklega þegar haft er í huga að allmikið af dýrum fjárfestingarvörum mun væntanlega koma inn í landið á árinu 1989, eins og flugvélar.
    Hvernig er þá staða sjávarútvegsins í dag miðað við þessar aðstæður? Er þar áframhaldandi taprekstur eins og hér hefur verið haldið fram? Ég tek undir það að það er að sjálfsögðu mikilvægast að stöðva tapreksturinn í sjávarútveginum. Miðað við þá útreikninga sem við erum vanastir að fá í hendur frá Þjóðhagsstofnun og eru grundvöllur ákvarðana á sviði tekjuskiptingar innan sjávarútvegsins kemur fram að frystingin sé rekin nú í byrjun febrúar, miðað við kaupgengi dollars 50,06, með 2,5% halla sem þýðir að þegar nýtt gengi verður skráð í fyrramálið mun þessi 2,5% halli vera kominn í núll miðað við 6% ávöxtun og þá heldur betur þegar það loks kemst til framkvæmda sem nú er ákveðið og hefði þurft að hafa gerst áður, ég tek undir það, að greiða niður orkukostnað í sjávarútveginum sem munar um 0,5%.
    Saltfiskvinnslan er rekin samkvæmt þessari áætlun

Þjóðhagsstofnunar með 4,4% hagnaði við þessar aðstæður, en þar eru ýmsar blikur á lofti sem vonandi koma ekki fram því að það yrði mikið áfall fyrir saltfiskverkunina. Það má því segja að samkvæmt þessu hefur tapreksturinn í vinnslunni verið stöðvaður, a.m.k. að mestu. Það eru vissulega deilur um það hvernig eigi að túlka þessar niðurstöður og þar eru engin algild sannindi. Auðvitað get ég tekið undir það að miðað við hvað áður hefur gerst þarf að vera hagnaður en ekki hallaleysi eða núll og alls ekki tap. Allt er þetta þó heldur á betri leið.
    Það sem er ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af er taprekstur í botnfiskveiðunum, en þar er að vísu samkvæmt þessum sömu útreikningum, miðað við 6% ávöxtun, lítill sem enginn halli á togarunum en halli á bátaflotanum á ársgrundvelli tæpar 1100 millj. eða 13%, og sá halli mun aukast lítillega með þessari breytingu á gengi miðað við óbreytt fiskverð. En nú liggur það fyrir, og er eitt af mikilvægustu verkefnum á næstunni, að fást við tekjuskiptinguna innan sjávarútvegsins og ákveða fiskverð. Ég held að öllum megi vera það ljóst að miðað við þær litlu breytingar sem hafa orðið á fiskverði og afkomu flotans, sérstaklega bátaflotans, er ekki hægt að gera ráð fyrir að fiskverð verði óbreytt. Hins vegar er mikilvægt að það breytist ekki um of þannig að það raski ekki öðrum tekjuskiptingarmálum í þjóðfélaginu því að ef við missum þá skrúfu alla af stað er illa komið fyrir okkur eins og svo oft áður.
    Hitt er svo annað mál að þetta mikla tap í bátaflotanum verður ekki lagfært með gengisbreytingu eða fiskverðshækkun einni saman. Þarna hefur kostnaður hækkað meira en kemur fram í reikningum togaranna sem vekur að vísu nokkra undrun, en nú er til sérstakrar athugunar og má hafa uppi nokkrar efasemdir um það að hallarekstur bátaflotans sé svona mikill. Hér er um loðnuskip að ræða, en afkoma í þeirri grein er viðunandi um þessar mundir þótt það komi ekki fram í þessum reikningum.
    Þetta vildi ég taka fram vegna þeirra orða sem hér hafa komið fram um að ekkert sé verið að gera, það sé aðeins stefnt að markvissri eignaupptöku í sjávarútvegi o.s.frv., það gangi allt í þveröfuga átt. Svo er alls ekki þótt betur mætti ganga. Sannleikurinn er sá að raungengið fór allt of hátt á árunum 1987 og 1988 og það reynist erfitt að koma því aftur á réttan stað. Það eru ekki eingöngu stjórnvöld sem geta ráðið við það. Það eru ekkert síður hinir ýmsu aðilar í þjóðfélaginu, m.a. aðilar vinnumarkaðarins sem hljóta að geta lesið þau skilaboð út úr þessum tölum að þar er ekkert að fá. Það er ekki hægt að semja um almennar launahækkanir í þjóðfélaginu við þessar aðstæður þótt alltaf sé hægt að breyta tekjuskiptingunni eitthvað. Hver hugsandi maður hlýtur hins vegar að sjá að þessar aðstæður gefa ekkert tilefni til þess og sjávarútvegurinn þarf fremur á því að halda að þetta raungengi þokist heldur áfram til betri vegar þannig að hann fái staðið við þær miklu skuldbindingar sem hann hefur tekið á sig. Í því sambandi er mjög mikilvægt að dreifa skuldabyrðinni

þannig að hægt sé að greiða þær til baka með eðlilegum hætti og til þess þarf sjávarútvegurinn langan frið og jákvæða afkomu. Það var slæm staða í sjávarútvegi 1983 og hann þurfti á því að halda að byggja sig upp frá þeirri stöðu. Það var augljóst að hann mundi þurfa mörg ár til þess og það gekk bærilega þar til á árunum 1987 og 1988. Það er verkefni okkar að koma þessari atvinnugrein inn á sömu braut þannig að hún búi við eðlilegt raungengi.
    Það kom hér fram í ræðum hv. þm., 1. þm. Suðurl. og 1. þm. Reykv., að undarlegt væri að nú væri farið að tala um úreldingarsjóð og það er rétt hjá hv. þm., það er engin ný hugsun. Hún hefur oft verið uppi áður og var beinlínis ákveðið þegar svokallað sjóðakerfi var lagt niður að úreldingarsjóður yrði stofnaður. Það kom fram hjá hv. 1. þm. Suðurl. að menn hafa ekki náð því meginmarkmiði fiskveiðistefnunnar að sameina veiðiheimildir nægilega. Það er vissulega rétt og það er einfaldlega vegna þess að það hefur aldrei fengist samþykkt hér á hv. Alþingi að þessi löggjöf gilti til lengri tíma en helst eins eða tveggja ára. Um það hefur ekki verið pólitískt samkomulag og þar af leiðandi lítill áhugi fyrir sameiningu veiðiheimilda.
    Mér er það alveg ljóst að afkoma bátaflotans verður ekki lagfærð, svo að dæmi sé tekið, nema með skipulagsbreytingum, þ.e. að hluti af bátaflotanum fari úr rekstri og aðrir fái rýmri veiðiheimildir því að kostnaður þar er hlutfallslega meiri en fram kemur í reikningum togaranna þannig að þessir
bátar þurfa einfaldlega á meiri afla að halda þótt þar komi ýmislegt til sem ég skal ekki rekja hér í þessari stuttu ræðu, eins og t.d. fiskiganga á vertíðarslóð og að tiltölulega lítið af þorskstofninum hefur náð þeim aldri að vertíðir séu hér nægilega góðar. Það er hins vegar mjög nauðsynlegt að fækka skipum í bátaflotanum og þessi flokkur skipa þarf að fá þær veiðiheimildir sem falla niður. Það má ekki halda áfram með þeim hætti sem gert var t.d. í fyrra, að veiðiheimildir hluta bátaflotans voru fluttar m.a. yfir á frystitogarana. Til þess að þessu verði komið fram er óhjákvæmilegt að taka upp úreldingarsjóð því að það mun reynast erfitt að sameina fiskveiðiheimildir í bátaflotanum nema með aðstoð slíks sjóðs. Um þetta mál hafa verið samin drög að frv. sem ég mun að sjálfsögðu koma til allra stjórnmálaflokkanna hér á Alþingi núna í vikunni þannig að þeir geti litið betur á það mál og íhugað það.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um stöðu sjávarútvegsins. Ég vil taka undir það að hún er mjög erfið um þessar mundir og hefur verið það um langt skeið og það mun taka langan tíma fyrir þessa atvinnugrein að ná sér á ný eftir þau áföll sem hún hefur lent í. En að halda því fram að hér sé stefnt að þjóðnýtingu og eignaupptöku er út í hött að mínum dómi. Það er stefnt að því að sjávarútvegurinn búi við raungengi þar sem hann getur skilað hagnaði, en vissulega verða menn líka að líta til framtíðarinnar með aðeins bjartari augum en oft er gert. Við hljótum að vonast eftir því að verðhækkanir verði á ný á

okkar mörkuðum og birgðatími fyrirtækjanna styttist. Það hefur verið mikið álag fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi að þurfa að liggja með birgðir á háum vöxtum jafnvel mánuðum saman. En aðeins fyrir tiltölulega stuttum tíma var þessi birgðahaldstími örfáar vikur. Ef sala örvast á ný sem ástæða er til að ætla, m.a. vegna þess ástands sem ríkir hér í kringum okkur, bæði í Kanada, Noregi og í Norðursjó, hlýtur það að breyta verulega fyrir sjávarútveginn. Hitt er svo annað mál að menn sjá ekki framan í þessa þróun á þessum degi, en vonandi breytist staðan með vorinu, þannig að t.d. verðhækkanir gætu leyst útgreiðsluna úr Verðjöfnunarsjóði af hólmi. Ef svo verður ekki hlýtur það að koma til athugunar hvort ekki sé rétt að framlengja þá greiðslu í einhvern tíma þótt menn hljóti samt að vona að þess þurfi ekki því að það getur ekki verið ráðlegt til langframa að greiða til atvinnugreinarinnar með slíkum hætti og á enginn að stefna að því og núv. ríkisstjórn gerir það ekki.
    Ég vildi aðeins út af fsp. hv. 7. þm. Norðurl. e. um ákveðið mál er varðar Húsavík geta þess að það mál ásamt öðrum verður rætt í hv. utanrmn. á morgun þar sem ég vænti að fulltrúi flokks hennar verði viðstaddur. Munu upplýsingar um þau mál verða lögð fram í nefndinni og vænti ég þess að hv. þm. skilji að ég vildi gjarnan bíða með umræðu um það mál þar til það hefur verið rætt í hv. utanrmn.