Halldór Blöndal:
    Hæstv. forseti. Undir lok ræðu sinnar komst hæstv. forsrh. svo að orði hér fyrr í dag, með leyfi hæstv. forseta: ,,Okkur Íslendingum er tamt að leita að sökudólg í hverjum vanda. Það er aukaatriði nú.``
    Svo mörg voru þau orð en greinilegt er á þeim samt að afsökunartónninn er hreinn. Hann skín í gegnum þessi ummæli og verður sérstaklega áberandi ef höfð eru í huga orðaskipti sem hæstv. forsrh. átti við fréttamenn á Stöð 2 nú um mánaðamótin síðustu, en þá minnti fréttamaður Stöðvar 2 forsrh. á að hann hefði setið í ríkisstjórn um 10 ára skeið og væri nú loks kominn að þeirri niðurstöðu að eftir allan þennan tíma hefði þjóðin aldrei staðið nær þjóðargjaldþroti en einmitt þegar þessi hátíð rynni upp, 10 ára seta forsrh. í ráðherrastól, og spurði forsrh. þeirrar spurningar hvort hann væri sjálfur mesti efnahagsvandinn. ,,Það getur vel verið,,, svaraði hæstv. forsrh., ,,og það kemur maður í manns stað og það er auðvelt að losna við mig. En það er ekki auðvelt að gera 70--80 sjávarútvegsfyrirtæki gjaldþrota og það er ekki auðvelt að gera 16--20 byggðarlög gjaldþrota svo að ég er tilbúinn að víkja fyrir hverjum sem er sem getur gert það.`` Svo mörg voru þau orð.
    Auðvitað er hæstv. forsrh. með þessum ummælum sínum að gefa í skyn að fyrirrennari hans í forsætisráðherrastóli hafi með lítilli stjórnvisku komið þjóð sinni í þennan vanda og það fannst líka spyrli því að hann sagði þá við hæstv. forsrh.: ,,En það er auðvelt að sitja í ríkisstjórn og koma svo út úr henni og segja: Ég sat í fílabeinsturni, eins og þú sagðir, þegar síðasta ríkisstjórn slitnaði.`` Hæstv. forsrh. svaraði: ,,Það hefur oft verið talað um það að utanrrh. sé afar mikið erlendis og hann er það. Hann er afar mikið erlendis.`` ,,En þið voruð alltaf að demba inn efnahagstillögum,,, sagði fréttamaður. ,,Ég kom að vísu á fund í Reykjavík fyrir ári og orðaði það svo: Róm brennur, og það reyndust því miður orð að sönnu svo að ég a.m.k. skaust út úr þeim turni og sagði það sem reynst hefur satt í þessum málum.`` ,,En er það ekki slæm einkunn, Róm brennur, eftir tíu ára stjórnarsetu þína,,, spyr spyrillinn. ,,Það er aðalatriðið að gera sér grein fyrir því hvert stefnir og bregða við í tíma.``
    Þetta er kafli úr orðaskiptum fréttamanns sjónvarps og hæstv. forsrh. í Stöð 2 nú um mánaðamótin janúar--febrúar og það er eftirtektarvert með hliðsjón af þessu mati hæstv. forsrh. að rifja það upp að í ræðu sinni hér fyrr í dag sagði hann, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Á sl. ári er talið að eigið fé í sjávarútvegi hafi rýrnað um u.þ.b. helming eða fallið úr um það bil 26 milljörðum í 13 milljarða kr.``
    Ef ég á að taka hæstv. forsrh. alvarlega get ég ekki skilið það öðruvísi en svo að hann hafi skemmt sér við eldana allt sl. ár, hafi að síðustu tekið þann kostinn að setjast í sæti aðalleikarans og horfa svo á eldana, hvernig þeir brunnu, og það er eftirtektarvert þegar maður íhugar enn fremur það sem hæstv. forsrh. sagði í því sjónvarpsviðtali sem ég vitnaði til hér áðan þegar hann var spurður um gengismálin og afkomu

sjávarútvegsins: ,,Gengisbreyting er afgangsstærð í mínum huga,,, sagði hæstv. forsrh.
    Við sem heyrðum ræðu hæstv. sjútvrh. hér áðan fundum fljótt að gengisskráning er ekki afgangsstærð í hans huga. Hann telur sig bera ábyrgð á stöðu sjávarútvegsins, kannski frekar öðrum ráðherrum, og hann hóf ræðu sína öðruvísi. Hann byrjaði á því að segja að á hverjum tíma ætti að miða raungengi við stöðu útflutningsatvinnuveganna og miða við það að ekki yrði halli á viðskiptunum við útlönd. Má raunar segja að sama sé hvor viðmiðunin er. Þessar báðar viðmiðanir eru í lögum um Seðlabanka, en ég vil einmitt þakka hæstv. sjútvrh. fyrir að hann lagði sérstaka lykkju á leið sína í sinni ræðu til þess að koma því fram að Sjálfstfl. vildi fara lengra til leiðréttingar á genginu í septembermánuði en tilfellið varð um þá ríkisstjórn sem nú situr. Auðvitað lýsa þau ummæli hæstv. sjútvrh. því að hann finnur sárt til þess hvernig komið er fyrir sjávarútveginum. Það var einnig athyglisvert að hæstv. sjútvrh. sagði í sinni ræðu að raungengið væri of hátt nú, bæði miðað við stöðu útflutningsatvinnuveganna og vegna þess að það leiddi til halla á viðskiptunum við útlönd, um 3% er reiknað með nú í byrjun árs, en þegar talað er um að hallinn á viðskiptunum við útlönd verði 3% er áfram gert ráð fyrir að lífskjör almennings í landinu haldi áfram að versna. Það er gert ráð fyrir að gengið falli áfram um 2--3% og samtímis því haldi sú kjaraskerðing áfram sem verið hefur um skeið, eins og glögglega kom fram hjá hagfræðingi Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í fréttatíma Ríkissjónvarpsins nú í kvöld.
    Hæstv. forseti. Það er kannski viðkunnanlegt að einhver formaður einhvers stjórnarflokksins sé hér inni. Það eru þrír stjórnarflokkar. Ég veit ekki hvort má segja að einn sé í vonum til viðbótar, ég veit ekki um það, en viðkunnanlegt er að formenn stjórnarflokkanna séu viðstaddir umræður þegar um svo alvarlegt mál er að ræða sem hér er til umræðu og olli því að hæstv. sjútvrh. hálfpartinn bað afsökunar á stefnu ríkisstjórnarinnar í sínum málaflokki hér áðan. Hann komst einhvern veginn þannig að orði í byrjun sinnar ræðu að ýmsir hefðu áhyggjur af stöðu sjávarútvegsins, og er það vel. Og er
það vel, voru óbreytt orð ráðherrans. Hann skildi að þessi atvinnuvegur er ekki vel settur nú.
    Ég hafði satt að segja búist við því að hæstv. iðnrh. mundi kannski grípa tækifærið meðan formennirnir væru frammi og tala eitthvað um ullariðnaðinn sem hæstv. forsrh. talaði svo mikið um í sinni ræðu að væri verið að bjarga, eða minntist lítillega á erlenda sérfræðinginn sem á að hjálpa til í skipasmíðaiðnaðinum og minntist kannski í leiðinni á það hvernig hann ætlaði að lækka og afnema lánsfjárgjaldið af lánum vegna skipasmíðaiðnaðarins. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að óska eftir því að formenn stjórnarflokkanna verði hér viðstaddir.) Það má vera, hæstv. forseti, að það sé komið að því að skipta ráðuneytum á nýjan leik og það hafi fjölgað

um tvo ráðherra á þessari stund sem við höfum verið hér í fundarsalnum í kvöld. Það hefur hvorki sést formaður þingflokks Borgfl. né formaður Borgfl. og má vel vera að þeir séu nú að kasta upp ráðherrastólum. Má vera að svo sé. (Gripið fram í.)( EgJ: Þeir mega ekki tala. Það verður að hafa einhverja menn sem mega tala.) ( Forseti: Vill hv. þm. nafngreina einhverja sérstaka sem hann óskar eftir að fá í þingsalinn?) Ég bað um það að formenn stjórnarflokkanna yrðu viðstaddir. Það er verið að tala hér um nýja efnahagsstefnu hjá ríkisstjórninni og mér finnst alveg fáránlegt ef formenn stjórnarflokkanna geta ekki verið viðstaddir þegar verið er að ræða um efnahagsstefnuna, nýjan málefnasamning. ( Gripið fram í: Þarna eru formenn þingflokkanna.) Formenn þingflokka ráða nú litlu, en má vera hins vegar að rétt sé að fá hina. Það væri náttúrlega saga til næsta bæjar ef það yrði að gera hlé á fundinum, kannski í hálftíma, meðan verið væri að ná í formennina. (Gripið fram í.) Ég heyrði út undan mér, hæstv. forseti, að formaður þingflokks Alþfl. hefði talað um að það væri rugl að ætlast til þess að formenn stjórnarflokkanna kæmu hér í salinn, og má kannski vera að hann eigi við að það sé rugl að þeir flokkar sem þeir eru formenn fyrir skuli vera í þeirri aðstöðu hér í þinginu að vera stjórnarflokkar ( Gripið fram í: Þeir virða ekki þingræðið.) sem er auðvitað ruglið í þessu öllu saman. (Gripið fram í.) Ég fer fram á það, hæstv. forseti, að gert verði hálftíma hlé á þessum fundi á meðan ráðherrarnir eru að ljúka sér af þarna frammi. ( Gripið fram í: Er þetta nóg?) Ég skal halda ræðu minni áfram úr því að hæstv. forsrh. er kominn, en ég óska eftir því að formenn stjórnarflokkanna séu hér við. Ég get alls ekki skilið það að það geti gengið að þeir séu hér á sífelldu rási út og inn. Rási, það má kannski búa til vísu úr því og tala um að rauðkembingar blási, ég veit ekki hvernig --- það má vera. Mér finnst það mjög óviðeigandi að þessir tveir ágætu menn sem eru formenn í stjórnarflokkunum skuli ekki sjá sóma sinn í því að vera hér inni í þingsalnum. Það er raunar algjörlega makalaust. Það er líka dæmalaust að þessir tveir menn skuli ekki hafa séð ástæðu til þess að taka til máls hér í dag við þessar umræður. Þær hafa staðið, að vísu með hléum, síðan kl. 2 í dag og þeir hafa vegna sinnar sérstöku stöðu haft nóg tækifæri til að taka til máls. Það er að vísu góð regla að leyfa stjórnarandstöðu að tala á eftir forsrh. Síðan höfðu þeir tök á því að taka hér til máls og skýra afstöðu sína til þessa málefnasamnings eins og hæstv. sjútvrh. gerði mjög rækilega áðan og ég er þakklátur honum fyrir það.
    Eins og ég vék að hér áðan er það sameiginlegt mat hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh. að gengi krónunnar sé enn of hátt ef miðað er við stöðu útflutningsgreinanna og hæstv. forsrh. bætti raunar samkeppnisiðnaðinum við. Ég get þess vegna ekki séð hvaða rök hæstv. forsrh. hefur fyrir því að þessar svokölluðu efnahagsaðgerðir, sem hann er að tala um, hafi eytt óvissu í gengismálum. Ég greip fram í fyrir hæstv. ráðherra þegar hann flutti sína tölu í dag og

bað ráðherrann um að víkja sérstaklega og betur að því hvernig hann kæmist að þeirri niðurstöðu að þessi smágengisfelling nú --- er það ekki rétt einum mánuði eftir að síðasta gengisfelling var gerð --- skuli eyða óvissunni. Auðvitað veit hæstv. ráðherra jafnvel og ég að hún gerir það ekki.
    Á hinn bóginn væri líka fróðlegt að fá nánari upplýsingar um það hjá hæstv. forsrh. hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu að gengisfelling krónunnar á síðasta ári hafi ekki komið sjávarútveginum til góða. Ég held að það sé algjör misskilningur. Hæstv. forsrh. getur fljótlega gengið úr skugga um það ef hann hugsar sér dæmið hinsegin, ef hann ímyndaði sér það að í stað þess að fella gengið nú um 2,5% væri hann að hækka gengi krónunnar, og veltir fyrir sér hvernig staða útflutningsatvinnuveganna væri eftir það. Auðvitað er hæstv. forsrh. að hafa uppi orðaleik og ég vil segja blekkingar þegar hann talar í þeim dúr að útflutningsatvinnuvegirnir séu ekki háðir því, verðlagningu krónunnar á hverjum tíma, sem við erum að vinna með. Og auðvitað mælir hæstv. forsrh. þvert um hug sér, eins og raunar hæstv. fjmrh. sem hefur sagt sömu vitleysuna þrásinnis, þegar þessir tveir ráðherrar tala um það að gengisskráningin sé afgangsstærð.
    Gengi krónunnar er auðvitað lykillinn að heilbrigðu efnahagslífi. Ef þessi lykill passar ekki, ef gengið er rangt skráð, hrannast erfiðleikarnir upp og við sjáum það nú að hallareksturinn lætur ekki á sér standa. Hitt minnir
auðvitað á gamla sögu frá Kleppi. Ég man eftir því að sú saga gekk mjög þegar ég var lítill drengur að sjúklingarnir á Kleppi hefðu þá vinnu að moka sandi í hjólbörur. Síðan áttu þeir að aka hjólbörunum upp planka og hvolfa svo úr hjólbörunum þannig að sandurinn lenti á sínum fyrri stað, og þannig gekk þetta koll af kolli að þeir mokuðu í hjólbörurnar og tæmdu þær svo á sama staðinn þannig að hrúgan minnkaði ekki og þeir voru alltaf að aka sama sandinum.
    Sama er auðvitað að gerast nú. Ríkisstjórnin gerir enga tilraun til þess að rétta af sjávarútvegsfyrirtækin og reynir svo að bæta fyrir það með því að skattleggja þjóðina og þykist svo koma hlutunum í lag með því að stofna svokallaðan hlutabréfasjóð sem á að hafa það verkefni að hjálpa þeim fyrirtækjum sem eru komin á vonarvöl, sem eru gjaldþrota eftir lýsingu hæstv. forsrh. í sjónvarpinu, þó svo að hann hafi reynt að hafa mildari orð um það í ræðunni hér áðan, enda má vera að hún hafi verið yfirlesin af öðrum. Það er algjörlega rangt sem hér stendur í ræðunni: Í þessu sambandi er sérstaklega mikilvægur hlutafjársjóður sá er stjórnarandstaðan gerði tillögu um og samþykktur hefur verið eftir 2. umr. í Nd. o.s.frv. Stjórnarandstaðan gerði aldrei tillögu um það að hlutabréfasjóður væri liður í einhverjum hallærisráðstöfunum ríkisstjórnar. Stjórnarandstaðan hugsaði sér það aldrei að áfram yrði haldið uppi hallarekstri sjávarútvegsins og hann síðan falinn með því að láta opinbera sjóði gefa eftir skuldir til

sjávarútvegsfyrirtækja með því að bankar breyttu skuldum í aðildarbréf svokölluð eða með því að Alþingi veitti sérstöku fé í þennan hlutabréfasjóð til þess að halda uppi hallarekstrinum. Það var aldrei um það rætt af stjórnarandstöðunni. Þvert á móti horfðu hugmyndir stjórnarandstöðunnar um hlutabréfasjóðinn til framtíðar, til þess að byggja upp einhver ný fyrirtæki, nýjan rekstur, alveg eins og kom fram hjá hagfræðingi Alþýðusambands Íslands í sjónvarpinu í kvöld þegar hann talaði einmitt um þennan veikleika sjóðsins.
    Mér finnst satt að segja að þó svo að ráðherrar séu kannski ekki alltaf vandir að sínum ummælum hljóti þeir í helstu stefnuræðum sínum að reyna að fara rétt með, halda sér við sannleikann og reyni ekki að fela sig bak við stjórnarandstöðuna. Það er auðvitað mjög ámælisvert og algjörlega þýðingarlaust fyrir fulltrúa Alþfl. eða Alþb. að skorast undan því að bera ábyrgð á þessari ósannsögli, á þessari tilraun til blekkingar því að vitaskuld var texti ræðunnar borinn undir ríkisstjórnina í heild og auðvitað hljóta einstakir ráðherrar að bera hver og einn ábyrgð á orðalagi ræðunnar. Þetta er algjörlega ljóst og staðfestist líka af því að það var upplýst á fundi með þingflokksformönnum eftir hádegið að samkomulag hefði verið um það í ríkisstjórninni að forsrh. talaði einn. Um slíkt samkomulag hefði aldrei getað orðið að ræða nema aðrir ráðherrar vissu nákvæmlega hvað hæstv. forsrh. hugsaði sér að segja.
    Annað sem líka vekur mikla athygli er að í ræðu hæstv. forsrh. er reynt að gera myndina af stöðu sjávarútvegsins betri en hún raunverulega er, eins og raunar kom fram hjá hæstv. sjútvrh. hér áðan. Í ræðunni er talað um það að staða saltfiskvinnslunnar sé jákvæð um 4,5%. Það má vera að reikningar Þjóðhagsstofnunar sýni fram á það að svo hafi þetta verið um áramót, kannski nú í janúarmánuði, en á hinn bóginn vitum við það að saltfiskvinnslan býr við mikla óvissu nú. Það er nú í fyrsta lagi að almennt er fiskverð hærra en gert er ráð fyrir í útreikningum Þjóðhagsstofnunar og vaxtakostnaður meiri, eins og raunar kom fram hjá sjútvrh., og Þjóðhagsstofnun og fulltrúar saltfiskvinnslunnar eru einmitt að reyna að komast að niðurstöðu um það hvernig beri að reikna afkomu vinnslunnar, eru að reyna að ná samkomulagi um það, þannig að þar er ekki um nein illindi að ræða.
    Í öðru lagi blasir það við að eftir að tillögur fiskimálanefndar Evrópubandalagsins lágu fyrir, þar sem gert er ráð fyrir að lækka heildarmagnkvótann úr 52.500 tonnum í 30.000 tonn og þar sem gert er ráð fyrir að tollur sem var 5% á þessu magni verði 9% en síðan 13%. Auðvitað mundi það hafa mjög örlagaríkar afleiðingar fyrir saltfiskmarkaðinn ef allt fer á versta veg í þessum efnum eins og ýmsir óttast. Er kannski líka ástæða til að rifja upp í þessu sambandi að saltfiskframleiðslan á nú í kannski enn þá harðari samkeppni við Norðmenn en áður sem hafa fengið tollfrjálsan viðbótarkvóta í saltfiski fyrir allt að 30.000 tonn vegna þess að þeir hafa látið undan

kröfunni um fiskveiðiheimildir. Þetta setur saltfiskinn í erfiðari samkeppnisstöðu en ella og það er enginn vafi á því að ef þessir tollar og kvótar verða að veruleika þá mun inneign saltfisksins í Verðjöfnunarsjóði étast upp á síðari hluta þess árs. Það liggur m.ö.o. fyrir að ef þetta fer á versta veg þá mun staða saltfisksins verða rétt svipuð og staða frystingarinnar, munurinn verður einungis sá að saltfiskurinn á nokkra peninga í Verðjöfnunarsjóði þar sem á hinn bóginn frystingin fær peninga beint úr ríkissjóði, 800 millj. kr. Er nauðsynlegt að fá frekari upplýsingar um það hvort ríkisstjórnin hugsi sér að halda áfram að fjármagna Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins, frystideildina, nú á þessum vordögum vegna þess að það kom skýrt fram í ræðu sjútvrh. að þó svo að viðbótarheimildin, þessi 2,25% heimild
til viðbótargengisfellingar, verði notuð þá mun það ekki laga stöðu sjávarútvegsins nægilega til þess að hann standi undir sér. Hvorki frystingin né saltfiskurinn. Auðvitað gerir það svo myndina enn dekkri en ella að staða veiðiskipanna er síður en svo glæsileg. Það má ætla eftir þessa gengisfellingu að bátaflotinn sé kannski með 16--17% neikvæða rekstrarstöðu og auðvitað léttir það ekki undir með bátaflotanum að gæftir hafa verið óvenju erfiðar og lélegar nú hringinn í kringum landið þannig að staða bátaflotans er vissulega erfið.
    Ég hygg að hæstv. forsrh. komist engan veginn undan því að gera grein fyrir því hér í framhaldsumræðunni hvort ríkisstjórnin hugsar sér að hækka fiskverð eða hvað hæstv. ríkisstjórn hugsar sér að taka til bragðs. En það er engan veginn auðvelt að hækka fiskverðið því öll hækkunin mundi koma fram sem halli hjá frystingunni eða saltfiskinum þar sem ekki er af neinu að taka. Og ef hæstv. forsrh. talaði um það fyrir einu ári að Róm brynni þá get ég ekki séð annað en að afkoma a.m.k. bátaflotans standi í ljósum logum. Hér er talað um 14% neikvæða rekstrarstöðu, gengisfellingin bætist svo við, þessi 2,5% og síðan 2,25%.
    Ef við tölum hins vegar um frystitogarana þá standa þeir líka verr en sl. ár, bæði vegna þess að mjög hefur verið þrengt að þeim með veiðiheimildir og líka vegna hins að markaðir hafa þrengst, Japansmarkaður hefur þrengst mjög mikið og er ekki fyrirsjáanlegt hvernig það endar. Ég skal ekki vera uppi með neinar svartsýnisspár sérstaklega af þeim sökum, ég tel á hinn bóginn nauðsynlegt að vekja athygli á því, og legg á það áherslu, að þó svo að ríkisstjórnin geri ráð fyrir 2,25% viðbótargengisfellingu, kannski í kringum páskana, hefur beinlínis lýst því yfir hér í kvöld að búast megi við nýjum efnahagsráðstöfunum á vordögum nema til komi veruleg hækkun á fiskmörkuðum erlendis. Það er að vísu áreiðanlega rétt að við erum komnir í botninn á markaðinum í Bandaríkjunum og það má kannski búast við því að þar verði um einhverjar hækkanir að ræða, ég skal ekki um það segja, en allt er þetta á brauðfótum og áreiðanlega rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði að ástandið í sjávarútveginum er þannig

núna að það dugir ekki að halda þannig á spilunum að hallareksturinn haldi áfram. Það dugir ekki fyrir menn sem vilja halda því fram og leggja áherslu á það í sinni ræðu að þeir vilji atvinnu um allt land, þeir vilji halda uppi atvinnu um allt land, að halda áfram þessum hallarekstri.
    Fulltrúar Ólafsfirðinga komu á fund þingmanna kjördæmisins nú í síðustu viku vegna þess að bæði frystihúsin á staðnum eru lokuð. Ekki kannski vegna þess að þessi fyrirtæki eigi ekki fyrir skuldum, þau eiga fyrir skuldum, heldur vegna hins að Atvinnutryggingarsjóður útflutningsgreina, Stefánssjóður, fjölskyldusjóður Stefáns Valgeirssonar, mat stöðuna svo að frystihúsin hefðu ekki rekstrargrundvöll. Auðvitað höfðu þessi frystihús ekki rekstrargrundvöll. Og aumingja stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, tveir ráðherrar og tveir þingmenn, þegar þeir sátu fyrir framan Ólafsfirðingana og voru að tala um það að þeir yrðu að bíða fram yfir helgi til þess að þeir norður á Ólafsfirði fengju að sjá hversu rausnarleg ríkisstjórnin yrði þegar hún færi nú að bæta stöðu sjávarútvegsins eftir helgina --- þegar hún færi að bæta stöðu sjávarútvegsins eftir helgina. Og nú er sannleikurinn kominn í ljós. Hér liggur plaggið fyrir og það er sameiginlegt mat, bæði sjútvrh. og forsrh., að sjávarútvegurinn standi áfram höllum fæti, gengið hafi ekki verið leiðrétt nægilega fyrir útflutningsatvinnuvegina og hugmyndin sé sú að segja við þá á Ólafsfirði, segja við þá á Breiðdalsvík --- eigum við að segja í Stöðvarfirði, eigum við að fara víðar um landið? --- að segja: Þið eruð beiningamenn.
    Hæstv. forsrh. talaði um að 70--80 fyrirtæki væru gjaldþrota og skilgreinir þessi fyrirtæki svo í sinni ræðu nú í dag að fyrirtækin sem eru gjaldþrota séu þau fyrirtæki sem Atvinnutryggingarsjóðurinn hafi neitað um fyrirgreiðslu. Hæstv. forsrh. hefur líka sagt í fjölmiðlum í sambandi við þá sem vinna við útflutninginn að þar hafi ríkt ráðdeildarleysi, þeir hafi ekki sýnt nægilega ráðdeild í sjávarútveginum. Hann notaði orðið ráðdeild. Nú veit ég ekki hvort hæstv. forsrh. getur hrósað sér af sérstakri ráðdeild í nýja Atvinnutryggingarsjóðnum sínum sem öllu á að bjarga. Nú veit ég ekki hvort það sýnir sérstaka ráðdeild hjá ráðherra og ríkisstjórn, sem hélt því fram fyrir ári að Róm brynni, og hjá ríkisstjórn, sem talar um þjóðargjaldþrot í októbermánuði, að hún skuli nú halda hallarekstrinum áfram og skuli halda áfram að ganga hart að því fólki úti um landið sem hefur allan sinn aldur lifað af sjó, dregið fiskinn og björgina á land. Það er kannski aukaatriði hvort þetta fólk hefur atvinnuöryggi. Það er kannski afgangsstærð, gengið, sem ræður því hvort fyrirtækin geta snúist með eðlilegum hætti. Afgangsstærð.
    Það má minna hæstv. ráðherra á það að atvinnuleysi hér á landi hefur aldrei verið meira síðan 1969 en nú í jólamánuðinum. Og þeir menn sem hafa verið að biðja um vinnu, hringja í mann og biðja um atvinnu, þeir eru ekki bjartsýnir.
    Ég hafði satt að segja vænst þess að það yrði meiri karlmennska í þessum ráðstöfunum. ( Forseti: Forseti

vill spyrja hv. þm. hvort hann eigi eftir langt mál af ræðu sinni.) Það fer nú allt eftir því hvort maður kemst í stuð.
( Forseti: Forsetar þingsins hafa ákveðið í samráði við þingmenn að þessum fundi verði frestað klukkan tólf. Því vildi ég láta hv. þm. vita af.) Já. Nú mundi ég vilja óska mér þess að ég hefði þá tungu sem væri svo lipur og snjöll að hæstv. forsrh. mundi skilja hvað ég er að fara og sannfærast af því að ég hafi rétt fyrir mér, eins og hann sagði í sjónvarpsþættinum, einhvern tíma sagði Keynes, sá frægi hagfræðingur: ,,Þegar ég heyri eitthvað sem breytir skoðunum mínum þá viðurkenni ég það.`` ,,Annar eins maður og Oliver Lodge / fer ekki með neina lygi,,, sagði Örn Arnarson. Það er auðvitað alltaf gaman og gott að geta vitnað til einhverra frægra manna. Einu sinni var formaður í Framsfl. sem kunni Sturlungu og þótti skemmtilegra að vitna í Sturlungu.
    Nú er það svo að hæstv. forsrh. og þeir ráðherrar allir hljóta að viðurkenna að bjargráðin öll í september eru að engu orðin. Ég vil leyfa mér að skora á hæstv. menntmrh., af því að hann er svo kurteis að vera hér í salnum, að standa nú upp næst þegar þetta mál kemur á dagskrá, hvort sem það verður á morgun eða fimmtudaginn, og endurtaka orðin sem hann viðhafði í efri deild þegar hann var nýkominn í ráðherrabuxurnar og nýsestur í ráðherrastólinn. Þá sagði hæstv. ráðherra: Nú erum við búnir að bjarga öllum fyrirtækjunum sem þið settuð á hausinn og við vorum enga stund að því, við þurftum ekki að blaka hendi. Og þá var hæstv. ráðherra að tala um það að það þyrfti svo sem ekki mikið að skerða lífskjörin. En nú er spurningin: Er það virkilega þannig að íslenskir atvinnuvegir, íslensk þekking og íslenskar auðlindir standi ekki undir þeim lífskjörum sem við lifum við í landinu? Hæstv. forsrh. segir það berum orðum í sinni ræðu hér. Hann sagði það sama í sjónvarpinu um mánaðamótin og hæstv. sjútvrh. kom að sama máli hér áðan. Öll ríkisstjórnin er komin að þeirri niðurstöðu að atvinnuvegirnir standi ekki undir þeim lífskjörum sem við lifum nú við hér á landi og þess vegna verðum við að búa okkur undir það það sem eftir er ársins, ekki aðeins að engar launahækkanir megi verða frá því sem þegar er ákveðið, heldur til viðbótar að gengið haldi áfram að lækka. Fyrst um 2,25%, síðan um eitthvað í vor o.s.frv. vegna þess að raungengi á mælikvarða launa sé enn of hátt fyrir þjóðarbúið þó það hafi á einu ári lækkað um nálægt 15%. Geri ég þá ráð fyrir að ekki sé reiknað með þeirri gengisfellingu sem nú varð í dag þannig að sú raungengislækkun á mælikvarða launa sem við erum hér að tala um er einhvers staðar á bilinu 17--18%. Það er m.ö.o. búið að lækka launin í landinu um 17--18% og stendur til að lækka þau meir.
    Ég var á fundi á Hótel Borg í septembermánuði skömmu áður en Þorsteinn Pálsson baðst lausnar fyrir ráðuneyti sitt. Þar var staddur formaður þingflokks Alþb., Steingrímur J. Sigfússon ráðherra, og þar var staddur Svavar Gestsson, báðir þingmenn þá, báðir ráðherrar núna. Þeir gerðu hvor með sínum hætti

harða atlögu að mínum málatilbúnaði af þeim sökum að báðir töldu þeir öll efni standa til þess að hækka launin í landinu, bæta lífskjörin. Báðir þessir tveir menn. Allar þeirra ræður gengu út á það að það væri af illgirni einni saman sem sú ríkisstjórn sem þá sat vildi ekki beita sér fyrir enn frekari kjarabótum en þá voru orðnar. Nú spyr ég hæstv. menntmrh. hvort hann sé sammála þeim skilningi, sem ég legg í ummæli hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh., að allt of hátt hlutfall af þjóðartekjum renni í vasa launamanna. Ég vil líka spyrja hæstv. menntmrh. hvort hann sé sammála þeirri kenningu hæstv. fjmrh. að það yrði kannski mikil bót og mikill bati af því ef allir Íslendingar, allir launamenn, yrðu að una því að fá kauptaxtana bera. Engar yfirborganir, engan bónus, heldur skyldu menn búa við kauptaxtana eina. Það má vel vera, hæstv. forsrh., að það sé hægt að reikna út falska kaupmáttarrýrnun í landinu með því að bera kaupmátt kauptaxtans á einum tíma saman við kaupmátt kauptaxta á öðrum en taka ekki tillit til hins ef þeim fer fjölgandi sem verða að sætta sig við lægstu launin.