Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það ber að fagna því að þetta frv. skuli nú vera komið fram. Vonandi verður það til þess að einhverrar hreyfingar sé að vænta í málefnum fjölskylduráðgjafar almennt. Ég vil lýsa yfir stuðningi við þetta frv. og tel að það muni verða til mikilla bóta. Ég held að það sé rétt að þróa slíka tilraunastarfsemi fyrst hér á höfuðborgarsvæðinu og í því sé í raun ekki fólgin mismunun vegna þess að þegar reynsla er komin á starfsemina þá verði hún ferjuð út í dreifbýlið á traustari grundvelli en nú væri og sjálfsagt að þessi þjónusta sé fáanleg í næsta umhverfi og þess vegna á vegum sveitarfélaga í framtíðinni. Hins vegar tel ég nauðsynlegt að sú verkaskipting sem fyrir liggur og er í mótun milli ríkis og sveitarfélaga verði ekki til þess að tefja framgang þessa máls, en að það fái brautargengi hér á þinginu.
    Hins vegar finnst mér það athugavert við frv. að það er of takmarkað, þ.e. ráðgjöfin og aðstoðin nær einungis til ákveðins mjög takmarkaðs sviðs. Og þó að ég viðurkenni að þar sé vissulega hjálpar þörf og þar séu verkefni sem þurfi að sinna betur og á annan hátt en verið hefur, þá er hann mjög þröngur og skýrt afmarkaður sá málaflokkur sem ráðgjöfinni er ætlað að sinna. Því er þetta frv. í raun alls ekki um fjölskylduráðgjöf í víðasta skilningi, heldur fyrst og fremst aðstoð í tengslum við sambúðarslit foreldra, eins og stendur í 1. gr., með höfuðáherslu á úrlausn forsjár- og umgengnisréttarmála. Mér fannst reyndar málflutningur hæstv. ráðherra og sú greinargerð sem hún flutti frá Sigrúnu Júlíusdóttur félagsráðgjafa renna sterkum stoðum undir það að það er brýn nauðsyn á því að setja á laggirnar slíka aðstoð og í svipuðu formi og hér er hugsað sem tilraunastarfsemi sem síðan yrði ferjuð út til sveitarfélaganna.
    Hæstv. ráðherra minntist á ýmsa þjónustu sem þegar er fyrir hendi í samfélaginu, t.d. heilsugæslustöðvarnar, en ég er þess fullviss að þar er hvorki fyrir hendi nægileg sérfræðileg aðstoð og þekking né heldur tími til þess að leysa vanda af þessu tagi. Ég held að þar eigi fólk fullt í fangi með að sinna líkamlegum kvillum og hafi ekki svigrúm eða bolmagn til þess að taka á þessum málum í nógu ríkum mæli. Sálfræðideildir skóla má líka nefna til. Þeim er ætlað fyrst og fremst greiningarhlutverk og þar er líka sami vandinn. Þar er ekki nóg af starfsfólki með sérfræðilega þekkingu sem sinnt getur þessum málum í nógu ríkum mæli.
    Hæstv. ráðherra minntist á félagsmálastofnanir. Reyndin er sú að þau mál sem þangað koma eru mál fólks sem komið er í algjör þrot þannig að þar er um að ræða verulegar kreppur og vandamál sem eru allt annars eðlis en þau vandamál þar sem má koma í veg fyrir djúpstæðan ágreining eða mikinn vanda og byggja fólk upp þannig að það lendi ekki í því að þurfa að leita til félagsmálastofnana eins og nú er.
    Hæstv. ráðherra vék einnig að göngudeildum geðdeildanna og sagði réttilega að þar væri um að ræða stofnanir sem mjög margir veigra sér við að

sækja vegna þess að þeir telja sig ekki endilega eiga heima í þeim hópi. Þar er um að ræða viðhorf sem auðvitað þyrfti að breytast, en það verður að horfast í augu við raunveruleikann.
    Mín tillaga er sem sé sú að þetta verði almennt víkkað út og látið taka til víðara sviðs. En ég vil samt leggja áherslu á að ég tek undir efni þessa frv. og styð það heils hugar. Ég geri mér grein fyrir því að þarna er mikill vandi á ferðinni sem þarf að taka betur á en nú er og koma í ákveðinn farveg.
    Það er kannski líka smáatriði sem vert væri að taka fram að það er sérstaklega getið um sérfræðiaðstoð sálfræðinga og lögfræðinga. Það er út af fyrir sig mjög gott að þarna skuli eiga sæti lögfræðingar vegna þess að oft er um að ræða lagalegan rétt og skilgreiningu á honum, en hins vegar er kannski óþarfi að taka sérstaklega fram sálfræðinga umfram aðra félagssálfræðilega menntaða sérfræðinga. Þar koma margir til eins og geðlæknar, félagsráðgjafar, geðhjúkrunarfræðingar og uppeldisfræðingar svo eitthvað sé nefnt. Það er kannski miklu fremur til þess fallið að skapa óánægju og efla ríg milli starfsstétta sem vinna að sömu málunum að tilgreina á þennan sérstaka hátt sálfræðinga umfram aðra þó að það sé vitanlega engin gagnrýni á þeirra starf eða hæfni á sviði skilnaðarráðgjafar. Það væri kannski æskilegra að í frv. væri kveðið á um að tryggt væri að þeir sem starfræktu þessa þjónustu hefðu sérfræðiþjálfun á sviði fjölskyldumeðferðar eða fjölskylduvinnu og þá einkum skilnaðarráðgjafar eins og frv. liggur hér fyrir.
    Vonandi er þessari hugmynd ætlað að þróast áfram þannig að fjölskylduráðgjöf gæti rúmast með þessu og finnst mér í raun rík ástæða til þess að freista þess að gera brtt. eða á annan hátt að reyna að víkka út starfssvið þessarar fjölskylduráðgjafar þannig að hún geti orðið að réttnefni.
    En ég vil ítreka að þrátt fyrir þessa gagnrýni sem ég hef borið fram þá er það ekki vegna þess að ég sé ósammála frv. sem slíku. Ég tel það mjög nauðsynlegt og gott að það er komið fram en ég tel jafnframt að það þurfi að víkka út þessa aðstoð og efla hana og alveg á sama hátt og lagt er til í þessu frv.