Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Herra forseti. Ég skal ekki verða til þess að lengja þessa umræðu, en ég tel þó ástæðu til þess að standa hér upp og þakka þær umræður sem hér hafa orðið, sem hafa enn frekar sannfært mig um að hér sé mjög brýnt og þarft mál á ferðinni. Hér hafa margir hv. þm. tjáð sig um þetta mál sem hafa þekkingu á þessu máli og ég heyri ekki annað en það sé samdóma álit þeirra sem hér hafa talað að það sé mikið gagn og gildi af þessari starfsemi. Ég vek einnig athygli á því að um þetta málefni hafa úr þessum ræðustól tjáð sig þingmenn úr öllum flokkum sem lýst hafa jákvæðri afstöðu til málsins þannig að ég vænti þess að þetta frv. nái fram að ganga.
    Það var beint til mín ákveðinni spurningu frá hv. þm. Guðmundi Ágústssyni sem spurði hvernig þessi fjölskylduráðgjöf ætti að starfa og hvernig hún tengdist starfi barnaverndarnefnda. Það kemur fram í frv. að hér er um að ræða að þetta verði sérstök miðstöð fjölskylduráðgjafar undir yfirstjórn félmrn. og þessi fjölskylduráðgjöf breytir í engu starfi barnaverndarnefnda, en komist þessi fjölskylduráðgjöf á laggirnar hlýtur hún vitaskuld að starfa að einhverju leyti í samvinnu við barnaverndarnefndir og þá aðila sem um þessi mál fjalla.
    Það hefur verið komið inn á það hér, m.a. af hv. síðasta ræðumanni, að þessi starfsemi ætti að vera inni á heilsugæslustöðvunum. Ég held að það sé rétt, eins og er lagt til reyndar í frv., að þetta þróist til reynslu sem sjálfstæð fjölskylduráðgjöf og síðan muni reynslan og endurskoðunin sem hér er gert ráð fyrir skera úr um hvernig þessu verður svo háttað í framtíðinni, hvort þetta verði þá í tengslum við félagslega þjónustu sveitarfélaganna. Ég vek þó athygli á því að fyrir utan að það séu sérfræðingar sem starfi í þessari fjölskylduráðgjöf, t.d. sálfræðingar, er hér gert ráð fyrir lögfræðingi sem eins og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir kom inn á er mjög veigamikill þáttur í slíkri starfsemi.
    Eins og hér hefur komið fram og hv. þm. Sólveig Pétursdóttir kom reyndar inn á líka er hér um að ræða, eins og hún orðaði það, viðbótarþjónustu við þá þjónustu sem fyrir er þannig að hér er á engan hátt verið að fara inn á verksvið heilsugæslustöðva eða félagsmálastofnana heldur er fyrst og fremst um viðbót að ræða þar sem tekið er á þeim vandamálum sem heilsugæslustöðvar eða félagsmálastofnanir hafa ekki ráðið við.
    Ég vil segja í lokin, herra forseti, að ég tel að hér sé mjög brýnt mál á ferðinni sem eigi að reyna vegna þess að skilnaðarmál og forsjárdeilumál sem þessi fjölskylduráðgjöf á fyrst og fremst að fjalla um bitna oft með miklum þunga og mjög harkalega á börnum og það oft svo harkalega að þau bera þess alvarlegar menjar lengi á eftir og kannski alla ævi. Ef slík fjölskylduráðgjöf, þó hún kosti eitthvert fé, getur komið í veg fyrir að skilnaðarmál lendi með miklum þunga á börnum er tilganginum með þessu frv. náð vegna þess að hér erum við að koma á fjölskylduráðgjöf sem á fyrst og fremst að halda uppi

fyrirbyggjandi starfi, forvarnarstarfi til þess einmitt að vinna með bráðavanda fjölskyldna sem kemur upp í skilnaðarmálum og koma þá í veg fyrir að málin verði miklu erfiðari og flóknari en þau ella þyrftu að vera. Við skulum þá hafa í huga að ef mál þróast upp í það að verða mjög erfið og bitna með miklum þunga á börnunum getur það verið samfélaginu miklu dýrara en það sem kostar að koma upp síkri fjölskylduráðgjöf.
    En ég þakka fyrir þær umræður sem hér hafa orðið og vona að þetta mál nái fram að ganga á þessu þingi.