Fjölskylduráðgjöf
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Mig langar til þess að benda hv. þm. á það sem er í greinargerð en ekki kom fram í nefndaráliti starfshópsins að um er að ræða viðbót. Þessi starfshópur taldi að það gæti valdið misskilningi um tengsl þessarar þjónustu við aðra félagsmálaþjónustu í landinu og þar vil ég nefna til atriði eins og t.d. um barnaverndarnefndir. Hér segir, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Barnaverndarnefndir, sem eru umsagnaraðilar í umgengnisréttar- og forsjárdeilumálum, eru ekki í stakk búnar til að veita sérstaka fjölskylduráðgjöf, enda ekki heppilegt að slík ráðgjöf sé einnig í höndum þeirra sem e.t.v. þurfa síðar að veita umsögn í forsjárdeilumáli sömu aðila.``
    Þetta hefur e.t.v. valdið nokkrum misskilningi hjá hv. þm. og finnst mér að þessi fullyrðing eigi ekki rétt á sér hér. Vísa ég sérstaklega til þess að nú stendur yfir endurskoðun á barnaverndarlögum þar sem gera má ráð fyrir því að mestur vandi stafi af því m.a. hversu margar barnaverndarnefndir eru úti um allt land og í fámennum byggðarlögum þar sem e.t.v. er ekki kostur á sérfræðiþjónustu o.s.frv. Það má vænta þess að félagsmálaþjónusta almennt í landinu, ekki síst hvað snertir barnaverndarnefndir, muni komast fjótlega í betra horf.
    Ég minntist á þetta sérstaklega einnig vegna þess að hv. þm. Guðmundur Ágústsson var að spyrja áðan um tengsl barnaverndarnefnda við þá ráðgjafarþjónustu sem um er rætt í frv. Eins og ég sagði áðan er um viðbótarþjónustu að ræða. Starfsmenn félagsmálastofnunar, læknar og aðrir sérfræðingar geta vísað fólki á þessa þjónustu að sjálfsögðu, en ekki síst mun þó fólk geta leitað eftir þessari þjónustu að eigin vilja og frumkvæði.
    Hæstv. þingforseti velti því fyrir sér áðan hvort í þessu frv. væri einungis verið að byggja varnargarð, en það orð var notað. Að sjálfsögðu er það satt og rétt að betur þyrfti að treysta fjölskylduböndin í þessu þjóðfélagi, en ekki verður séð að það sé alltaf haft í huga. Jafnvel getum við tekið dæmi um alla þá hækkun á sköttum, bæði beinum og óbeinum, sem hæstv. ríkisstjórn stendur fyrir sem getur valdið heimilum þungum búsifjum og jafnvel valdið hjónaskilnuðum. Það ber því margt að varast og víða þarf að byggja varnargarðana.
    Lögfræðiþjónustan er hér einnig mjög mikilvæg og ítreka ég það því að ekki virðast liggja fyrir aðgengilegar upplýsingar fyrir almenning um þessi mál og skólayfirvöld virðast ekki sjá ástæðu til að fræða nemendur sína um einföldustu lögfræðilegar staðreyndir, svo sem lögfylgjur hjúskapar. Er þó ljóst að fyrir flestum þessara nemenda á eftir að liggja að stofna heimili með einum eða öðrum hætti. Ég tel fulla ástæðu til og raunar brýnt að á námsskrá skólanna sé sett einhver fræðsla á þessu sviði. Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í og leitt er til þess að hugsa hve mörg hjónabönd eða sambýli hafa flosnað upp m.a. vegna misskilnings eða fáfræði um eðli og lögfylgjur þessara

sambanda.
    Að lokum þakka ég hæstv. félmrh. fyrir framlagningu þessa frv.