Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Eiður Guðnason:
    Herra forseti. Á fundi sem stundakennarar við Háskóla Íslands efndu til með fulltrúum þingflokka fyrir ári eða hálfu öðru ári bar þessi mál á góma, vald Háskólans og valdmörk og vald ráðherra. Þá lýsti ég þeirri skoðun minni og míns flokks að að því er varðaði skipun í störf og embætti í Háskólanum ætti að færa það vald frá ráðherra og flytja það til Háskólans í auknum mæli. Þetta frv. miðar í þá átt og er skref í þá átt, enda nýtur það að ég hygg víðtæks stuðnings innan Háskólans, þótt vera kunni þar um þetta eins og ævinlega er, að þar eru ekki allir algerlega á eitt sáttir, en hér er verið að stíga skref í rétta átt. Það er verið að flytja valdið til Háskólans, æðstu menntastofnunar þessarar þjóðar, um það hverjir þar veljist til starfa. Ég fagna því að þetta frv. skuli fram komið og að sjálfsögðu verður þess gætt, og það segi ég vegna orða hv. síðasta ræðumanns, 6. þm. Reykv., við nefndarstörfin að hlýða á sjónarmið þeirra innan Háskóla Íslands sem aðrar skoðanir kunna að hafa á þessu máli en felast í frv.