Háskóli Íslands
Þriðjudaginn 07. febrúar 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég vil vegna ummæla hæstv. menntmrh. ítreka það, sem ég sagði hér áðan, að mér finnst rétt að halda þeirri reglu, sem verið hefur og forseti felldi ekki úrskurð um áðan, að stjfrv. sem eru til 1. umr. í fyrri deild séu prentuð með sérstökum hætti og get ekki fallist á að það sé eðlilegt að breyta uppsetningu stjfrv. þó að frv. sé prentað upp.
    Ég segi þetta ekki í áreitni. Hins vegar lítur frv. þannig út að manni virðist sjálfsagt að koma til móts við hv. þm. með þeim hætti til þess að þeir séu fljótari að átta sig á þeim málum sem þeir eru að fjalla um hverju sinni að halda þeirri reglu sem ég hef hér verið að lýsa.
    Ég segi út af þessu frv. að ég sakna þess að hæstv. menntmrh. skuli ekki sjá ástæðu til að rifja upp þá umræðu sem var nú í sumar varðandi starfsemi Háskólans úr því að hann telur að sú umræða varði beinlínis það frv. sem hér liggur fyrir og óska þess að hæstv. menntmrh. tali út um þau efni þannig að þingdeildarmenn átti sig á hvað hann eigi þar við. Það er greinilegt að hann er að fara kringum það eins og köttur í kringum heitan graut hvað raunverulega vakir fyrir honum með flutningi þessa frv. og af þeim ástæðum held ég að það sé algerlega nauðsynlegt að hæstv. menntmrh. tali út.
    Ég vil í öðru lagi aðeins segja það að ég sakna þess, úr því að á annað borð er farið að prenta fskj. með þessu frv., að ekki skuli einnig prentað með frv. bréf Málvísindastofnunar. Einnig minntist hæstv. ráðherra á að heimspekideild hefði gert athugasemdir við frv. Það hefði verið eðlilegt að þau gögn hefðu fylgt þessu frv. ekki síður en bréf menningarmálanefndar stúdentaráðs Háskóla Íslands.
    Ég get ekki tekið undir það með öðrum þingmönnum sem hér hafa talað að það sé einsýnt mál að það eigi að vera á valdi meiri hluta deildarfundar hvort unnt sé að veita manni prófessorsembætti, dósentsembætti eða lektorsstarf. Ég álít að hér sé um mjög mikla breytingu að ræða og ég óttast að skyndiákvörðun hafi valdið því að þessi leið er valin í sambandi við embættisveitingar við Háskóla Íslands. Á hinn bóginn get ég tekið undir það og verið sammála því að Háskóli Íslands eigi að vera sem mest sjálfstæður. Ekki skal ég tala á móti því og er auðvitað þeirrar skoðunar að það eigi að veita Háskólanum rúmar heimildir til þess að hann geti einnig að sem mestu leyti verið sjálfstæður fjárhagslega, ekki aðeins í sambandi við mannaráðningar heldur einnig í sambandi við fjárhag Háskólans því að auðvitað er það ekkert sjálfstæði fyrir Háskóla að hafa eingöngu um það að segja hverjir megi koma í stað þeirra sem hverfa úr embætti, en Háskólinn hefur lítið um hitt að segja hvernig hann þróast eða inn á hvaða ný svið hann megi fara.
    Ég vil mega vænta þess að Háskóli Íslands veiti menntmn. nauðsynlegar upplýsingar sem beðið verður um þó svo að nefndum Alþingis hafi borist bréf um það frá Háskólanum að um þvílíkt álit sé ekki að

ræða nema sérstaklega sé fyrir það greitt. Ég get út af fyrir sig verið sammála því að Háskólinn eigi að vera stór upp á sig og eigi ekki að veita sérstaka ráðgjöf í sambandi við lagafrumvörp, sem fyrir liggja, ókeypis. Ég er síst að finna að því en ég tel á hinn bóginn að það sé rétt og nauðsynlegt fyrir nefndina að vanda sem best athugun þessa máls. Þegar ég er að tala um að Háskólinn óski eftir sérstakri greiðslu varðandi álitsgerðir til þingnefnda er ég að sjálfsögðu að vísa til þess bréfs sem fjh.- og viðskn. hefur borist frá Lagastofnun Háskólans og sérstaklega hefur verið rætt í fjh.- og viðskn. Ed.
    Ég sé svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum. Það veltur auðvitað mikið á því að sem best sé vandað til þess hverju sinni hverjir setjist í embætti prófessors, dósents eða lektors. Það er nauðsynlegt að sjónarmið séu ekki þröng og nauðsynlegt að þess sé gætt að miklir hæfileikamenn séu ekki sniðgengnir út af kunningjasjónarmiðum eða öðru þess háttar. Ég er ekki að vísa til neins þess sem gerðist í sumar þegar ég segi þetta. Mér var ekki ljóst hvað hæstv. menntmrh. átti við hér áðan og ítreka það, sem ég sagði hér, að ég óska eftir því að hann geri skýrari grein fyrir því hvað olli því að þetta frv. var flutt.